Klukkan er sennilega svona 8.40. Ég er ekkert sérlega seinn, með öllum viðkomustöðum á ég eftir að mæta á réttum tíma í vinnuna. Ánægður með mig bara, þokkalega útsofinn, allir sæmilega brosandi á leið í leikskólann og vinnuna. Við erum óskaplega heppin, við virðumst vera á ferðinni á réttum tíma og sennilega á fáfarnari leið en flestir svo umferðin tefur okkur oftast lítið á morgnana. Lífið er ljúft og ég er léttur í lundu. Ég mjaka mér austur Grandann, svona rétt narta í hámarkshraðann og þarf ekki að spenna mig neitt. Nokkrir hlaupandi monthanar skoppa meðfram sjónum og einn og einn hjólabrjálæðingur skýst hjá á útbúnaði sem kostar sirka 10 sinnum meira en bíllinn minn. Þetta er allt saman ágætt.
Af hliðargötu sé ég bíl hreyfast frá hægri. Hann nálgast gatnamótin og hægir á sér. Stoppar jafnvel alveg. Hann hlýtur að sjá mig, skyggnið er fullkomið og ég í beinni sjónlínu. Hann er vitanlega á biðskyldu og hlýtur að hinkra. Ég meina, hann er stopp og allt. Nei, bíðum við? Mjakar hann sér ekki bara inn á götuna? Ég var á svo góðu rúlli, nú þarf ég að hægja á. Það væri gróft að segja að hann væri að svína, en það munaði þó ekkert miklu. Djöfull er þetta pirrandi. Og nú er ég alveg uppi í rassgatinu á honum. Ekki nóg með að þú hafir keyrt fyrir mig og treyst á að ég myndi bremsa til að keyra ekki aftan á þig heldur ætlarðu að keyra hægar en ég var að keyra áður. Ég lít í baksýnisspegilinn. Enginn. Ástæðan var ekki að þú værir að flýta þér inn á götuna til að þurfa ekki að sitja af þér heila bílaröð. Nei, nei, það hefði tekið 3 sekúndur að leyfa mér bara að keyra framhjá og þá hefðir þú getað lötrað út á malbikið. Og af hverju ertu að keyra á 30? Nú eru hnúarnir á mér farnir að hvítna og ég þarf að vanda orðavalið svo tveggja ára dóttir mín þylji ekki eftir mér ósómann ofan í saklausa leikskólakennarana.
„Það er tvennt í stöðunni. Annaðhvort eru dóni eða fáviti.“
Nú koma bílarnir í rassinn á mér. Eðlilega, við erum svo að segja á gönguhraða. Það er langt eftir af strandlengjunni og engin augljós leið framhjá þessum fokking bjána, umferðareyjur milli reina alla leið og vonlaust að taka fram úr. Í þessum aðstæðum keyri ég undantekningarlaust alveg upp í skottlokið á amöbunni sem þessi manneskja hlýtur að vera og læt á það reyna hvort slíkur þrýstingur auki hraðann. Ekkert. Ekki sinni auga í baksýnisspegil. Svo kem ég loksins að tvíbreiðu og skýt mér fram úr. Ég er vitanlega búinn að ákveða í höfðinu á mér að þarna sé um að ræða gamlan kall með hatt, einhvern sem einfaldlega er ekki búinn að fatta að hann er dauður. Eða því sem næst. Ég hef strá af samúð með þeim hópi, það hlýtur að vera erfitt að þurfa að hætta daglegum aðgerðum á borð við að keyra vegna aldurs. En nei, nei, það er sjaldnast þannig. Þetta er bara alls konar fólk, karlar og konur af öllum gerðum. Ef ég ætti að skjóta á eitthvað trend í þessu væri það svona miðaldra lið. 45–60 ára. Pakk. Fokking pakk!
Ég játa alveg að ég verð óþreyjufullur við svona aðstæður og fæ jafnvel snert af stýrissturlun þegar verst lætur. En þessi skrif fjalla ekki um mig. Ég vil velta fyrir mér hvernig mögulega getur staðið á þessu. Þú sem gerir þetta svona hugsunarlaust nákvæmlega þegar ég er á leið í morgunverkin, keyrir fyrir bíl sem þarf að hemla og safnar síðan bílalest fyrir aftan þig, þú gerir þetta alveg örugglega aftur sama daginn. Og daginn eftir það. Og daginn eftir það. Það er nefnilega ekki hægt að gera þetta óvart, það er bara svona sem þú spilar leikinn. Það er tvennt í stöðunni. Annaðhvort eru dóni eða fáviti. Í annan fótinn vona ég eiginlega frekar að þú sért dóni, þótt fávitaskap sé auðveldara að fyrirgefa. Ég treysti þér nefnilega fyrir lífi mínu alla daga úti í umferðinni hvort sem mér líkar betur eða verr og við algerar neyðaraðstæður hugsa ég að dóninn sé skaðlausari en fávitinn. En ég í alvörunni skil þetta bara ekki. Settu þig í þessar aðstæður, lesandi kær. Gætir þú keyrt í rólegheitum mínútum saman sem fremsti bíll í langri bílaröð? Ég skil allt þetta hippatal um núvitund og kjörnun og þolinmæði og umburðarlyndi og svoleiðis kjaftæði (sem vitanlega er allt satt, gott og fallegt) en hver gerir svona? Hver lætur taka svona ógeðslega mikið tillit til sín? Mistök eru eitt og þau ber að fyrirgefa. Þetta er ekki það. Þetta er bara dónaskapur. Að keyra yfir þegar græna ljósið þitt er löngu horfið og komið grænt hjá mér, láta væla í hjólbörðum í beygjunni meðan farþegahurðin hjá þér strýkur vatnskassann hjá mér, það er brjálæði. Ekki þetta, þetta er ekkert brjálæði. Þetta er bara þessi ógeðslegi dónaskapur. Þú veist að ég þurfti að bremsa. Þú veist að við erum 20 fyrir aftan þig sem viljum keyra hraðar. Skiptir þú í alvörunni svona miklu máli?
Mig grunar að þú gerir nefnilega það sama í daglega lífinu. Þér finnst þú ekki þurfa að standa í röð. Þú hendir ekki ruslinu eftir þig á Stjörnutorgi og finnst í lagi að tala við dónavini þína í bíó. Þú svarar ekki þegar fólk í þjónustustörfum býður góðan daginn og þér dettur ekki í hug að taka upp skítinn eftir helvítis púðluhundinn þinn.
Keyrðu hraðar. Dóni.
Athugasemdir