Við fórum öll á límingunum og sprungum af stolti yfir því að vera Íslendingar þegar við horfðum á strákana okkar vinna hvern stórsigurinn af öðrum í EM. En hvað svo? Skiptir þetta einhverju máli í alvörunni eða var þetta bara frábær tilfinningarússíbani fyrir okkur og enn meira sjálfsálit fyrir stolta þjóð?
Í mörg ár hef ég haldið reglulega fyrirlestra um vörumerkið Ísland og hvað í því býr. Hvað er það og hvernig verður ímynd þjóðar til á alþjóðavettvangi?
Vörumerki er nefnilega ekki bara logo eða myndtákn, heldur einnig uppsöfnuð framkoma þeirra sem vörumerkið stendur fyrir, heillar þjóðar í þessu tilviki. Ennfremur auglýsingar, viðbrögð við vandamálum, talsmáti stjórnenda, hegðun starfsfólks o.s.frv.
Eyjafjallajökull, Vigdís fyrsti kvenforsetinn, Björk, OMAM, Sigur Rós, handboltalandsliðið, Jóhanna sem forsætisráðherra, Geysir, Gullfoss, Hallgrímskirkja, Iceland Airwaves, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Icesave, Eurovision, Eve Online, Fast 8, Walter Mitty, Ófærð, Hafþór Júlíusson, Yrsa Sigurðardóttir, kvennalandsliðið í fótbolta og nú karlalandsliðið í fótbolta og allar aðrar stórar snertingar við alþjóðasamfélagið skapa það vörumerki sem við erum. Og nú sérstaklega stuðningsfólk íslenska landsliðsins sem fór til Frakklands. Umfjöllun fjölmiðla um alla Evrópu um besta, skemmtilegasta, kurteisasta og áhrifamesta stuðningsfólkið er nefnilega ekki síðri sigur á þessu móti.
Það er nefnilega ekkert betra til að byggja upp gott vörumerki en gott umtal um þá sem standa að vörumerkinu. Í tilfelli þjóðar, þá er það þjóðin sjálf. Þegar tugþúsundir Íslendinga sýna samstöðu, standa sig vel og hegða sér vel svo eftir er tekið. Þá erum við ekki bara eldfjöll og fossar. Við erum fólk sem áhugavert er að heimsækja, eiga viðskipti við og treysta.
Hvers virði er þetta þá og hverjir hagnast?
Við högnumst öll. Hvað er verðmætara en mannorðið? Stuðningsfólk á EM er því að auka verðmæti á fiski, jafnvel auka traust til þess að heildsala eigi auðveldara með að fá gjaldfrest. Fjölga ferðamönnum á Íslandi sem eru glaðari með að borga í stöðumæli við Almannagjá. Auka þolinmæði yfir töf á flugi með íslensku flugfélagi og svo framvegis. Til viðbótar fyllumst við öll stolti og sjálfstrausti. Þess vegna gengur okkur betur í því sem við erum að gera á alþjóðavettvangi.
Af þessu leiðir að stuðningur við íþróttir, tónlist, rithöfunda, kvikmyndageirann, frumkvöðlastarfsemi og aðrar eftirtektarverðar og persónulegar snertingar skilar sér margfalt til baka. Því þarna næst tilfinningaleg tenging við vörumerkið Ísland.
Og hvernig metum við verðmætin? Jú, eðlilegast er að meta umfjöllun í fjölmiðlum, áhorfi og umtali á samfélagsmiðlum. Fljótt á litið, ef gert væri mat á virði þátttöku okkar á EM, það er út frá tíma í sjónvarpi, áhorfi, forsíðum í dagblöðum, umtali í öðrum fjölmiðlum og svo umtali á samfélagsmiðlum, þá fengjum við út verðmæti upp á að minnsta kosti $10.000.000.000, sem er svo stór tala í íslenskum krónum að hún lítur skringilega út: 1.300.000.000.000 kr!
Við erum alltaf að græða og takk fyrir mig :)
Athugasemdir