Í gær fjallaði forsíðufrétt Fréttablaðsins um ójafna skiptingu eigna og tekna landsmanna. Fréttin vakti athygli, og var meira að segja vitnað í hana á Alþingi (með leyfi forseta):
(Katrín Jakobsdóttir): Síðan er önnur frétt í Fréttablaðinu í dag um launaþróun í landinu þar sem kemur fram að helmingur allra greiddra launa í fyrra hafi farið til tveggja efstu tekjutíundanna og er vitnað til gagna Hagstofu Íslands. Sú þróun hefur aukist marktækt á undanförnum árum og er vitnað til þess að af þeim 200 milljörðum króna sem greiddar voru í laun á árinu 2015, umfram það sem var árið 2013, fari tvær af hverjum þremur krónum, og rúmlega það, til efstu tveggja tekjutíundanna, þ.e. til þeirra 40 þúsund einstaklinga sem hafa hæstar tekjur og eiga mestar eignir í þessu landi.
Því miður voru í fréttinni rangfærslur, ásamt því að vera að vissu leyti villandi um þróun skiptingar launagreiðslna. Vildi ég því gera nokkrar athugasemdir. Í fréttinni segir eftirfarandi:
Efstu tveir tekjuhóparnir, sá fimmtungur sem hefur hæstu launin, var með samanlagt um 714 milljarða króna í laun í fyrra. Er þetta 51 prósent greiddra launa landsmanna á árinu. [Leturbreyting mín]
Á neðangreindri mynd sést að talan 714 milljarðar fæst með því að leggja saman allar tekjur þessara umræddra hópa á síðasta ári, meðal annars fjármagnstekjur, sem sannarlega eru ekki laun, og „aðrar tekjur,“ sem telja meðal annars bætur og lífeyrisgreiðslur og sem heimspekilega mætti kannski kalla laun í einhverju samhengi. En upphæð greiddra atvinnutekna tekjuhæsta tekjufimmtungsins er 563 milljarðar í fyrra og hlutfall þeirra af atvinnutekjum allra er 56%.
Síðar segir í fréttinni (í framhaldi á innsíðu):
Af þeim 200 milljörðum króna, sem greiddar voru í laun í fyrra umfram það sem var árið 2013, fara um 137 milljarðar, rúmlega tvær af hverjum þremur krónum, til efstu tveggja tíundanna, það er til þeirra 40 þúsund einstaklinga sem hæstar hafa tekjurnar og mestar eiga eignirnar í þessu landi.
Þetta er öllu alvarlegri rangfærsla. Aukning launatekna sem höfundur telur falla tveimur tekjuhæstu tíundum í skaut passar ekki við gögn Hagstofunnar — jafnvel þó horft væri til allra tekna. Sama gildir ef raðað er í tíundirnar eftir eignum eða eigin fé. Upphæðin er þó jöfn breytingu á heildartekjum þriggja tekjuhæstu tíunda ef raðað er eftir tekjum, og er það líkleg skýring á mistökunum. Ef horft er á breytingu atvinnutekna hjá tekjuhæstu tíundunum tveimur þá jukust þær um 84 milljarða á tímabilinu, og er það um helmingur, eða 53,6%, af aukningunni á útgreiddum launum allra (hlutfallið lækkar lítillega ef allar upphæðir eru núvirtar). Aukning greiddra launa til allra hópa milli áranna er svo nær 160 milljörðum en 200 milljörðum, þvert á það sem segir í tilvitnuðum texta. Hvort helmingur er svo hátt eða lágt hlutfall er svo önnur umræða, þó umræðan hér á eftir muni ef til vill varpa eilitlu ljósi á það.
Enn fremur geri ég athugasemd við framsetningu þeirrar staðreyndar að tekjuhæsti tekjufimmtungurinn þénaði helming allra tekna. Forsíðufyrirsögin var „Fimmtungur fær 51% launanna,“ og fyrir neðan sést með stórum stöfum tilvitnun „Misskiptingin hér á landi er mikil og fer stækkandi.“ Fréttin hefst svo á orðunum:
Ríkasta tíund landsmanna á jafnmikið og um tveir þriðju hlutar landsmanna til samans. Eignir þeirra hafa hækkað um 20 prósent frá árinu 2013 á meðan eignir annarra tekjuhópa hafa að jafnaði hækkað um 13 prósent. Að auki fór helmingur allra greiddra launa í fyrra til tveggja efstu tekjuhópanna.
Þarna er sú staðreynd að helmingur allra greiddra launa á síðasta ári hafi farið til tveggja efstu tekjuhópana sett fram í beinu framhaldi af staðreyndum sem snúa að þróun sem er ríkari einstaklingum í vil. Það gefur óneitanlega til kynna að þróunin hafi verið sú að hlutfall tekna þessa hóps hafi aukist. Sú er þó ekki raunin á allra síðustu árum eins og myndin hér að neðan sýnir. Einhver aukning hefur orðið á tuttugu árum, en það siglir varla hraðbyri í óefni. Og þó ég vilji síst hljóma eins og málsvari aukinnar misskiptingar, þá gæti hluti breytingarinnar skýrst af góðkynja orsökum, líkt og þeirri að yfir tímabilið valdi sífellt stærri hluti ungra Íslendinga að stunda háskólanám, og hafa þá ekki þær tekjur sem þau hefðu annars (1). Breyting eða kyrrstaða á hlutfallinu þarf svo ekki að segja sömu sögu og raunverulegar fjárupphæðir, en þá þarf að ræða það en ekki hlutfallið. Í þessu samhengi hljómar svo skipting tekjuaukningarinnar, þar sem tekjuhæsti fimmtungurinn hlýtur helming tekjuaukningar, ekki jafn svívirðilega — það er einfaldlega hlutfallið sem heldur tekjuskiptingunni í sama horfi.
Af ofangreindu er ljóst að meirihluti þeirra fullyrðinga sem Katrín Jakobsdóttir hafði eftir Fréttablaðinu á Alþingi í gær voru rangar. Á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú að tvær tekjuhæstu tekjutíundir fái greiddan stærri hlut af launum landsmanna. Sömu tekjutíundir fengu ekki tvær krónur af þremur af aukningu launatekna, og aukning launatekna nam ekki 200 milljörðum milli áranna 2013 og 2015. Ábyrgð fjölmiðla er mikil, og það er óskandi að mest lesna og útbreiddasta dagblað landsins skoði hvað olli því að ekki tókst betur til við að upplýsa þjóðina um eitt mikilvægasta málefni líðandi stundar.
(1) https://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir/EducationAtAGlance2012_samantekt-MMR.pdf Samantekt úr OECD Education at a Glance 2012 (Mennta- og menningarmálaráðuneytið). Bls. 21.
Athugasemdir