Byltingin á Beauty tips er mögnuð. Þar hefur hver konan á fætur annarri sagt frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi undir myllumerkjunum #þöggun og #konur tala. Konurnar segjast finna styrkinn í samstöðunni og frelsi frá skömm með því að segja frá.
Skömm er merkileg afleiðing kynferðisofbeldis. Skömm getur verið djúpstæð, erfið viðureignar og haft mikil áhrif á sjálfsvirðingu og lífsgæði. En af hverju finnur fólk fyrir skömm þegar annar aðili beitir ofbeldi? Af hverju er kynferðisofbeldi leyndarmál, tabú sem má helst ekki ræða?
Er þetta óttinn við að vera álitin fórnarlamb? Fólk sem hefur verið beitt ofbeldi getur verið sterkt og það getur unnið úr afleiðingum þess, þótt það sé oft erfitt ferli sem kostar bæði tíma og peninga.
Eða er þetta arfleið af drusluskömm – gamalla hugmynda um að konur séu annað hvort druslur eða meyjar? Að þær eigi að vera hreinar og séu stimplaðar dræsur en karlar hetjur þegar þeir sofa hjá mörgum?
Eða innræting samfélags sem beint og óbeint sendir þau skilaboð að þolendur kynferðisbrota geti sjálfum sér um kennt?
„Er þetta arfleið af drusluskömm – gamalla hugmynda um að konur séu annað hvort druslur eða meyjar?“
Skömm viðurkennd afleiðing
Almennt er það ekki leyndarmál þegar ráðist er að fólki. Almennt segir fólk frá þeim áföllum sem það lendir í og fær styrk og stuðning til að takast á við afleiðingarnar.
Skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir eru hins vegar viðurkennd afleiðing kynferðisbrota. Til að hlífa þolendum frá skömminni sem fylgir því að leyndarmálið sé afhjúpað eru dómsmál lokuð, nöfn gerenda eru falin í dómsskjölum og fjölmiðlar segja almennt ekki frá nema með samþykki þeirra. Það er eitthvað skakkt við að fólk finni fyrir svo djúpstæðri skömm yfir gjörðum annars fólks að samfélagið þurfi að sameinast um að vernda það frá skömminni. Það er engu að síður mikilvægt að gera það.
Kynferðisbrot eru alvarlegir glæpir gegn einstaklingnum sem fyrir þeim verður. Í eðli þeirra felst þessi ruddalega háttsemi að ryðjast yfir mörk annarra. Að taka af þeim neitunarvaldið. Virða ekki vilja þeirra. Af þeim sökum þurfa þeir sem fyrir þessu hafa orðið að finna að þeir hafi stjórn á því sem eftir kemur. Það getur skipt sköpum fyrir sálarheill fólks.
Þess vegna verðum við að virða það að skömm sé afleiðing kynferðisofbeldis. Við verðum að fylgja þessum leikreglum, jafnvel þótt það sé í raun fáránlegt að þolendur beri einhverja skömm því það voru ekki þeir sem báru ábyrgð á ofbeldinu. Þeirra er ekki sökin. Það skiptir engu máli hvað gerðist áður, hver sagði hvað, hvar og hvernig. Ofbeldi er alltaf á ábyrgð þess sem beitir því.
Vandinn er hins vegar sá að um leið og við höldum hlífiskildi yfir fórnarlömbum kynferðisglæpa með því að tala ekki um ofbeldið höldum við hlífiskildi yfir gerendunum. Á meðan þögn ríkir um glæpina geta þeir haldið ofbeldinu áfram. Á meðan þeir eru óþekktir og ósýnilegir geta þeir haldið ofbeldinu áfram, annars staðar, þar sem fólk þekkir ekki til.
„Um leið og við höldum hlífiskildi yfir fórnarlömbum kynferðisglæpa með því að tala ekki um ofbeldið höldum við hlífiskildi yfir gerendunum.“
Neita að bera skömmina
Sem betur fer hafa viðhorfin verið að breytast. Vitundarvakning í samfélaginu hefur orðið til þess að þolendur neita að bera þessa skömm. Þess vegna stíga þeir fram og segja sögu sína. Fyrir nokkrum árum heyrði það til tíðinda ef þolendur kynferðisbrota komu fram undir nafni í fjölmiðlum. Nú er það daglegt brauð. Það er orðið undantekning að þeir séu nafnlausir. Byltingin sem varð til á Beauty tips á föstudaginn sýnir mikilvægi þess að þolendur slíkra brota hafi vettvang til þess að láta raddir sínar heyrast, en byltingin spratt upp sem mótmæli við því að umræða um þekktan lögmann hér í bæ var fjarlægð af síðunni.
Þetta er þriðja netherferðin á skömmum tíma þar sem konur reyna að losna undan oki samfélagsins og tjá sig um misrétti. Áður höfðu #freethenipple og #6dagsleikinn tröllriðið öllu. Það er greinilega af nægu að taka og konur skila skömminni í umvörpum.
„Þú veist aldrei hver er fær um að beita ofbeldi og hver mun gera það.“
En hvar eru gerendurnir? Af hverju er enginn að taka við skömminni? Af hverju er enn þögn um þá?
Erum við enn að glíma við sektarkennd og leita réttlætinga? Eða er bara of óþægilegt að horfast í augu við að miðað við allan þann fjölda barna og kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi þá hljóta að vera einhverjir í umhverfi okkar sem beita ofbeldi?
„Ég hélt að ég gæti treyst honum“
Skoðum sögurnar:
Hann var vinur minn.
Hann hringdi og bað mig um að segja engum.
Hún var vinkona mín.
Ég var sex ára, hún var eldri.
Hann var bekkjarbróðir minn.
Besti vinur minn spurði hvernig ég hefði getað verið svona heimsk.
Hann var kærasti minn.
Hann var heltekinn af klámi.
Hann nauðgaði mér oft í svefni.
Hann var þjálfarinn minn.
Hann lokaði mig inni.
Hann var bróðir minn.
Hann var pabbi minn.
Hann var pabbi vinkonu minnar.
Hann var frændi minn.
Ég var fimm ára.
Fjölskyldan sneri baki við mér þegar ég sagði frá.
Hann var frændi yfirmannsins.
Hann var ókunnugur.
Vinir hans héldu mér niðri.
Hann var útlendingur.
Konan á neyðarmóttökunni sagði mér að vera ekkert að segja frá þessu.
Ég veit ekki hver hann var. Ég vaknaði bara illa farin.
Þeir voru tveir. Töluvert eldri.
Ég hitti hann á bar. Hann nauðgaði mér á klósettinu.
Hann var frægur.
Hann var þekktur glæpamaður.
Hann kallaði mig hóru og mellu.
Hann sagðist eiga mig.
Hann reif í hárið á mér.
Hann var nágranni.
Hann var kærasti vinkonu minnar.
Hann vann í sömu húsaröð og ég.
Hann grínaðist með að skutla mér upp á Neyðarmóttöku.
Ég hélt að ég gæti treyst honum.
Ógnvekjandi veruleiki
Þetta eru bara nokkur af óteljandi dæmum. Ofbeldið er alls staðar. Fólk sem beitir því er alls staðar. Það er á öllum aldri, í mismunandi hlutverkum og með mismunandi hvatir. Varnarlausir aðilar geta hvergi verið óhultir. Þú veist aldrei hver er fær um að beita ofbeldi og hver mun gera það, fyrr en hann gerir það. Þeir sem beita ofbeldi eru ekkert endilega óalandi og óferjandi. Þeir bera það ekki með sér að vera kynferðisglæpamenn.
Lengi vel var forvarnarstarfi gegn nauðgunum beint til kvenna. Þær áttu að passa sig að verða ekki fyrir nauðgunum með því að lifa ekki lífinu. Þær áttu ekki að drekka, ekki vera einar á ferð, ekki gera þetta og ekki hitt. Þannig voru konur gerðar ábyrgar fyrir ofbeldinu. Það hefur sem betur fer breyst og nú er áherslan í fræðslustarfi lögð á að virða mörk annarra. Byltingin á Beauty tips er afleiðing vitundarvakningar og vonandi til marks um það sem koma skal.
„Þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi eiga ekki að bera skömm. Við sem samfélag eigum ekki að umbera viðhorf sem styðja það.“
Þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi eiga ekki að bera skömm. Við sem samfélag eigum ekki að umbera viðhorf sem styðja það. Kaldhæðnislegt þó að daginn eftir byltinguna skuli skopmynd Morgunblaðsins vera þessi: Ást er ... einhver sem tekur ekki nei sem svar.
Það er einmitt þetta sem einkennir ofbeldisfólk – að virða ekki mörk annarra, þrýsta á þar til undan lætur eða taka það sem þeir vilja. Þeirra er skömmin. Þeir ættu að bera hana.
Ást er ...
einhver sem virðir það þegar þú segir nei.
Athugasemdir