Nú er febrúar genginn í garð og allt í einu skellur meistaramánuður á okkur af fullum krafti. Ég er A+++ manneskja á sterum föst í líkama B manneskju. Ég er líka raunsæisgrey fast í huga draumóramanneskju. Svo til þess að kóróna þetta allt saman er ég póstmódernísk meginstraumsmanneskja föst í flóknum tilfinningavef manneskju sem forðast það eins og heitan eldinn að vera sauður fastur í stórri hjörð.
Það er væntanlega ekki raunsætt að reyna að vera alltaf, öllum stundum, öðruvísi eða einstakur í því sem maður gerir því á endanum þá verða allir bara öðruvísi eins. Töfrarnir sem verða til þegar samvitund þjóðar slær í sama takt eru ólýsanlegir. Við finnum fyrir sammannlegri samkennd í garð hvert annars þegar áföll dynja yfir okkur, mannlegur harmleikur eða náttúruhamfarir. Það verður til eitthvað ósýnilegt töfraduft í súrefnissameindum okkar og andrúmsloftið sem við öndum að okkur, líkt og vanalega, tengir okkur saman. Það er fallegt og það er nauðsynlegt, það gerir heiminn að stað sem hægt er að búa á, sér í lagi nú, þegar svo margir, þar á meðal ég, upplifa sig sem þeir séu fastir í auga stormsins. Það er einhver sérkennilegur drungi yfir heiminum og óróleiki í orkunni.
Þegar meistaramánuður hefst (eða helvítis meistaramánuðurinn eins og kaldhæðna raunsæisgreyið í mér kýs að kalla hann), þá er ýmislegt sem við getum tamið okkur að gera. Nýjar venjur, innleiddar daglega án undantekninga í um það bil 30 daga geta orðið að föstum venjum. Eða, föstum venjum ef við höldum áfram að iðka þær daglega. Augljóslega (heimild: almenn skynsemi).
Hvað ætla ég að gera? Jú, ég ætla að mæta í jóga, daglega. Jógað sem ég elska svo mikið og hætti alltaf að mæta í hvern einasta vetur þegar ég koðna niður í skammdeginu. Sem er fáránlegt. Ég veit það. Ég bý svo vel að vera með 200 klukkustunda jógakennaranám á ferilskránni þar sem mikil áhersla var lögð á hugleiðslu. Ég til dæmis hugleiði aldrei þegar ég er algerlega í ruglinu andlega. Ég er því ekkert sérstaklega góð fyrirmynd. En þið getið þá vonandi treyst mínum ráðleggingum. Af því ég er allavega hreinskilin og ekki að þykjast vera einhver heilsujógahugleiðslugrænmetisgúru með allt á hreinu. Ég er bara stundum með allt á hreinu og þess vegna þarf ég nauðsynlega á meistaramánuðinum að halda til þess að sparka í mitt eigið rassgat. Ég ætla líka að vera stundvís. Sem á eftir að gleðja marga. Ég ætla að salta þetta „ég mæti ekki fimm mínútum of snemma eða of seint, ég mæti á réttum tíma“-viðhorf, því það er líka bara kjaftæði. Ég ætla bara að vera nokkrum mínútum á undan áætlun. Það er varla hægt að ímynda sér meiri raðfullnægingu fyrir sálartetrið en að fyrirbyggja streitu með stundvísi. Meira er ekki á listanum mínum. Af því raunsæisgreyið inni í mér ætlar að tortíma draumóramanneskjunni sem setur alltaf markið of hátt sem veldur því að fallið verður mjög brútal þegar maður fattar að maður skaut langt yfir raunverulega getu.
Hvað ætlar þú að gera? Hérna eru nokkrar hugmyndir:
1. Þú getur verið kurteis í heilan mánuð. Til dæmis boðið góðan daginn og þakkað fyrir matinn.
2. Hugleitt daglega. Þú þarft ekki að hugleiða meira en örfáar mínútur í senn, svo geturðu bætt við tímann eftir því sem þér fer að líða betur í hugleiðslunni. Hugleiðsla hjálpar þér við að hlusta á líkamann, hlusta á hugann og jafnvel aðstoða þig við að forgangsraða. Þú þarft ekki að loka á allar hugsanir, heldur hlusta vel. Ég mæli með smáforritum eins og Headspace ef þú vilt fá góða handleiðslu.
3. Áður en þú ferð að sofa geturðu skrifað niður þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn. Íslenska smáforritið Happ app býður þér upp á að skrá þetta í símann þinn.
4. Náðu í forrit sem blokkar vefsíður að eigin vali og blokkaðu samfélagsmiðla í 30–60 mínútur á dag meðan þú ert að vinna í tölvunni. Ég get mælt með Self Control forritinu.
5. Lestu daglega, ekki bara fyrirsagnir eða pistla eftir kverúlanta eins og mig heldur bækur, alvöru bækur.
6. Gefðu stefnuljós í umferðinni, alltaf. Aðrir lesa ekki hugsanir þínar og þú ert að einfalda öðrum lífið. Að gefa stefnuljós er gáfumerki.
7. Taktu D-vítamín daglega. Við búum á Íslandi. Það er vetur. Sólin hefur ekki skinið á okkur í marga, marga mánuði.
8. Horfðu á tvo þætti af Breaking Bad á dag. Eða The Wire. Eða House of Cards. Eða eitthvað annað sem allir hafa verið að tala um og þú ekki séð. Sjónvarp er ekki eingöngu sápufroða fyrir heilann. Það er til verulega gott sjónvarpsefni. Jafn gott og það getur verið slæmt.
9. Farðu í göngutúr daglega. Fáðu þér smá súrefni. Ég hef, eins og svo margir aðrir, glímt við klínískt þunglyndi í gegnum ævina og þessi fjárans klisja um heilsubótargönguna er sönn.
10. Ef þú átt börn, lestu bók fyrir háttinn á hverju kvöldi í meistaramánuðinum. Bróðir minn ljónshjarta ætti að vera skyldulesning foreldra fyrir öll börn. Það er yndislegt að fá tækifæri til þess að kynna börnin okkar fyrir sorginni í gegnum barnabókmenntir.
11. Fáðu vin til þess að vera með þér í markmiðum meistaramánaðar. Það er miklu skemmtilegra.
Meistaramánuður er kannski eftir allt saman eitthvað sem sameinar raunsæisgreyið í mér og draumóramanneskjuna. Svo ef þú vilt vera öðruvísi þá geturðu bara byrjað í mars eða apríl og gefið okkur hinum fingurinn í febrúar.
Athugasemdir