Þegar Framsóknarflokkurinn vann sinn ótrúlega kosningasigur í apríl 2013 bætti hann við sig hvorki meira né minna en tíu þingmönnum. Framsóknarþingmenn voru níu en urðu nítján. Þegar verið var að skipa á framboðslista um veturinn hafði Sigmundur Davíð formaður enn ekki fullkomnað sína miklu barbabrellu – skuldaleiðréttinguna, vansællar minningar. Þeir sem settust í annað og ég tala nú ekki um þriðja sætið á framboðslistum Framsóknar áttu því sjálfsagt fæstir von á að „hreppa þingsæti“.
Það algenga orðalag segir reyndar sína sögu um viðhorf okkar Íslendinga til þingmennsku. Það er eins og aflahrota eða happdrættisvinningur að setjast á þing en ekkert gefur til kynna að fólk sé komið til þjónustu við þjóðina, nei, það hefur dottið í lukkupottinn persónulega með þingsætinu.
En látum það nú liggja milli hluta. Þetta er vissulega orðhengilsháttur. Mergur málsins er að inn á þing fyrir Framsókn flaut með Sigmundi Davíð og skuldaleiðréttingunni um það bil tugur manns sem hafði ekkert endilega átt von á að enda þar.
Og mér verður stundum hugsað til þess fólks.
Þetta er áreiðanlega hið besta fólk persónulega, ekki spyr ég að. Og enginn gat ætlast til þess að í þeim hópi yrði hver og einn aðsópsmikill stjórnmálaskörungur við það eitt að verða þingmaður við þessar aðstæður. Það var ekkert við því að búast að þeir myndu allir láta mikið að sér kveða.
(Fyrir nú utan, eins og Jón Magnússon spurði: „Hvað vilja þeir með skörunga?“).
En fyrr má nú láta lítið á sér bera en vera gjörsamlega gufaður upp. Og fyrr má nú sýna eðlilega flokkshollustu en kokhleypa hvaða þvætting sem er frá Sigmundi Davíð.
Nú hefur Sigmundi Davíð þóknast að sameina Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafnið undir sínum hatti. Þetta er mjög afleit hugmynd vegna þess að stofnanirnar sinna að ýmsu leyti mjög ólíkum og ósamrýmanlegum hlutverkum. Einkum hefur verið gagnrýnt að verði af þessu, þá endi það með því að sama stofnun veiti leyfi og stundi eftirlit með rannsóknum sjálfrar sín. Og svo framvegis. Þetta er sem sagt í orði sagt: Bull. Og í tveimur orðum: Augljóst bull.
Ástæðan fyrir þessari vitleysu er sú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist líta á sig sem mikinn speking í varðveislu og skipulagi húsa og minja. Allt í lagi með það ef hann leyfði málum samt að fara sínar eðlilegu leiðir, en hann virðist staðráðinn í að nota tímann sem hann hefur í forsætisráðuneytinu til að setja rækilega mark sitt á þessi mál og sölsa undir sig eins mikil völd á þessu sviði og hann mögulega getur. Af því tilefni hefur hann fengið Capacent og einhverja skósveina sína til að skrifa upp á tillögur þessa efnis, þótt öllum megi sem sagt vera ljóst að þetta er – já, alveg rétt: Bull.
Og meðal annarra orða: Drottinn guð almáttugur forði okkur frá íslenskri menningu í boði Capacent.
En ég fór sem sagt að hugsa um alla framsóknarþingmennina. Af hverju segja þeir ekki múkk þegar svona kristalskýrt yfirgangsbull er lagt fyrir þá á þingflokksfundum?
Eru þessir þingmenn svo þakklátir Sigmundi Davíð fyrir að hafa náðarsamlegast veitt sér vel borgaða og þægilega innivinnu í fjögur ár með góðum lífeyrisréttindum þegar fram í sækir – að þeir hafa gjörsamlega gleymt því að við upphaf starfs skrifuðu þeir undir svolítið plagg þar sem þeir hétu því að fylgja ævinlega samvisku sinni? Og hversu miklir framsóknarmenn sem þeir eru, þá trúi ég því ekki að samviskan láti ekki ögn á sér kræla þegar hrannast inn mótmæli allra sem til dæmis þetta mál varðar – og sameining þessara stofnana er augljóslega hvorki hagstæð fyrir málaflokkinn né blessaða þjóðina – en samt á að keyra hana í gegn af því þetta er einhver delluhugmynd Sigmundar Davíðs. En má ég vekja athygli þessara þingmanna á því að það er ekki Sigmundur Davíð sem borgar kaupið ykkar. Ég geri það. Og það er ekki Sigmundur Davíð sem mun borga ykkur lífeyrinn góða. Það verða börnin mín sem gera það.
Svo hristið nú af ykkur slyðruorðið þetta síðasta ár áður en mörg og kannski flest ykkar hverfa aftur til fyrri starfa. Takið sjálfstæða afstöðu, réttið ekki sjálfkrafa upp hönd við hvaða dellu sem er. Flokkshollusta er eðlileg upp að vissu marki, en alls ekki þegar hún gengur gegn góðri stjórnsýslu og hagsmunum þjóðarinnar sem er með ykkur í vinnu. Reynið að skiljast við starfið með sóma og samvisku, en hverfið ekki inn í stjórnmálasöguna sem sauðtryggir þjónar Sigmundar Davíðs sem samþykktu allan hans flumbrugang.
Dustið nú rykið af samviskunni sem þið hétuð að fylgja og reynið að sýna af ykkur dug.
Athugasemdir