13. nóv. 2015. Kl.23:57
Kærasta mín kemur heim með stærsta bros í heimi. Hún segir mér frá fyndnu kvöldi sem hún átti með vinum á jólahlaðborðsskemmtun á Grand Hótel fyrr um kvöldið. Vinkona hennar hafði náð að starta allsherjar kóngadansi við ,,Ég er eins og ég er’’ með Páli Óskari. Hún hlær og brosir á meðan hún leikur þetta fyrir mig. Ég brosi og hlæ en hugsa á sama tíma, ,,Shit, hún veit ekki hvað var að gerast í París í kvöld’’. Hvenær og hvernig á ég að rjúfa þetta bros og segja henni hvað hefur átt sér stað síðustu klukkutíma í hinni ástarelskandi, baguetteborðandi og rauðvínsdrekkandi borg?
Ég finn þörf til að segja henni frá því sem ég hef verið að lesa á fréttamiðlum en á sama tíma finn ég fyrir sorgartilfinningu yfir hvað þessi tjáningarþörf mín er sterk í þetta sinn. Ég fann ekki fyrir þessu þegar ég las um hryðjuverkasprengjuna sem drap 22 einstaklinga í Beirút í dag, né í síðasta mánuði þegar ég las um þá 36 sem létust af völdum árásar Boko Haram í Chad og hvað þá mánuðinum þar á undan þegar ég las um 54 dauðsföll af völdum hryðjuverkasprengingar í Norðaustur Nígeríu.
Nett leiðinlegt að finna meira núna í kvöld. Ég veit ekki enn að hvaða leyti ég finn meira til en samt leiðinlegt að finna meira eitthvað, hvað sem það er, þegar hryðjuverkaárásin og dauðsföllin eiga sér stað í landi sem við ,,tengjum’’ meira við. Að vísu er þetta stærri árás en ég hef heyrt um lengi en ég finn samt greinarmun, tilfinningin er önnur í kvöld. Ég vil ekki tengja meira við Frakkland en Chad. Ég vil ekki tengja meira við Danmörku en Nígeríu. Ég vil ekki tengja meira við Akureyri en Beirut. Ég vil geta kallað mig heimsbúa sem þykir jafnvænt um allar þessar kjöt- og blóðdrifnu vöðvavélar á jörðinni.
Fokk. Það að við séum yfirhöfuð á lífi, labbandi um og talandi er svo stórmerkilegt og yfirnáttúrulegt ef maður pælir í því - ókei það er svo sem efni í annan pistil.
,,Allir dansa kónga. Allir dansa kónga. Ég ER eins og ég EEEEEER. Allir dansa kónga’’. Hún heldur áfram að segja mér frá þessu steikarkvöldi og ,,ég er eins og ég er’’ í blandi við ,,allir dansa kónga’’ er farið að óma í hausnum mínum.
Ég á vini í París. Ég hef farið til Parísar. Mig dreymir um að búa einn daginn í París. Ég horfi á franskar bíómyndir eftir franska listamenn. Ég veit að Frakkar eru að mínu mati meiri töffarar en íbúar annarra þjóða, ég veit að Frakkar nenna ekki að tala ensku við mig, ég veit að frönsk tónlist er frábær, ég veit hvaða klisjur má kenna við Frakkland; baguette, málarahúfu, röndótta boli og rauðvín. Ég veit að franskir karlmenn eru með kinnbein sem eru meitluð af guðunum. Eftir mikið heimildarmyndaáhorf hef ég komist að því að franskir viðmælendur reykja meira fyrir framan myndavélar en viðmælendur annarra landa. Ég sé fyrir mér hvernig fólk á götum Parísar hagar sér, hvað þeim finnst gaman að gera og hvað ekki.
Staðreyndin er sú að ég tengi óneitanlega meira við Frakkland, Danmörku og Akureyri en Nígeríu, Chad og Líbanon, hvort sem mér líkar það eða ekki. Hvað get ég gert til að tengja meira við önnur landsvæði og þjóðir?
Ég þarf bara að vita meira, er það ekki?
En hvernig á ég að fara að því? Ég gæti tekið mig á í erlendum fréttalestri. Farið og ferðast. Gæti svo auðvitað hakkað IP töluna mína til þess að kenna mig við mismunandi lönd viku eftir viku og þannig öðlast aðgang að fjölbreyttara úrvali erlendra Netflix bíómynda.
Ókei, ég þarf augljóslega að gera meira af mörgu.
Aftur að þessu yndislega brosi, hennar sem liggur á móti mér. Ég hugsa með mér hvað við treystum léttilega. Maður treystir því að allt sé í lagi. Maður treystir því að maður geti skemmt sér og komið heim að heimili eins og maður skildi við það. Maður treystir því að Bónus niðri á horni opni klukkan 10, að mamma hringi á morgun til að minna mig á fjölskylduboð kvöldsins, að Ólafur Ragnar Grímsson verði forseti út enn eitt kjörtímabilið. Djók. Ég treysti því að pirrandi hljóðið í ofninum verði þar aftur á morgun, að blæðingar mínar geri sér ekki fyrirvara og komi mér á óvart í næsta mánuði, rétt eins og í þeim síðasta.
En er nokkuð neikvætt að treysta umhverfi okkar svo léttilega? Hvernig virkar traustlaust samband mannsins við umhverfi sitt? Ég meina ástarsamband án trausts er tortímandi og glatað. Vekur til lífs lítið kvíðaskrímsli innra með manni og opnar þar með á alls konar neikvæðar og vondar hliðar manndýrsins sem fela sig vanalega í gleði öryggisins.
Maður getur allavega kæft kvíðaskrímslið með að yfirgefa traustlaus ástarsambönd - Getur maður yfirgefið traustlaust samband við samfélag sitt?
Ég væri helst til í að vera laus við lítil kvíðaskrímsli þegar það kemur að sambandi mínu við samfélagið, annars enda ég líklegast sem agnarsmá magasárshneta innan 5 ára.
Athugasemdir