Til þess að svara þessari spurningu er gott að skoða fyrst hvaðan við komum þekkingarlega séð. Lítum til skrifa í Austur-Húnavatnssýslu fyrir um 200 árum síðan:
Landfarsótt gekk í júlí [1816], svo lestarmenn og grasafólk veiktist í fjarveru sinni. Varð manndauði í meira lagi. Fæddust 1293. Dóu 1584. Fækkaði fólki um 291.1
Fólk var á valdi náttúrunnar en ekki öfugt. Þetta ástand átti eftir að umturnast á 150 árum. Læknisfræði nútímans er byggð á vísindalegri aðferð og á sér ekki nema um 400* ára sögu að megninu til. Nær öll þau meðferðarúrræði sem við höfum í dag t.d. lyf, aðgerðir2 og þær fjölmörgu rannsóknir á líkamsstarfsseminni sem gefa okkur dýrmætar upplýsingar, eru afsprengi lífvísinda, grunnvísinda og samhliða tækniþróun í verkfræði og iðnaði. Án framfara í verkfræði og efnafræðilegrar framleiðslugetu hefði fólk í lífvísindum og læknisfræði ekki haft nein áhöld og efni til að koma meðferðarhugmyndum sínum í framkvæmd. Hin vísindalega aðferð, sem í grunninn er hin sama fyrir öll svið stuðlaði að samþáttuðum framförum fjölda faggreina sem gera sjúkrahús dagsins í dag að hátækniundrum sem engan hefði getað dreymt um á tímum fyrrnefndrar landfarsóttar eða hins hollenska Antonie van Leeuwenhoek, sem fyrstu manna greindi frumur í vef í smásjá sinni á 17. öld.
Á þeirri öldu urðu þáttaskil í þróun vísindalegrar aðferðar. Fræðimenn fór að gruna að ýmislegt í hugsanahætti mannsins stæði manneskjunni fyrir þrifum í leit sinni að þekkingu. Viðmiðið sem Þeir höfðu var að þekking væri skilgreind sem sönn, rökstudd skoðun um hluti í heiminum3 en samt hafði gengið illa að uppfylla þessi skilyrði þekkingar. Það sem er satt um hluti í heiminum er það sem samsvarar raunveruleikanum en vandinn fólst í að draga fram sönnunargögnin og rökstyðja skoðanir okkar. Það er auðvelt að staðfesta að „ég hafi fingur“ því að ég sé þá, finn fyrir þeim og þeir skrifa orð á blað með penna. Ég get fengið vitni til að staðfesta það enn frekar, en hvað með fullyrðinguna; „hafið er salt“? Með því að bragða á sjó og mæla svo saltmagnið með aðferðum efnafræðinnar má koma fram með raunsönn gögn sem rökstyðja fullyrðinguna. Ýmis mælitæki gátu aðstoðað skilningarvitin við að greina það sem var óljóst (of smátt eða of stórt) eða af óþekktum toga, til dæmis kompásinn. Þetta var alls ekki ljóst fyrir vísindabyltinguna og ímyndanir, óskhyggja og hugarburður réðu ríkjum. Með rökhugsun mátti búa til alls kyns líkön út frá ímynduðum forsendum, eins og um sjálfskviknun lífs og blanda hugmyndum um „anda“ eða „innblástur“ við til þess að auka sennileika út frá öðrum viðteknum ímyndunum úr heimi trúarlífsins. Þekkingarheimurinn var að stórum hluta byggður úr alls kyns órum og hjátrú.
Hvað blekkti?
Fólk tók sjaldnast tillit til þess að hugsun okkar hefur tilhneigingu til að afvegaleiða þekkingarleitina. Ef að upplýsingum frá skynjuninni er ekki fylgt af ýtrustu nákvæmni og varkárni afvegaleiðumst við gjarnan af óskhyggju okkar, fyrri villum og vanafestu hugarfarsins. Gamla „aðferðin“ byggðist á því að búa til ríkuleg hugmyndalíkön til skýringar á hlutum og fyrirbrigðum í náttúrunni eða okkur sjálfum. Þetta mátti sjá í öllum menningarsamfélögum manna um alla jörð. Hver þjóðflokkur hafði sína sögu um tilurð jarðarinnar, lífsins og mannfólks. Þær byggðu öllu jafnan á einhverjum stórum upphafsviðburðum sem eitthvað óheyrilega stórt og aflmikið kom af stað. Nærtækt var að búa til kynngimagnaðar verur með óendanlega krafta, en í mannlegri ímynd. Sumir tóku mið af sólinni því að orka hennar var áþreifanleg. Kraftar hafsins og eldfjalla voru einnig sláandi. Þannig urðu til ofurverur sem áttu uppsprettu úr sólinni, hafinu, iðrum jarðar, himnunum o.s.frv. Fleiri lög hugmynda bættust við úr óskhyggju okkar eins og t.d. um fagra velli, ómældan mat og samlífi kynjanna á stöðum ofurveranna sem tækju við okkur eftir dauðann og sæju fyrir hringrás okkar. Jafnan var hinn valdmikli karl – stríðshetjan og tengiliður hins æðra, settur í kenniritunum yfir konuna – fákunnandi þjón og alanda afkvæma hans. Jafnframt var búin til goggunarröð þeirra „útvöldu“ og þeirra „óverðskuldugu“ en í einum elstu rituðu heimildum mannkynssögunnar má finna vitni þess. Hugmyndin um aðkomu ofurveranna (guðanna) var víða það sterk og menningarlega bundin í valdastiga og hegðunarstjórnun samfélaga að valdhafar refsuðu harðlega þeim sem dirfðust að hefja sjálfstæða þekkingarleit. Hinar „myrku miðaldir“ Evrópu voru réttnefndar svo því þessi skoðanakúgun handhafa „þekkingarinnar“ lamaði nær allar framfarir.
Upplýsingin og raunhyggjan
Immanuel Kant sagði að „upplýsingin væri koma mannsins sjálfsköpuðu ósjálfræði sínu“4 og vísaði hann þar til breytts hugsunarháttar sem tók að sigrast á myrkri kreddutrúar og ótta við sjálfstæða hugsun.
Viðvaranir og ráðleggingar fræðimanna vísindabyltingarinnar5 á 17. öld og raunhyggjumanna 18. aldar voru á þessa leið:
1. Við verðum að skilja frá allan vilhalla, þ.e. við getum ekki látið óskir okkar og áráttu til að staðfesta það sem við höldum byrgja okkur sýn. Við þurfum að búa til leiðir til rannsókna til að útiloka slíkt. Tökum heilbrigðan efa í þjónustu okkar og trúum ekki fullyrðingum án sannana.
2. Við þurfum að byrja frá grunni skynjunarinnar – beinnar, skýrrar, milliliðalausar og vel aðgreindar og safna þannig upplýsingum úr heimi reynslunnar.
3. Byggja þarf ofan á reynsluna með nýrri reynslu í stað þess að búa til heim útskýringa sem geta virst rökréttar innbyrðis og hljómað fallega. Skoða smæstu einingar og byggja varlega upp mynd þekkingar.
4. Aukinnar reynslu er aflað með varfærinni skoðun á fyrirbærum með því að mæla, vigta (magnákvarða) og staðsetja viðfangsefnin í tíma og rúmi.
5. Færa út reynsluna á stýrðan máta, þ.e. útfæra og framkvæma tilraunir og skrásetja niðurstöður nákvæmlega. Nota verkfæri og tæki til að ná út fyrir svið skynfæranna (t.d. smásjá eða sjónauki) og auka nákvæmni og óhlutdrægni.
Út frá þessum grundvelli urðu reynsluvísindin til – raunvísindin. Reynslan er harður húsbóndi og það þýddi ekkert að skálda upp í eyðurnar. Allar tilgátur um hvað væri handan við hornið í næstu uppgötvun varð að sannreyna með tilraun, ellegar hafna þeim. Þannig fórum við að skilja og tengja saman nýja hluti.
Þróun lækninga að hætti raunhyggju
Upphaflega reyndum við að hagnýta lífræn efni í jurtum til að lina þjáningar og ef heppin, lækna eitthvað örfátt, en í dag höfum við gríðarlega mörg lyf sem bæði lækna og líkna. Í stað þess að velja eitthvað úr tæmdum reynslubanka alþýðufræða, getum við byggt efni út frá vísindalega fenginni reynslu okkar af því hvernig frumur okkar taka upp og nota hin ýmsu efni. Efnin er hægt að sérsníða að þekktum efnaferlum fruma, líffæra og líffærakerfa. Bráðlega förum við að sérsníða efnin að þörfum sem við metum út frá erfðamengi hvers og eins. Í þessari tækni felst mikill kraftur og vísindaheimurinn er í sífellu að reyna að læra betur að nota hana til gagns. Stærstu sigrar undanfarinna tveggja áratuga hafa e.t.v. unnist á sviði ónæmisbælandi eða ónæmisstýrandi lyfja (líftæknilyf) sem hafa gjörbreytt meðferð ýmissa gigtsjúkdóma, gert líffæraþegum mögulegt að halda gjafalíffærinu og læknað nokkra blóðsjúkdóma, þar á meðal langvinnt merghvítblæði.
Fullkomnun er þó grýtt braut
Lyfjaþróun hefur ekki alltaf verið falleg eða dans á rósum. Ýmis dæmi eru til um misnotkun dýra og manna í meðferðartilraunum, en á síðustu öld voru settar strangar reglur um ákveðin stig þróunar lyfja þannig að tilraunalyf þarf að uppfylla stigvaxandi kröfur öryggis, eftir því sem þróun þess miðar áfram. Afar fá lyf komast í gegnum þá síu og því er lyfjaþróun óheyrilega dýr. Lyfjafyrirtæki þurfa að vernda einkarétt sinn á nýjum lyfjum til ákveðinna fjölda ára svo að þau nái að greiða þennan kostnað niður og eiga eitthvað eftir til þróunar á fleiri lyfjum. Álagning lyfjafyrirtækja á ný lyf hefur sætt meiri gagnrýni undanfarna áratugi, sérstaklega í tilviki krabbameinslyfja. Það hefur ekkert með gæði lyfjanna að gera en getur svert orðstír fyrirtækjanna, ef um óhóf er að ræða.
Erfiðast gengur e.t.v. að þróa lyf fyrir geðræna sjúkdóma og þar hefur skapast nokkur órói og tortryggni gagnvart vísindasamfélaginu og samsæriskenningar um „gráðuga lyfjarisa“ náð flugi. Aukaverkanir lyfja eru hve mest áberandi þegar geðlyf eiga í hlut. Geðlyf hafa linað vanlíðan en að svo miklu leyti sem geðrænir sjúkdómar geta talist vandamál í lífrænum efnaferlum miðtaugakerfisins, þá hefur leit okkar ekki enn borið þann árangur að við skiljum hvernig það megi til dæmis útskýra djúpt þunglyndi eða ýmsar gerðir geðrofs. Geðræn vandamál eru mörg hver mikið samspil erfða, félagsmótunar, persónuþroska, samskipta og lifnaðarhátta. Samþáttun ólíkra úrræða hefur verið ein stærsta áskorun heilbrigðiskerfa síðustu áratuga.
Einstaka sjúkdómar taugakerfisins hafa þó skýrst út frá skorti efna eins og í Parkinson‘s sjúkdómi þar sem L-dópamín vantar og Wernicke‘s taugahrörnun út frá skorti á B12 vítamíni. Fjölmargir efnaskiptasjúkdómar hafa greinst (t.d. sykursýki, vanstarfsemi skjaldkirtils) og við þeim gefin tilhlýðileg næringar- eða lyfjameðferð. Aðeins fyrir sakir þessarar skipulegu vísindalegu aðferðar varð þetta allt mögulegt. Stærstu sigrarnir voru uppgötvun örvera og þróun sótthreinsunar, bóluefna og sýklalyfja. Vísindaleg úrræði eru ekki gallalaus en þau eru ástæða þess að meðalævilengd tvöfaldaðist og stór hluti mannkyns losnaði úr fjötrum fátæktar. Spurningunni í titli greinar er því svarað á þá vegu að meðferðarúrræði hefðbundinna lækninga eru allflest sannreynd á traustan vísindalegan máta.
Miðaldir í heimsókn
Er þá ekki málið dautt? Erum við ekki komin í öruggt skjól frá myrkri miðalda? Nei, því miður er það ekki svo einfalt og gott. Samfélag vísinda hefur haldið áfram að blómstra þó að framlag einkaaðila hafi minnkað töluvert miðað við upphaf 20. aldarinnar þegar sjúkrahús og rannsóknarstofnanir skutust upp eins og gorkúlur víða um fylki BNA. Það framlag skilaði miklu en í öryggi nútímans finna færri eigendur stórfyrirtækja þörfina fyrir því að veita fé í heilbrigðismál og vísindi, nema að það veiti þeim skjótfenginn arð á móti. Að sama skapi hafa ríkisrekin heilbrigðiskerfi verið skorin niður í mörgum löndum og þrengt að háskólastarfsemi. Um aldamótin síðustu var búið að kortleggja allt erfðamengi manneskjunnar en praktísk not af þeirri þekkingu hafa látið á sér standa. Það er eðlileg tregða þess að raunveruleg þekking kostar mikla fyrirhöfn og oft mikla fjármuni. Til þess að skapa úrvals skilyrði framfara þurfa stjórnmálin hafa stefnumiðin og forgangsröðun fjármuna í lagi. Miðaldir eru nefnilega enn í heimsókn víða um lönd. Miklum fjármunum er varið í presta og biskupa í stað sálfræðinga og geðlækna og einkaaðilar eru víða uppteknari af skattalækkunum eða skattsvikum en að leggja stoltir til samtryggingar þjóðfélagsins. Þess í stað hafa ýmsir fjársterkir einkaaðilar og áhrifamiklir pólitískir aðilar í vestrænum heimi lagt til uppkomu hjávísinda og gervilækninga til þess að lækna kvíða sinn og óvissu lífsins. Ótal milljarðar hafa þannig farið í súginn í t.d. Bretlandi og Þýskalandi þar sem miðaldarleg gervifræði eins og hómeópatía og ótal „nýaldarfræði“ hafa fengið óverðskuldaðan stuðning. Mitt í hátækninni hefur okkur mistekist að gefa fólki þekkingarleg verkfæri hugans til að verjast ákomu bábilja heilsuskrumara í anda miðalda sem nýta sér traustið sem fólk almennt hefur í dag til þess sem hljómar vísindalega. Einnig hefur mistekist að vopna eftirlitsstofnanir með fræðilegum mannskap og fjármunum til að taka lagalega á heilsusvikum. Með tilkomu vefsins geta skrumarar breitt út skemmdir á þekkingarverðmætum með ótrúlegum hraða. Eitt skýrasta dæmi þess er skemmdin á bólusetningarprógramminu víða um heim. Það hefur nú þegar valdið dauða barna úr mislingum. Bábiljur um krabbamein hafa valdið ótímabærum dauða fólks og haft síðustu ævidaga þess (og fjármuni) af því í hendur óvandaðs fólks með stórar lygar á vörum.
„Bábiljur um krabbamein hafa valdið ótímabærum dauða fólks“
Stærsta tapið á fjármunum er eflaust til hómeópatíunnar en hún er klassískt dæmi miðaldahugsunar þar sem vísindaleg aðferð er virt að vettugi. Samt komast komast skólar hennar erlendis upp með að kalla sig „háskóla“ og allskyns gervifræði eru kennd til „doktorsnáms“. Hómeópatía byggist á hugsmíð sem er ósannreynd og er svo mótsagnakennd að það þyrfti að afsanna helstu lögmál efnafræðinnar til að hún gengi upp.6 Í kringum enduruppkomu hennar og alls kyns ósannreyndra gervifræða úr ranni fornra alþýðulækninga, dulspeki, nýaldarbylgju og nýrrar misnotkunar vísindahugtaka til framleiðslu á allskyns heilsuskrumi, hafa byggst upp afkimar í vestrænni menningu sem eru fullir af tortryggni og samsæriskenningum gagnvart heilbrigðu vísindasamfélagi. Þetta hefur ógnað þekkingarverðmætum (bull komist í kennslubækur), heilbrigðiskerfum, forvarnarstarfi og heilbrigðum markmiðum í heilsupólitík. Það má fjalla um það í löngu máli um hverjar séu orsakir þessarar öfugþróunar, en lykilatriðið er að það þarf að spyrna við fótum og það þurfa allir aðilar í þjóðfélaginu sem koma að öflun og miðlun þekkingar að leggja sitt fram til varna. Eitt lykilatriða þeirra er kennsla og þjálfun í gagnrýninni hugsun. Af virðingu við fólkið sem kastað var á bálið eða hent í drekkingarhylnum, sökum bábilja valdhafa á miðöldum skulum við vernda þekkingarverðmæti okkar.
Tilvísanir:
1. Björn Bjarnason „Þetta ár dóu 9 prestar, er þótti mikið – Úr Brandstaðarannáli árið 1816“ Húnavaka, (Ungmennafélag Austur-Húnvetninga, 2017) árg. 57. ritstj. Ingibergur Guðmundsson. 143-145.
2. Aðgerðir aðrar en grófar aflimanir, úrtaka aðskotahluta og ástunga kýla.
3. Þá skilgreiningu má rekja allt til Forn-Grikkjans Platóns.
4. Immanuel Kant, "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?," in Skírnir (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993). bls. 1. Ég umorða aðeins þýðinguna.
5. Svokölluð vísindabylting varð á 17. öld. Rúmum tveimur öldum eftir að prenttækni hófst og í lok 100 ára stríðs í N-Evrópu sökum kvísla mótmælendatrúar (Lúther, Kalvin, Enska biskupakirkjan) út frá kaþólskunni á 16. öld. Eitt þekktasta rit vísindalegrar aðferðar var Orðræða um aðferð eftir René Descartes (Leiden 1637).
6. Carl Sagan sagði að „til að sanna ótrúlegar staðhæfingar þarf ótrúleg gögn“.
*Tala leiðrétt úr 300 í 400 þann 27. júlí.
Athugasemdir