Um leið og ég óska Íslendingum, nær og fjær, til hamingju með Stundina, vil ég fara hlýjum orðum um heim kaldhæðninnar, því ég er svo yfir mig ánægður með íslenska þjóð.+
Aldrei hvarflar það að mér að bölva gömmum gamla Íslands. Engu að síður er mér seigla sumra manna hulin ráðgáta; hvernig menn, sem fengið hafa ákúrur frá ríkisvaldinu og afskriftir hjá bönkum vegna þess að þeir áttu ekki túskilding með gati, geta skyndilega risið upp og keypt fjölmiðla, ferðaskrifstofur eða annað smálegt. Og hvernig í ósköpunum getur fjölmiðlasamsteypa, sem rambar á barmi gjaldþrots, leyft sér þann munað að bjóða framsóknargosa að halda úti rabbþætti sem hefur tveggja prósenta áhorf? Já, stórt er spurt. Og hvernig er hægt að greiða þessum sama manni meira en hálfa milljón fyrir hvern þátt?
Svona spurningar leita á huga minn þegar ég lít yfir hina íslensku fjölmiðlaflóru. Og ég spyr: Getur verið að stjórnmálamenn, sem rökuðu til sín fjármunum fyrir hrun, fari bakdyramegin að suðupottum frétta? Er meira óhreint mjöl í pokunum en okkur má nokkru sinni gruna?
Það eru svo yndislega margar leiðir til að láta okkur gleyma. Við megum ekki sparka í liggjandi mann, jafnvel þótt hann liggi vel við sparki. Við megum ekki minnast á það í dag, að núverandi innanríkisráðherra fékk 113 milljónir króna að láni. Hún er í dag utan seilingar. Við eigum að læra að þegja yfir því, að á árunum fyrir hrun skulduðu þingmenn, sem tengjast núverandi stjórnarflokkum, nokkra milljarða. Þetta fólk var í þeirri stöðu, að það fékk fé að láni; klink sem ekki er nauðsynlegt að greiða til baka, það er að segja ef maður þekkir mann sem þekkir mann. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra vinna að því – af heilum hug – að auka bilið á milli ríkra og fátækra, og okkur er sagt að allt muni þetta fara á besta veg.
Auðvitað megum við ekki gera grín að geðsjúku fólki og ekki ráðumst við að útliti fólks, ekki frekar en við ráðumst að litarhætti, trúhneigð eða kyni. Við hlífum þeim sem eiga bágt og við förum einsog verkamenn í kringum þornandi steypu þegar við þurfum að tjónka við alvarlega veikt fólk. Og það sem meira er: við erum neydd til að bera virðingu fyrir skoðunum fólks sem við myndum hiklaust flokka sem fábjána ef við hefðum leyfi til að nota slík orð.
Við lofum það í dag, að útgerðin hagnast, þessi útgerð sem Alþingi þarf að semja við, svo viðurkenna megi fiskinn í sjónum sem þjóðareign. Við mærum það, að lífeyrisþegar framtíðarinnar muni að öllum líkindum fá lífeyri. Við mærum heilbrigðiskerfið og alla umönnun, á meðan við hönnum kerfi sem reiknar ekki með fólki; kerfi sem leyfir fötluðu fólki að týnast og gleymast. Á einum stað er sagt frá velgengni bankanna. Og í einu blaðanna er drottningarviðtal við mann sem var settur í mannréttindaráð Reykjavíkur vegna þess að hann hefur svo yndislegar skoðanir.
Kannski eigum við eitthvað ólært varðandi upprifjun og gleymsku.
Köllun hjá sér Framsókn fann
og formaðurinn þráði
að eignast loksins mætan mann
í mannréttindaráði.
Kristján Hreinsson hefur samið fjöldann allan af ljóðum, söngtextum og leikritum. Hann nam leikhúsfræði við háskólann í Bergen.
Athugasemdir