Þegar ég gekk til liðs við Pírata þá gerði ég það til að kanna hvort „þetta lið“ væri eintómir lukkuriddarar með þingmann í maganum. Þegar ég hafði sótt nokkra félagsfundi í Reykjavík þá varð mér ljóst að ég var kominn í góðan félagskap. Á hverjum fundi var tekinn fyrir einn málaflokkur og umræður um hann urðu frjóar og fræðandi. Yfirleitt voru nokkrir flokksmenn búnir að undirbúa fundina og lögðu þeir fram ákveðnar tillögur sem studdar voru ítarlegum greinargerðum og einnig fylgdu tilvísanir í heimildir sem flokksmenn gátu kynnt sér. Ég átti von á að fundirnir yrðu mestmegnis sóttir af yngra fólki með litla reynslu. En mér til mikillar furðu þá var aldursdreifing fundarmanna nokkuð svipuð og gerist í samfélagi okkar. Þarna mættust því félagar í eldri kantinum með góða reynslu af málaflokknum og síðan yngra fólk með nýjar og athyglisverðar hugmyndir. Þegar stefnumótunarnefnd Pírata setti á blað helstu áhersluatriði flokksins þá hafði hún góðan stuðning frá ályktunum félagsfundanna.
Aðrir stjórnmálaflokkar halda landsfundi einu sinni á ári. Það eru lagðar fram tillögur frá forsvarsmönnum flokkanna. Og oft og tíðum er nokkuð ráðið hver stefna flokksins verður að fundi loknum. Almennir flokksmenn eru þarna nánast upp á punt. Með þeim góða sigri sem Píratar unnu í nýafstöðnum kosningum þá renna í garð ný vinnubrögð í stjórnmálaflokki. Vinnubrögð sem aðrir flokkar ættu að temja sér. Píratar hafa virkjað grasrót sína og það verður líf í henni allt árið. Og ekki síst þetta: Þeir sem eru í forsvari fyrir Pírata – þeir hlusta á raddir grasrótarinnar.
Gróur á kreiki
Fyrir þessar kosningar var í gangi ósvífin rógsherferð í garð Pírata. Í henni var tuðað á því að einungis eitt mál væri á dagskrá hjá þeim, þ.e. að fólk mætti stela öllu „steini léttara“ af netinu. Þetta er mikil afbökun á stefnu flokksins um höfundarétt - höfundarétt sem á að byggja á skynsemi og réttlæti. Um önnur stefnumál Pírata má segja í stuttu máli að þeir vilja réttlátara samfélag þar sem öryrkjar, aldraðir og aðrir sem eiga undir högg að sækja fái réttlátar leiðréttingar á kjörum sínum. Píratar telja að baráttan fyrir nýrri stjórnarskrá sé mjög mikilvæg. Hún á að tryggja réttindi almennings og hún á að setja skýrar reglur um verkaskiptingu í samfélaginu. Loks má telja að barátta gegn spillingu og auðsöfnun fárra útvalinna er eitt af höfuðverkefnum sem Píratar munu beita sér fyrir á næstu árum. Núverandi stjórnarflokkum er ekki treystandi til að innleiða sanngjarnar reglur til að koma í veg fyrir undanskot stórefnamanna til aflandseyja og skattaparadísa.
Hvað nú?
Margir telja að nú fari í hönd erfiðar og flóknar viðræður um myndun stjórnar. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Ég vonaði fram eftir allri kosninganóttinni að bandalag Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna myndi hljóta brautargengi í kosningunum. Sú varð ekki raunin. En að mínu viti þarf að virkja Viðreisn inn í bandalagið. Efnahagstillögur Viðreisnar eru fullrar athygli verðar og hver flokkur í þessu bandalagi getur fengið drjúgan hluta stefnumála sinna inn í stjórnarsáttmála. Forsvarsmenn minnstu flokkanna - Bjartrar framtíðar og Samfylkingar – ættu sterklega að íhuga hvort það væri ekki heilladrýgra að styðja slíka stjórn án þess að fá ráðherraembætti að launum. Þingmenn þessara flokka gætu síðan dregið fram baráttumál sín með þingmannafrumvörpum. Jafnframt gætu þeir knúið fram breytingar á lögum sem ríkisstjórnin eða stjórnarþingmenn standa að. Litlir flokkar geta haft mikil áhrif þó þeir skarti ekki ráðherrum. Það er einmitt eitt af stefnumálum Pírata að þingmenn verði virkari á alþingi. Það er hrein ósvinna að ríkistjórnin ráði ferðinni í öllum málum. Hlutverk þingmanna á að vega mun meira. Að mati Pírata á að skilja að framkvæmdavaldið og vald þingmanna. Til að leggja áherslu á þetta hafa Píratar lýst því yfir að ráðherrar þeirra munu segja af sér sem þingmenn. Þetta ættu aðrir stjórnmálaflokkar að gera líka.
Núna rétt áðan (31/10) komu í fréttunum tvær yfirlýsingar sem marka þáttaskil í íslenskri pólitík. Önnur var sú að Oddný Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar sagði af sér vegna slælegs gengis fylkingarinnar í kosningunum. Hin var sú að Píratar bjóðast til að styðja minnihlutastjórn til góðra verka. Eftirleikurinn verður því léttur: Að mynda meirihlutastjórn með núverandi stjórnarandstöðu og Viðreisn eða minnihlutastjórn sem studd er af Pírötum og Samfylkingu. Það er mjög mikilvægt að halda Sjálfstæðisflokknum og Framsókn utan stjórnar.
Hallgrímur Hróðmarsson – fyrrverandi framhaldskólakennari.
Athugasemdir