Ég bý í landi þar sem stærsta fréttin á einum víðlesnasta vefmiðlinum í byrjun viku er sú að Sighvatur Björgvinsson sé reiður yfir mögulegum breytingum á mannanafnalögum. Það er ekki stórfrétt vegna þess að það sé svo óvænt að Sighvatur Björgvinsson sé reiður. Sumir myndu jafnvel telja það viðvarandi ástand. Nei, þetta er frétt vegna þess að það er eiginlega ekkert annað í fréttum og það er bara fínt.
Í öllum æsingnum á samfélagsmiðlunum yfir nýjasta skandalnum þann daginn þarf maður stundum að minna sig á hvað við búum í sakleysislegu dúkkusamfélagi. Einn af hverjum 113 jarðarbúum er á flótta vegna styrjalda eða hungurs, Bandaríkin íhuga að kjósa yfir sig fasista í stað hefðbundinna stríðsæsingamanna og Bretar sprengja kannski Evrópusambandið af því að þeir geta það. En hérna heima er Sighvatur reiður yfir að einhver muni kannski heita Blýantur eða bera fornöfn allra strákanna í landsliðinu.
Og þegar kemur að forsetakosningum rifjast líka upp þetta með agnarlitla dúkkusamfélagið. Af þeim þremur forsetakosningum sem hafa náð máli frá því að ég fékk leyfi til að kjósa og kaupa bjór (nei, ég neita að telja kosningarnar 2004 með) hef ég alltaf lent í þeirri stöðu að styðja og geta kosið frambjóðanda sem ég þekkti persónulega.
1996 var það Ólafur Ragnar, sem hafði örskömmu áður verið formaður minn í Alþýðubandalaginu. Ólafur var maðurinn sem ég hringdi í nítján ára gamall, með grátstafinn í kverkunum, þegar Útvarpsráð ætlaði að banna mér að keppa í spurningakeppni framhaldsskóla fyrir að sitja í sextánda sæti á Allaballalistanum. „Veistu Stefán, þetta er ekkert mál! Þú ert núna að fá þína stærstu auglýsingu í stjórnmálum“, var svar formannsins sem sá aldrei neitt annað en pólitísk tækifæri í hverri stöðu. (Ég þurfti að fá einhvern annan til að lempa Útvarpsráðið.)
„Í öllum æsingnum á samfélagsmiðlunum yfir nýjasta skandalnum þann daginn þarf maður stundum að minna sig á hvað við búum í sakleysislegu dúkkusamfélagi.“
Það vafðist ekki fyrir mér að vinna fyrir Ólaf Ragnar 1996 og hafi maður í augnablik fengið efasemdir, þá eyddu Björgólfur Guðmundsson, Sigurður Helgason og Ómar í Þýsk-íslenska þeim öllum með heilsíðuauglýsingum rétt fyrir kjördag sem minntu á að Ólafur væri kommúnisti, gamall Þjóðviljaritstjóri og á móti hernum.
2012 var það Þóra, vinnufélagi úr spurningaleikjum í sjónvarpinu. Hún er númer eitt, tvö og þrjú eldklár. En líka fyndin, vel máli farin og með gott hjartalag. Reyndar hallast ég að því að hver sú eða sá sem hafi yfir þessum fjórum kostum að búa verði fínn forseti nánast óháð skoðunum viðkomandi að öðru leyti.
Og nú síðast, 2016 er það Guðni – gamall félagi úr sagnfræðinni. Hugmyndin um þennan gamla kennara minn sem forseta (húsverðirnir héldu að hann væri einn af nemendunum) hljómaði skringilega í fyrstu, en vandist svo furðuskjótt. Guðni hakar við alla reitina á forsetaprófinu: er skarpgreindur, mikill húmoristi, kemur vel fyrir sig orði og góð manneskja.
En auk þess að dúxa á prófinu er það eitt atriði til viðbótar sem veldur því að ég tel Guðna ekki bara sigurstranglegasta heldur besta kostinn. Forsetaembættið er og á að vera pólitískt valdalítið. Áhrifamáttur forsetans er einkum óbeinn og felst í möguleikanum á að koma umræðu af stað eða leggja henni lið. Þar skiptir í mínum huga mestu hvort embættinu sé beitt á þann hátt að það ýti undir eða dragi úr þjóðernisrembingi og útlendingaandúð. Og þar finnst mér margt af okkar forystufólki oft á vondum brautum.
Guðni hefur í gegnum tíðina og í þessari kosningabaráttu verið duglegastur við að afbyggja þjóðernismýtur og tala um Ísland í samfélagi þjóðanna fremur en að hamra á meintri eða raunverulegri sérstöðu okkar eða einstæðum eiginleikum. Það skiptir máli í heimi þar sem 24 manneskjur leggja á flótta á minute hverri og fasískum öflum vex fiskur um hrygg.
Þess vegna er Guðni Th. minn forseti.
Athugasemdir