Á mínum 32 árum hefur það reglulega gerst að ég tel mig hafa handleikið einhvern sannleika. Ég hlustaði á Purple Haze með Hendrix, Snot með Snot, fyrstu Deftones-plötuna og eitthvað umturnaðist. Las Eymd eftir Stephen King, Dansað á ösku daganna, Manntafl eftir Stefan Zweig og áttaði mig á einhverju. Drakk vodka, reykti maríjúana, tók sýru og hausinn á mér sprakk.
Eftir hverja einustu stóru uppgötvun þurfti ég að púsla mér og heimsmynd minni saman aftur. Ekkert var samt og allt þurfti að setja í samhengi við nýjan veruleika. Ég opnaði á mér munninn og út úr honum komu orð sem reyndu að útskýra fyrir samferðafólki mínu hvernig hlutirnir væru í raun og veru. Hvernig raunveruleikinn virkaði. Alltaf var uppgötvunin jafn yfirþyrmandi og ótrúleg og í hvert einasta skipti hugsaði ég: „Ég skil. Núna er þetta komið. Það er engu við þetta að bæta.“
Með árum og ró varð lengra á milli sjálfs-byltinga. Þeim fækkaði. Smám saman sest rykið. Núna er ekkert fast. Vísindalegar staðfestingar á skoðunum mínum og skoðunum annarra sem ég get ómögulega samþykkt eru komnar í sama óaðgengilega skjalaskápinn. Yfirgengilegar menningarlegar upplifanir sem áður tóku yfir alla hugsun og mörkuðu tímamót hafa misst broddinn. Allt komið í einn graut. Engin ofsafengin trú á því að tandurhreinn og ósnertanlegur sannleikur sé rétt handan við hornið.
Ég er hættur að gapa í forundran. Núna hristi ég höfuðið. Ekki þunglyndi en samt ákveðin uppgjöf. Það er fegurð falin í því að gefa sig ótrúleika alls á vald. Leitinni að andlegum jarðsprengum er ekki hætt en drunurnar eru þagnaðar. Heiminn og hið mannlega ástand er ekki hægt að hólfa niður. Allar upplifanir jafn réttháar. Allt jafn satt og logið og ekkert er til. Ekkert er til. Ekkert er til.
Athugasemdir