Hér er sannarlega ekki ætlunin að ráðast persónulega gegn einum eða öðrum nafngreindum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og draga auðveldan skotspón sundur og saman í háði, en þó langar mig að beina athyglinni stuttlega að sérkennilegu myndskeiði sem spila má á sérstökum vef Ríkisútvarpsins, Krakkakosningar 2016.
Þar situr fyrir svörum ung, frambærileg kona, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Áslaug Arna er ekkert sérstaklega mælsk manneskja. En hún stýrist af eldmóði og fyrir því er rétt að bera virðingu, jafnvel þótt maður hafi sjálfur ekki fullan skilning á því hvað knýi þann eldmóð.
Löngun mín er ekki að beina kastljósinu sérstaklega að bleika leðurjakkanum sem Áslaug Arna skartar í myndbandinu (sem er, svo að ég skjóti því að, mjög töff og kannski það jákvæðasta við frammistöðu hennar hér). Mig langar að skoða það sem stjórnmálakonan segir. Því að stundum er ekki nóg að hugsa bara um hvernig fólk lítur út heldur einnig brýnt að spá í hvað það segir.
,,Ég held að það sé nauðsynlegt að stytta tímann sem við erum í skólanum,“ segir Áslaug Arna og brosir, svolítið þvingað, til óharðnaðra áhorfenda sinna á Krakkavef Ríkisútvarpsins.
Og svo heldur hún ótrauð áfram:
„Við erum búin að stytta hann um eitt ár og ég held að við megum stytta hann um fleiri ár. Því heimurinn er fullur af fólki og peningum og alls konar en við eigum ekkert alveg nógan tíma. Og það er bæði gaman að vera barn en það er líka gaman að vera fullorðinn, þannig að við þurfum að nýta tímann vel.“
Náðirðu þessu?
Ég viðurkenni fúslega að ég þurfti að hlusta á þetta nokkrum sinnum, og svo slá þetta inn í tölvuna, áður þetta sunkaði inn af fullu forsi – og þó er er ég langskólagenginn maður.
Sem sagt, ekki hika við að lesa þetta aftur áður en lengra er haldið …
Erum við öll tilbúin?
Ókei:
Skoðum fyrst boðskap Áslaugar Örnu (ef það er þá rétta orðið, „boðskapur“). Koma hér fram mikilvæg skilaboð sem við viljum senda til barnanna okkar? Ef svo er, þá bugta ég mig bara og beygi og biðst auðmjúklega afsökunar á að vekja máls á þessu myndbandi á Krakkavef RÚV. Sé Áslaug Arna hins vegar úti að aka – og ég get auðvitað ekki útilokað að hún sé spólandi í einhverri torfæru lengst úti í móa, sökkvandi sífellt hraðar í ógeðslegt drulludý – þá þurfum við helst að ræða hvað betur megi fara hjá henni. Við erum jú „bókaþjóðin“. Hin hámenntaða þjóð sem er svo stolt af arfi sínum og menningu og hreykir sér ítrekað af þessu tvennu til að laða hingað hátt í tvær milljónir túrista árlega.
Heimur sem er fullur af fólki og peningum og alls konar
Ég skil ekki alveg orsakasamhengið, en voga mér þó ekki að véfengja að fyrir Áslaugu Örnu vaki gott eitt þegar hún imprar á því að stytta beri nám barnanna okkar vegna þess að heimurinn sé fullur af „fólki og peningum og alls konar“.
Ef ég væri kennari – sem ég er ekki, ég er bara einhver gaur úti í bæ – þá mundi ég gera athugasemd við orðalagið „alls konar“. Það er óljóst og óskýrt og ekki mjög sterkt. Hér lækkar einkunn Áslaugar Örnu því um minnst einn heilan.
Einkum var það þó síðasta línan sem olli mér hausverk. (Og ég prísa mig sælan fyrir að hafa ekki hlotið skerta skólagöngu, ólíkt því sem Áslaug Arna vill að gildi um framtíðarbörnin mín, enda kæmist ég þá aldrei til botns í annarri eins rökfléttu. Ég er, líkt og ég benti á hér áðan, af stakri hógværð, langskólagenginn maður. Naut óskertrar skólagöngu!).
En stjórnmálakonan segir:
„Og það er bæði gaman að vera barn en það er líka gaman að vera fullorðinn, þannig að við þurfum að nýta tímann vel.“
Ekki nóg með hversu ögrandi þessi málsgrein er málfræðilega heldur storkar hún einnig öllum skilningi mínum á hugtakinu „orsakasamhengi“. Áslaug Arna virðist hér takast á við það verkefni að leiða unga og óharðnaða áhorfendur myndbandsins á Krakkavef RÚV í sannleika um að eitt þurfi ekki endilega að útiloka annað; sem sagt, þó að gaman sé að vera barn, þá geti einnig vera gaman að vera fullorðinn. Gott og vel, það er alveg rétt hjá henni. Það er gaman að vera barn og það er gaman að vera fullorðinn. Alveg eins og það er gaman að fara í sund og það er gaman að fara í bíó. Enda er heimurinn „fullur af fólki og peningum og alls konar“.
Botninn er mér hins vegar ennþá hulin ráðgáta:
„… þannig að við þurfum að nýta tímann vel.“
Hvaða tíma? Tímann frá korter í tólf til hálf-fjögur? Tímann eftir að við ljúkum skólagöngunni? Tímann meðan á skólagöngunni stendur? Alla ævina? Má skilgreina ævi okkar mannfólksins sem „tíma sem við þurfum að nýta vel“?
Og hvers vegna í ósköpunum er þessi tími „ekkert alveg nógur“? Er Áslaug Arna að mælast til þess að mannsævin verði einhvern veginn lengd? Og er það ekki einmitt raunin; að meðalmanneskjan lifir sífellt lengur? Væri þá ekki einmitt frekar við hæfi að lengja líka skólagönguna?
Ættum við kannski að lengja skólagöngu íslenskra barna?
Og viljum við virkilega hafa á þingi konu sem segir við börn, sem eru bara rétt að hefja líf sitt, að þau hafi „ekkert alveg nógan tíma“? Hafa íslensk börn ekki bara feikinógan tíma til að njóta þess að vera til og finna sinn stað í veröldinni, hægt og rólega og bítandi? Viljum við virkilega skrúfa markvisst upp kvíða upprennandi kynslóða með slíkum yfirlýsingum bleikleðurklæddra stjórnmálakvenna, nú þegar kvíðnar unglingsstúlkur rjúfa svefn sinn ítrekað á næturþeli til að seilast eftir snjallsímum og skoða hvernig umhorfs er á samfélagsmiðlum, sem virðast einnig hafa lagt undir sig draumalandið?
Ég veit svei mér ekki. En prófum allavega að þrýsta orðum Áslaugar Örnu inn í hina heimsfrægu „hnotskurn“:
Á tímum þar sem við ættum að skrúfa upp laun kennara og leggja allt kapp á að mennta börnin okkar, kenna þeim fleiri tungumál, efla þau í skýrri hugsun og tjáningu, bæði munnlegri og skriflegri, og búa svo í haginn að hér megi dafna sniðugt, skemmtilegt og skapandi samfélag sem ungt fólk nennir að halda áfram að byggja upp, þá predika framámenn Sjálfstæðisflokksins sem sagt knýjandi nauðsyn þess að stytta nám barnanna okkar. Röksemdin? Jú, allt vegna þess að „heimurinn er fullur af fólki og peningum og alls konar“.
Og milljón dollara spurning líðandi stundar er þá vitaskuld svohljóðandi:
Erum við virkilega svo leiðinleg og heiladauð þjóð að við tökum mark á öðru eins rugli?
Nú þegar fólkið í kringum mig er tekið að ala upp nýja kynslóð verð ég að óska eftir því að við gerum í framtíðinni aðeins hærri kröfur til stjórnmálafólksins okkar. Börn eru ekki hálfvitar. Þau eru skapandi og víðsýn í hugsun, sem við hin eldri getum lært margt af. Þeim finnst gaman að læra. Mannfólki finnst gaman að læra. Alla ævina. Mig langar ekki að vera leiðinlegur við Áslaugu Örnu, en ef hún sækist eftir því að vera í valdastöðu til frambúðar á Íslandi verður hún að hugsa orð sín og yfirlýsingar til enda. Jafnvel þegar hún er að tala við börn. Því að börn þurfa ekkert á því að halda að við tölum niður til þeirra.
Að stytta nám íslensku þjóðarinnar afturvirkt
Mín vegna væri svo sem í góðu lagi að nám barnanna okkar yrði stytt stórlega og það jafnvel um mörg ár, jafnvel heilu áratugina, ef ekki aldirnar – gott væri ef við gætum jafnvel bara stytt nám allrar íslensku þjóðarinnar aftur í aldir og helst afturkallað menntun okkar eftir-á, allt til landnáms – eða þá kannski bara stytt nám hvers núlifandi barns niður í eitt hnitmiðað sekúndbrot – áður en við svo þrýstum umræddu barni inn í eldflaug og skytum því vel undirbúnu inn í framtíðina, gæddu því mikilvæga veganesti sem er síversnandi menntun þjóðarinnar.
Þráðbeint til móts við heim sem er „fullur af fólki og peningum og alls konar“.
… Með öðrum orðum: Það er fínt mál og gott að stytta nám barnanna okkar, að því gefnu að menntunin skili sér inn í kollinn á þeim og svo út í samfélagið. Að sama skapi veit ég að menntun er eljuverk, þolinmæðisvinna. Og að það er gaman í skólanum. Þar eignast maður vini til lífstíðar. Þar mótast maður sem manneskja og einstaklingur. Kannski ættum við að lengja skólann, hnoða eitthvað nýtt og óvænt úr honum? Því að það er menntun: Hæfileiki til að endurhugsa stöðugt heiminn í kringum okkur.
Hér er bara um augljós sannindi að ræða: Við þurfum til dæmis að stórefla móðurmálskennslu, gera hana meira lifandi, áhugaverðari og persónumiðaðri, í tilraun til að sporna gegn því að íslenskan lognist út af með næstum þremur, fjórum kynslóðum. Þetta er einföld staðreynd. Og við þurfum að efla ungt fólk í skýrri hugsun og tjáningu. Hvers vegna? Jú – vegna þess að þá aukast líkur á því að upp komi skýrt og gáfað stjórnmálafólk, flinkt í munnlegri jafnt sem skriflegri tjáningu, og að í stöðu menntamálaráðherra setjist jafnvel sjarmerandi manneskja sem hefur að keppikefli að efla menntun upprennandi kynslóða, frekar en að skerða hana og stuðla að „sparnaðaraðgerðum“. Eins þarf fólkið sem tjáir sig á Krakkavef RÚV að hugsa mál sitt til enda áður en það opnar munninn.
Kjósum nú með heilanum og hjartanu. Hamingjan er ekki aðeins að forðast leiðinlegt fólk – heldur einnig að gæta þess að á þingi sitji skemmtilegt fólk. Og það er undir okkur komið.
Sverrir Norland, m.a. menntaður í Hlíðaskóla, Háskóla Íslands og FÍH.
Athugasemdir