Einhverra hluta vegna er ég óvart haldinn þeirri fullvissu að hið góða hljóti að sigra. Ég veit ekki hvort það er genetískt eða innrætt í mig í æsku eða í gegnum menningu, en einhvern veginn finnst mér svo augljóst að réttlætið muni hafa betur að lokum. En svo er það bara ekki satt.
Ég sá myndband af ungu barni á ruslahaugum í Sýrlandi fyrir stuttu. Hún er, eða var, á svipuðum aldri og dóttir mín. Bleian hennar svo full af skít að hann flæddi út og barnið er þakið flugum. Liggur á grúfu og rétt dregur andann. Af hverju? Hvað gerðist? Fyrir hvern er þetta stríð? Fyrir hvaða réttlæti? Hver sigrar að lokum? Hvaða valdhafi? Hver tapar?
Gott í fólki en það alið á græðgi. Samúð en alið á samkeppni. Förum hringi í kringum stjörnuna okkar. Kerfið, heimurinn og tilraunin fullkomin. Er þjáningin þá fullkomin líka? Þeir sem sjá og hafa séð handan alls segja að allt sé eins og það eigi að vera. Allt sé fullkomið en skynfæri okkar og greind okkar svo takmörkuð að heildarmyndin fari framhjá okkur. Hjartað fullt af kærleik. Sálin full af ljósi. Allt er tómt. Og úr því verður til efni sem þjáist. Til hvers?
Svo fæðast börn og þau eru hrein. Fullkomnar geislandi verur sem lýsa allt upp. Og síðan kemur heimurinn og skemmir þau. Bandaríkjamenn kusu sér nýjan forseta. Mann sem hefur alið á ótta og hatri alla sína kosningabaráttu. Ég finn fyrir óvissu og kvíða. Hvað er að gerast? Hvað er að fara að gerast? Íslenskir stjórnmálamenn eru ítrekað gripnir við ósannsögli og auðdýrkun og við kjósum þá aftur. Af hverju? Á lýðræðið ekki að virka fyrir alla, ekki bara suma og sérstaklega vel fyrir þá sem eru búnir að læra að misbeita því? Þjóðhöfðingjar voldugustu ríkja heims eru stórhættulegir og valdasjúkir einstaklingar. Valdhafar í strengjabrúðustríði við aðra valdhafa um meiri völd og þeir sem borga brúsann eru algjörlega saklaus fórnarlömb.
Félagi minn svipti sig lífi daginn sem Bandaríkjamenn kusu sér nýjan forseta. Ég vaknaði rétt fyrir sex nóttina sem Bandaríkjamenn kusu sér nýjan forseta og horfði á dóttur mína sem er 19 mánaða, sofandi öfuga í rúminu. Ég kíkti á fréttasíður í símanum mínum, án gleraugna. Í myrkrinu pírði ég augun á meðan ég las hver hefði unnið forsetakosningarnar. Eina tilfinningin sem ég fann fyrir var óvissa. Galtóm óvissa.
Ég horfði á dóttur mína liggja í myrkrinu. Þrátt fyrir augljósa galla beggja frambjóðenda þá hafði ljósið í myrkrinu hjá mér samt verið það að fyrstu minningar hennar yrðu til í heimi þar sem kona gegndi valdamesta embætti heims. Hvað er þá ljósið í myrkrinu núna? Er réttlæti handahófskenndur atburður sem gerist bara stundum og fyrir tilviljun? Kerfi sem verðlaunar græðgi, valdafíkn og lygar hlýtur að þurfa á endurskoðun að halda. Nema þetta sé allt eins og það á að vera. Ég dreg bara andann og held áfram að vera til.
Athugasemdir