Förum yfir þetta einu sinni enn, sagði lögregluþjónninn, ljóshærður náungi um þrítugt með plómukinnar, rósrauðar eftir kalt Berlínarloftið. Hann var í fullum skrúða með talstöð á öxlinni og búinn að koma sér fyrir við stofuborðið heima hjá mér.
Ókei, sagði ég og útskýrði málavexti: Klukkuna vantaði um það bil fimm mínútur í fjögur í gær þegar dyrabjallan hringdi hérna uppi á annarri hæð. Ég man tímann vegna þess að ég var einmitt að fara af stað að ná í strákinn minn í leikskólann. Þannig að þarna var strax komin ákveðin pressa. Úti á stigaganginum stóð rúmlega tvítugur náungi, af erlendu bergi brotinn, í svörtum buxum og leðurjakka.
Hann kynnti sig sem starfsmann Telekom, landsíma Þjóðverja, og spurði hvort ég hefði orðið var við truflanir í internettengingum að undanförnu. Það stæði til að skipta út línum í húsinu en fyrst þyrfti hver og ein íbúð að skrifa undir plagg, þá kæmi hraðara og traustara internet.
Einu sinni var sagt að vegurinn að hjarta mannsins lægi í gegnum magann. Í dag er töfraorðið „internet“.
Því næst dró hann upp nokkurs konar skilríki, plastkort á stærð við debetkort með nafni í pínulitlu svörtu Helvetica-letri: Rodz Jundi. Að vísu ekki borið fram svona, sagði hann og brosti afsakandi.
Ég rýndi aðeins í nafnspjaldið og fann hvernig vestrænt samviskubitið heltók mig, heilinn bergmálaði að ég mætti ekki vera fordómafullur. Þessi náungi gat verið sonur minn. Hann talaði lýtalausa þýsku, þetta var enginn vitleysingur og hlaut að hafa klárað einhvern skóla.
Komdu inn! sagði ég og vísaði honum inn í stofu.
Hann hikaði, líkt og hann tryði ekki eigin glópaláni. Svolítið eins og þegar fúlmennið Bernard bauð Vottum Jehóva inn í bókabúð sína í Black Books-þáttunum á BBC4 um árið.
Ég ítrekaði boðið og allt í einu vorum við sestir inn í stofu að fylla út pappíra. Hann að stafa nafn mitt og ég að útskýra af hverju Þorn er ekki til í evrópsku stafrófi.
Þannig að þú bauðst honum inn í stofu? spurði löggan og glennti upp augun, vantrúa.
Já, sagði ég. En það verður að segjast að ég var ansi utan við mig, enda að skrifa pistil í íslenskan fjölmiðil sem ég er einmitt að klára núna.
Löggan andvarpaði.
Amma mín er líka svona kurteis. Þú verður að vera dónalegur, herra Leifsson.
Já, einmitt, sagði ég og glotti við tönn. Þú mátt alveg segja konunni minni það.
Löggan áréttaði að Berlín væri stappfull af alls konar glæpaskríl. Ég mætti alls ekki hleypa ókunnugum inn í íbúðina þótt ég hefði sloppið með skrekkinn í þetta sinn.
Í miðju kafi við að fylla út eyðublaðið hafði ég nefnilega fengið skyndilega uppljómun og hætt við allt saman, rekið manninn á dyr og hringt í Telekom til að fá staðfest að engir starfsmenn þess gengu hús úr húsi að safna undirskriftum. Svo hafði ég haft samband við lögregluna. Þetta var þriðja staðfesta atvikið af þessum toga í götunni þennan dag. Það var ekki mikið mál að gúgla þessi Telekom-svindlaragengi og sjá að þau voru þekkt úti um allt Þýskaland. Ýmist að skipuleggja innbrot eða reyna að veiða bankaupplýsingar upp úr fólki.
Hvernig leit hann svo út þessi náungi? spurði löggan næst.
Ég veit það ekki alveg, svaraði ég.
Varstu ekki að segja að hann væri af erlendu bergi brotinn?
Jú … sagði ég og hikaði áður en ég bætti við: En ég get ekki sagt það í pistlinum. Ég get kannski sagt það við þig.
Láttu vaða!
Af erlendu bergi brotinn og glæpon. Líkt og Scorsese hefði ákveðið að endurgera Goodfellas á arabísku í Berlín. Eða eins og ISIS-gæi sem er nýbúinn að raka af sér alskeggið og ætlar að framkvæma sjálfsmorðsárás …
Þetta er alveg nóg í bili, sagði löggan.
Ef ég myndi segja svona í íslenskum fjölmiðli þá myndi ég vera sakaður um hreinan og kláran rasisma.
Löggan yppti öxlum og sagði í spurnartón: Eru það ekki öfugir fordómar? Skíthæll er skíthæll, hvaðan sem hann kemur. Gott og vel, höldum áfram. Feitur eða mjór?
Það er nú ekki gott að segja. Ég gæti verið sakaður um fitufordóma.
Löggan horfði undrandi á mig. Hvað áttu við?
Frjálslega vaxinn, kannski? sagði ég.
Hvaðan sagðirðu aftur að þú værir? sagði löggan og lagði frá sér skrifblokkina.
Frá Íslandi, mjálmaði ég.
Og nú lifnaði yfir mínum.
Ísland er dásamlegt land! Ég las um einhverja ráðherra sem áttu peninga í skattaskjólum og voru látnir segja af sér þegar upp komst um svikin í Panamaskjölunum!
Nei, ansaði ég. Við vorum að enda við að kjósa þetta lið aftur í ríkisstjórn.
Hvað ertu að segja? Löggan horfði hissa á mig eitt andartak, spurði svo vongóð: En þið hafið þó verið að taka við miklu meira af flóttafólki en nokkur önnu vestræn þjóð?
Það var bara á Facebook, sagði ég hratt. Ég held að við höfum tekið við fimmtíu Sýrlendingum í heildina.
Löggan hnyklaði brýrnar.
Leyfðu mér að skilja þetta rétt. Þið Íslendingar megið ekkert aumt sjá, eruð duglegir að móðgast fyrir hönd alls kyns minnihlutahópa – sem eru nota bene ekki á svæðinu – og viljið svo helst láta skattsvikara ráða yfir ykkur? Er þetta rétt hjá mér?
Ég þóttist ekki skilja síðustu setninguna heldur spurði á móti hvað ég ætti að gera ef kauði birtist aftur í gættinni.
Hringdu strax niður á stöð, dæsti löggan. Eða gerðu hann að forsætisráðherra Íslands.
Athugasemdir