Nú er ég búinn að taka viðtal við alla sem eru í framboði til forseta Íslands, nema Davíð Oddson. Ástæða þess að það hefur ekki tekist er mér ókunn, því ég er búinn að reyna. Alveg virkilega, virkilega reyna. Hef talað fjórum sinnum við fjölmiðlafulltrúann hans og sent nokkra tölvupósta. Svarið: Við erum ekki búin að taka afstöðu til Stundarinnar. Enginn annar frambjóðandi hefur verið svona erfiður í taumi. Ég ákvað því að eina rökrétta í stöðunni væri að sitja fyrir manninum og neyða hann til að tala við mig. Þegar ég sá auglýsta grillveislu við kosningaskrifstofuna hans ákvað ég að þetta væri tækifærið. Ókeypis matur og óþægilegar félagslegar aðstæður. Fullkomið.
Ég sótti vin minn og við fórum niður á Grensás, þar sem kosningaskrifstofa Davíðs er til húsa. Vinur minn er bótaþegi og kom með í þeim eina tilgangi að borða ókeypis grillmat í boði mannsins sem ber höfuðábyrgð á hugmyndafræðinni sem gerir það af verkum að ómögulegt er að lifa mannsæmandi lífi á bótum.
Að vanda var ég vígalegur í útliti, enda hef ég ekki enn lært að klæða mig eins og eðlileg manneskja þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þrjátíu ár. Með tjásulegt, ósnyrt skegg. Rauðar, gríðarlega óskipulagðra krullur sem standa langt út í loftið ofan á tveggja metra skrokknum. Í snjáðum strigaskóm, ullarsokkum yfir buxnaskálmarnar, leðurjakka yfir ullarpeysu, og til að toppa vitleysuna með svokallaðan arabaklút. Þegar ég kom inn á skrifstofuna sló smá þögn á hópinn. Skiljanlega. Ég er pínu hræddur við sjálfan mig í þessari múnderingu.
„Þetta var smá eins og mjög undarleg uppfærsla af Bugsy Malone.“
Skrifstofan var stöppuð af fólki. Nú ætla ég ekki að vera með neina aldursfordóma, því þarna var að finna fólk á öllum aldri. Kannski bara aðeins fleira fólk á sumum aldri en öðrum. Einnig hef ég aldrei séð jafnhátt hlutfalls fólk í teinóttum jakkafötum. Þetta var smá eins og mjög undarleg uppfærsla af Bugsy Malone. Það var meira að segja einn sirka tíu ára strákur í teinóttum jakka, en að vísu í gallabuxum við, sem mér fannst algjörlega frábært lúkk sem ég mun líklega einhverntíman stela óvart ef ég held vonlausum tilraunum mínum áfram.
Við félagarnir gengum fram hjá grillinu við innganginn og byrjuðum á að ná okkur í ókeypis gosdrykki innst inni á skrifstofunni. Geðþekk eldri kona bauð kurteisislega gjöriðisvovelogfáiðykkur. Í vænisýki minni, upplifandi þögn vegna útbúnaðsins á mér, tók þá ákvörðun að setja arabaklútinn í rassvasann, í aumri tilraun til að falla betur í hópinn. Davíð hefur sjálfur lýst því yfir að öfgafólk beri að varast, og pólitískar skoðanir mínar eru nógu öfgafullar á svona samkomu þó fólk haldi ekki að ég tilheyri hryðjuverkasamtökum í ofanálag.
Við tókum drykkina okkar með og fórum út. Við grillið stóð Eyþór Arnalds sveittur og snéri hamborgurum og kastaði pylsubrauðum alveg hist og her eins og honum var sjálfum kastað úr Todmobile. Eftir að hafa skannað grillið sá ég að það var eins og mig grunaði: Ekki var neitt í boði fyrir matvandar grænmetisætur. Ég sem hélt í bjartsýni minni að fólk sem vill bara græða á daginn og grilla á kvöldin væri með aðeins fjölbreyttara úrval en pullur og börra. Lét mér því nægja að sprauta tómatsósu í pulsubrauð og strá steiktum lauk og piknik kartöflusnakki yfir. Vinur minn hinsvegar var sáttari, kominn með ílangt rolluhold í pulsubrauðið sitt. Við stóðum úti og mauluðum á þessu þar til tilkynnt var að Davíð væri að fara að hefja ræðu og þá stukkum við samstundis inn.
Davíð var nýbyrjaður að segja sögu af því þegar hann var sem barn rekinn úr lúðrasveit og trompetinn tekinn af honum. Lýsti hann því hvernig hann fór grátandi heim, til þess að fá nú örugglega hámarks meðaumkun hjá mömmu sinni og ömmu, og hversu ósáttur hann var við það sem honum sýndist vera bros sem gamla konan átti erfitt með að fela. Mörgum árum seinna spurði hann svo ömmu sína hvað hefði valdið þessum viðbrögðum, og hún útskýrði það þannig að það hefði glatt hana að heyra af brottrekstrinum, því þá vissi hún að íbúðarverð í nágrenninu myndi hækka.
Sagan var fyndin. Nei ég meina, hún var í alvörunni bara mjög sæt og fyndin. Í smástund velti ég því fyrir mér hvort þessi saga, hvers inntak var að brotthvarf hans úr lúðrasveit hefði haft óvænt jákvæð áhrif annarstaðar, væri inngangurinn að því að Davíð dregði sig úr kosningabaráttunni. Þær raddir hafa heyrst að stuðningsfólk hans þrýsti á hann að hætta og séu jafnvel að leita útgönguleiðar. Móðir hans hefur verið mjög veik, og hann afboðaði vegna þess fundi sem hann átti á landsbyggðinni. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta geti verið vísbendingar um að hugsanlega muni hann láta sig hverfa bráðlega. Stuðningsmönnum hans og honum þykir það víst óspennandi kafli í goðsögninni um Davíð Oddsson þegar hann tapaði í forsetakosningum sem hann átti ekkert erindi í.
En hann dró sig ekki úr baráttunni. Hann sagði bara aðra frekar fyndna sögu. Og svo kom algjörlega fumlaus sleggja. Davíð sagði frá því að móðir sín, sem hafði verið að glíma við veikindi, hefði látist klukkan þrjú um daginn. Algjörri þögn sló á salinn. Maðurinn sem var búinn að vera að segja okkur sögur og brandara uppi á sviði hafði misst móður sína fyrir aðeins þremur klukkustundum. Davíð hélt áfram og lýsti því að hún hefði verið góð og ástrík kona, og vinamörg. Sagði svo strax í kjölfarið að í ljósi þess hefði hún kannski frekar átt að vera í forsetaframboði. Salnum var létt þegar skorið var á spennuna með smá spaugi, og hló með.
„Ég átti erfitt með að halda aftur af mér að hlæja ekki og klappa með, eins og allar hinar hendurnar með Frímúrarahringana sína.“
Hann var einlægur þarna. Mannlegur. Jafnvel andlegur. Sagði að þessir hlutir væru ákveðnir af Guði, og það væri ekki okkar mannanna að botna í þeim áformum. Hann lýsti svo hinum ýmsu kostum sem forseti þyrfti að búa yfir, þá sérstaklega að hann ætti að standa við það sem hann hefur sagt, og ekki hlaupast undan orðum sínum og gjörðum, sem er mantran sem Davíð hefur verið að lesa yfir Guðna Th. í aumri tilraun til þess að naga af honum fylgi. Eftir þessar ráðleggingar til handa mótframbjóðanda sínum rúllaði hann svo rakleiðis í aðra sögu. Eitthvað um Dabba Grensás. Og svo aðra. Og allar voru þær grípandi og fengu salinn til að hlæja. Brýrnar á milli heppnuðust og sögurnar sjálfar voru mjög vandaðar að uppbyggingu. Honum fipaðist hvergi. Inngangur, ris, flækja, hápunktur, niðurlag. Ég átti erfitt með að halda aftur af mér að hlæja ekki og klappa með, eins og allar hinar hendurnar með Frímúrarahringana sína.
Þegar ég horfði á hann rifjaðist upp fyrir mér partý sem ég fór í í menntaskóla, heima hjá gömlum vini Davíðs, Hrafni Gunnlaugssyni. Á einum stað í húsinu hans fræga stóðu pappakassar sem voru fullir af geisladiskum sem innihéldu samantekt á helstu verkum Útvarps Matthildar. Ég átti það til þegar ég drakk sem unglingur, eins og áður hefur komið fram, að gerast stelsjúkur. Þetta kvöld, þegar ég var búinn að sturta stjórnlaust í mig og undir álögum óminnishegrans, hnuplaði ég einum geisladisk. (Hrafn, þú mátt endilega senda mér reikningsnúmer, kennitölu og upphæð á bragi@stundin.is ef þú lest þetta. Grínlaust.)
Þessi diskur endaði svo í bílnum mínum og var spilaður margoft í gegn. Í Útvarp Matthildi voru, auk Davíðs, Þórarinn Eldjárn og Hrafn Gunnlaugsson, 21 og 22 ára með útvarpssketsa og grín. Vissulega er ekkert allt frábært, smá barn síns tíma, en inn á milli voru bara virkilega vel skrifaðir og fyndnir bútar. Ég las líka á sínum tíma smásögurnar hans Davíðs, og þær voru virkilega efnilegar. Á Wikipedia síðunni hans kemur fram að hann hafi ætlað í leiklistarnám til Japan, en eftir að hann kynntist Ástríði hætti hann við og kláraði MR. Hann þótti svo efnilegur í aðalhlutverki Bubba Kóngs að hann var ráðinn leikhúsritari Leikfélags Reykjavíkur eftir menntaskóla.
Þar sem ég stóð og hlustaði á þennan reynda ræðumann segja gamansögur og halda reisn sinni áreynslulaust, rétt eftir að hafa misst móður sína, áttaði ég mig á því hvað við, íslenska þjóðin, höfðum misst. Við misstum möguleikan á því að eignast leikarann Davíð Oddsson. Skemmtikraftinn, grínistann og rithöfundinn Davíð Oddsson. Augljóst er miðað við eljuna og þrautsegjuna í manninum að hefði hann kosið að gefa líf sitt listagyðjunum þá hefði eitthvað ótrúlega öflugt og skemmtilegt komið út úr því.
Ég gekk inn á þennan fund með svipaða hugmynd um Davíð Oddsson og margir; Gamli, geðfúli, vanstillti og valdgráðugi fyrrum einvaldurinn, núverandi eiturpenni í Hádegismóum. En sem ég horfði á hann áttaði ég mig á því að þarna var bara leikari sem festist í slæmri rullu fyrir mörgum árum. Rullu sem hann er ófær um að kúpla sig út úr. Maður sem þurfti bara tækifæri til þess að rækta hið listræna sem augljóslega er í honum. Hann hefði þá líklega ekki stefnt þjóð sinni fram af hengiflugi fjármálahruns, og þess í stað glatt og auðgað landann áratugum saman.
„Ferilskráin er hryllingssaga en hann er frábær í kokteilboðum.“
Eftir að hafa lokað settinu sínu með frekar fyndinni sögu um Serðir Monster gat ég ekki annað en klappað. Ekki fyrir forsetaframbjóðandanum Davíði, heldur skemmtikraftinum. Þetta er ástæðan fyrir því að þjóðin kaus hann ítrekað í valdaembætti. Af því okkur finnst hann skemmtilegur. Ferilskráin er hryllingssaga en hann er frábær í kokteilboðum.
Við félagarnir fórum upp að Davíð að ræðunni lokinni og biðum á meðan einn frímúrarinn tók með honum selfie. Ég kynnti mig svo, tók í höndina á honum vottaði innilega samúð mína. Viðtalið verður bara að bíða betri tíma. Gekk að því loknu út, hissa, því þessi grillveisla fór allt öðruvísi en ég hafði séð fyrir mér. Allt önnur upplifun og lærdómur en ég hafði búist við. Ungir listamenn sem snúa sér alfarið að stjórnmálum eru einfaldlega stórhættulegir.
Athugasemdir