Það er fyrir löngu tímabært að taka á fordómum í garð keyrandi kvenna. Iðulega er skömminni skellt á kvenfólk þegar bílum er ekið hægt, þeim illa lagt eða ólöglega, þó það eigi ekki við nein rök að styðjast. NR.1 DAD er reyndar búinn að þurrka eitthvað af stigmanu af kvenþjóðinni varðandi lélegar lagningar. Ég þurfti ekki að gúgla lengi til að komast að því að karlar eru almennt verri bílstjórar en konur þó vissulega séu þau misgóð eplin beggja vegna. En það kannast allir við útbólgnu steratröllin sem leggja þýskum sportbílum þvert yfir hvítu línurnar og láta ekki bjóða sér minna en þrjú stæði undir herlegheitin.
Ég hef lengi verið talin ómöguleg til aksturs af mínum nánustu, þrátt fyrir að vera tjónlaus og aki á eðlilegum hraða og tek aldrei fram úr. Ég fer með það hugarfar út á þjóðvegina að aka varlega og muna að það geta verið vitleysingar í hverjum einasta bíl sem ég mæti. Þeir sem taka fram úr í blindhæð til dæmis. Óþolandi fávitar, afsakið frönskuna. Mamma sármóðgaði mig einu sinni þegar ég og fyrrverandi lögðum upp í langferð og hún spurði hvort hann myndi ekki örugglega keyra. Ekki illa meint hjá henni vissulega, en angandi af úreltum tíðaranda og þeirri mýtu að konur geti ekki keyrt nema á auðum vegum. Þetta er skotheld leið til að fá femínistann í mér til að gjósa eins og eldfjall.
Ekki bara er ég kona heldur keyri ég um á 14 ára gömlum Yaris. Það bætir ekki úr skák. Yaris hefur um árabil verið annálaður kvennabíll og gífurlega vanmetinn. Annaðhvort skvísubíll fyrir ungar stelpur eða puntbíll í bílskúrinn fyrir eldri konur sem keyra nánast ekki neitt og sitja vanalega farþegamegin í Hondu CRV sem húsbóndinn ekur. Ég hef átt og ekið alls konar bílum, allt frá 20 ára gömlum ryðdósum yfir í spánnýjar kerrur beint úr kassanum. Yaris er albesti bíll sem ég hef keyrt. Því trúir enginn. Ég keypti undir hann heilsársdekk með loftbólum sem mér þykja margfalt betri en nagladekk. Því trúir enginn heldur. Ég hef skautað eins og belja á nagladekkjum, en loftbóludekkin grípa vel í. Nagladekk fyrir mér eru bara falskt öryggi og peningaplokk. Þegar þú spólar um í slabbi eða hláku eru naglarnir ekki að fara að bjarga þér. Þessa dellu í mér kaupir sjálfsögðu enginn og ég er bara álitin geðveik. Mín skoðun og reynsla er ekki tekin gild. Halló fimmti áratugur. Ég fer þá bara að vaska upp.
Hið ótrúlega gerðist svo á aðfangadagsmorgun að minn ástkæri Yaris fór ekki í gang. Vélin hamaðist við að reyna að starta sér en náði aldrei yfir hjallann þó að ég hamaðist á bensíngjöfinni eins og ég væri að strokka smjör. Hver einasti maður sem fékk að heyra af þessu spurði: „Er hann ekki bara rafmagnslaus?“ Sá fyrsti sem spurði fékk vingjarnlegt nei á meðan ég sprengdi háræðar í augunum af reiði. Þann fimmta sem spurði barði ég í andlitið með andlegum felgulykli. Ég hef verið með bílpróf í 11 ár. Er að auki með einn vélfræðiáfanga á bakinu. Ef ég væri karlkyns myndi enginn spyrja svona. Ef bíllinn væri rafmagnslaus myndi ég segja að hann væri rafmagnslaus og væna einhvern vesaling innan fjölskyldunnar um startkapla. Konur taka sama bílpróf og karlar. Að áætla að konur þekki ekki muninn á vélarbilun og rafmagnsleysi er hrein karlremba og fordómar. Eða mögulega er ég ærð af kvenhormónum og ætla ekki að afsaka mig. Gefið okkur bara smá kredit.
Athugasemdir