Eftir nokkur ár manstu örugglega hvað þú varst að gera þegar þú fréttir að Donald Trump yrði mjög sennilega næsti forseti Bandaríkjanna. Sjálfur mun ég alltaf burðast með þessa mynd af mér í hausnum þar sem ég tvístíg svefndrukkinn inni á baði árla morguns með Iphone í vinstri hendi að fletta í gegnum netmiðla meðan Megas hvæsir inn í eyrað á mér: … gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni.
Trump kom eins og blaut tuska framan í mig þann 9. nóvember 2016.
Hvaða fáviti kaus Trump? hugsaði ég og sturtaði niður. Og þá mundi ég það. Vinur minn, Friðbert kokkur, kaus Trump.
Friðbert kokkur mætti heim til okkar í Berlín í lok september. Stór eins og útidyrahurð með blátt kaskeiti á hausnum, skreytt röndum og stjörnum, og með hjarta úr gulli. Fimm ára sonur minn elti hann hvert sem hann fór, dillandi rófunni hefði hann haft eina slíka. Friðbert kokkur var eins og himnasending fyrir lítinn pjakk, nýbúinn að fá fellibyli á heilann og trúði þar að auki að þegar hann yrði „fullorðins“ myndi hann heita Elvis Presley og standa á sviði í gullfötum fyrir framan fullan sal af fólki. Og Friðbert kokkur leiddi nú litla manninn um hverfið og sagði honum frá fyrirheitna landinu hinum megin við stóra hafið.
„Kannski hefði ég átt að reyna að útskýra að ef hann kysi vonda karlinn með yfirgreidda skallann þá kysi hann jafnframt kvennakúgun, kynþáttahatur, fordóma og ofbeldi.“
Á þriðja degi heimsóknarinnar fórum við fjölskyldan með kokkinum upp á Teufelsberg, sem er rúmlega hundrað metra há hæð byggð ofan á rústum um fimmtán þúsund bygginga sem voru sprengdar í tætlur í heimsstyrjöldinni síðari og leifunum síðan mokað þangað í einn haug. Svo mikill grænn skógur hefur gróið á rústunum að nú er erfitt að ímynda sér að þetta hafi vaxið upp úr leifunum af stríði – hvað þá að hér hafi verið stríð.
Eins og svo oft áður sögðum við ungum dreng frá því hvernig vondi karlinn hafði látið drepa fullt af fólki. Nei, Hitler var ekki Godzilla! Hitler var vitleysingur. Vondir karlar eru alltaf vitleysingar. Og svo framvegis.
Eftir sólarlag fórum við þrjú með kokkinn í þýskan bjórgarð þar sem fína fólkið frá Suður-Þýskalandi fer sínum fínlegu fingrum um snitzel-sneiðar, eldbökur og eggjanúðlur meðan það dreypir á hvítvíni og horfir skelfingu lostið á son okkar teikna myndir af Godzilla á servíettur. Kuldaleg gengilbeina hvessir á okkur augun ef drengurinn gerist of hávær.
Inn í þetta ofur viðkvæma vistkerfi ruddist nú okkar maður, hlammaði sér niður við dyragættina og pantaði tvöfaldan skammt af eggjanúðlum ofan í snitzel, líkt og risavaxnir matarskammtarnir væru pínulitlir tapas-skammtar á reykvísku túristahóteli.
Ropandi og man-spreðandi fótleggjunum út um allt hrútskýrði hann hitt og þetta á amerísku fyrir þýsku þjónunum sem urðu samstundis glaðbeittir og altalandi á bandarísku eins og við værum allt í einu stödd á settinu í Fame.
Já, Friðbert kokkur er svo sannarlega áhugaverður maður með mikla lífsreynslu. Hann hefur rekið sig á í lífinu, hrasað og staðið upp aftur. Á vissan hátt má segja að hann skilji lífið eins og segir einhver staðar í sögunni um Litla prinsinn eftir Saint-Exupéry.
En af hverju þá Trump, Friðbert?
Við ræddum það aldrei til hlítar þarna á snitzel-staðnum. Kannski hefði ég átt að reyna að útskýra að ef hann kysi vonda karlinn með yfirgreidda skallann þá kysi hann jafnframt kvennakúgun, kynþáttahatur, fordóma og ofbeldi, en Friðbert hefði væntanlega bara brosað góðlátlega og pantað annað risa-snitzel.
Eftir því sem ég kemst næst þá var Friðbert að rífast við fólk á internetinu. Friðbert er með eindæmum vel lesinn en skrif á samfélagsmiðlum eru ekki hans sterkasta hlið og ég get ímyndað mér týpurnar sem hann hefur verið að rífast við. Fólk sem hefur náð sæmilegum tökum á íslensku sem það rígheldur í, minnir á að það sé með próf í einhverju þegar það er komið í þrot í rökræðum og notar oftuggin orð eins og „smætta“ eða „lægsta samnefnara“ og hrútskýrir síðan hvað hrútskýrir þýðir fimmtán sinnum, lækandi leiðindin hvað hjá öðru.
Og í þessu fargani hefur Friðbert kokkur einhvern veginn flækt sig í net umræðna um Clinton, Sanders, Trump, Johnson og Stein – og endað með því að fara í svaðalega fýlu og lýsa því yfir að hann ætlaði að kjósa Trump.
Og núna ætla ég að játa svolítið fyrir ykkur.
Ég á aldrei eftir að vita nákvæmlega af hverju Friðbert kaus Trump vegna þess að ég mun aldrei spyrja hann beint. Til þess er virðing mín fyrir manneskjunni einfaldlega of mikil.
En eftir situr fimm ára drengur í Berlín og botnar ekki neitt lengur í Ameríkunni sinni.
Þegar mömmu hans var boðið að koma til New York næsta vor og vildi hafa karlana sína með, þá var sá stutti fyrst ær af spenningi en síðustu daga hafa runnið á hann tvær grímur. Hann segist vera hræddur. Hræddur við hvað? spyrjum við í kór.
Hræddur við að jörðin deyi. Já, og hræddur við að vondi karlinn – þessi með hárið – taki hann.
Sko, Leifur Ottó minn, segjum við. Þessi maður er ekki beinlínis hættulegur fyrir þig. Hann tekur þig ekki og hleypur með þig fyrir horn á meðan pabbi og mamma eru að tala amerísku. Hann er kannski að fara að gera hitt og þetta ljótt, eins og að reka fullt af fólki úr Ameríku, en hann meiðir þig ekki.
Þá hallar litli maðurinn undir flatt eitt augnablik, einlæglega dapur þegar hann segir – og nú vitna ég í hann orðrétt: Ég held að þessi maður sé að fara að gera stríð, kannski.
Athugasemdir