Nýlega kom upp skrýtið mál í Danmörku. Martin Henrikssen úr flokki Dansk Folkeparti sagði átján ára ungling í beinni útsendingu í sjónvarpsþætti að hann væri ekki danskur, þótt hann væri fæddur og alinn upp í Danmörku.
Það má finna áhrifaríkt myndbrot úr þessu rifrildi á Youtube.
Unglingurinn lýsir því yfir að í Danmörku séu margir eins og hann sjálfur; öll þau sem eiga foreldra sem hafa flutt þangað frá öðrum löndum, þau væru alveg jafn dönsk og hver annar.
En þá greip Henriksen fram í: Maður verður ekkert danskur af því! Hættu þessu bulli!
Þessi ummæli hans áttu eftir að bergmála í dönskum fjölmiðlum vikum saman. Hvað þýðir það í raun og veru að vera danskur?
Myndbrotið er banal og um leið táknrænt. Martin Henrikssen líkist einna helst dönsku alisvíni en hinn íransk-ættaði Jens Philip Yazdan er engilfríður, einna líkastur ungum George Harrison eða Jesú. Honum hafði verið boðið í þáttinn til að ræða um flóttafólk og aðlögun þeirra inn í danskt samfélag, enda er hann formaður nemendaráðs í Langkær-gagnfræðaskólanum í Árósum sem hafði verið í umræðunni eftir að stjórnin ákvað að skipta nemendum niður í bekki eftir uppruna. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að þau 20% prósent nemenda sem voru af dönsku bergi brotin yfirgæfu skólann.
„Erum við að gera rétt með því að senda son okkar í skóla þar sem meirihluti barnanna kemur úr framandi menningarheimum?“
Eftir að hafa horft á þáttinn nokkrum sinnum fór ég alvarlega að íhuga að senda son minn í grunnskóla í götunni okkar þar sem meirihluti barnanna eru af tyrknesku eða arabísku bergi brotinn. Nokkrum dögum síðar stóð ég svo við stóru orðin og fór að skoða skólann með fjölskyldu minni.
Teltow-grunnskólinn er risastór hundrað ára bygging sem svipar nokkuð til Hogwart-skóla Harry Potters. Sonur minn hafði lengi óttast þessa byggingu vegna þess hversu yfirþyrmandi hún er í mikilfengleika sínum. Það tók okkur hjónin tíu mínútur að fá drenginn til að nálgast skólann og því næst stíga inn á skólalóðina, á endanum þurftum við að múta honum með tíu evru seðli svo hann kæmi inn að skoða, bara í smá stund. En þegar við komumst loksins inn í skólann breyttist allt eins og í ævintýri. Nemandi á síðasta ári, ellefu ára drengur af tyrkneskum ættum, leiddi son okkar upp og niður breiða tröppustiga og sýndi honum hvern krók og kima. Þeir voru strax farnir að haga sér eins og félagar sem hefðu þekkst í áraraðir. Léku sér í fótboltaspili í einum af fjölmörgum leikherbergjum og toguðu hvor annan milli herbergja þegar við vorum svifasein að fylgja þeim eftir.
Fljótlega varð afleggjarinn okkar nokkuð bráður. Hann ruddist inn í hverja skólastofu á fætur annarri í óslökkvandi námsþorsta, krítandi nafn sitt á töflur við mikla kátínu nemenda jafnt sem kennara, meðan leiðsögumaðurinn ungi þurfti að hafa sig allan við að koma í veg fyrir slys. Á þriðju hæð ruddist barnið inn í sögutíma og var hársbreidd frá því að brjóta leirstyttu af Eiffel-turninum. Frískleg kennslukona sagði það í góðu lagi, þetta væri skóli, ekki safn. Fimm mínútum síðar reif hann upp hurð hjá skólasálfræðingnum og hrinti nokkrum pullum í gólfið. Mér fannst góðs vísir að sjá hversu einmana þerapistinn virtist vera, feginn óvæntri heimsókn. Þegar ég spurði hvort ekki kæmi upp ósætti hjá jafn mörgum þjóðernum var mér svarað að þetta væru allt börn. Það væru alls staðar konfliktar, bara misjafnt hvernig tekið væri á þeim.
Á neðstu hæðinni var sérstök deild sem sá um móttöku á flóttabörnum frá Sýrlandi og nemendur tóku þátt í því starfi. Þegar sonur okkar hefur þarna nám mun eldri nemandi hjálpa honum að aðlagast fyrstu dagana.
Að lokinni rúmlega tveggja klukkustunda skoðunarferð um bygginguna lýsti sonur okkar því yfir að þetta væri uppáhaldsskólinn hans. Af okkur foreldrum var þungu fargi létt því þetta er skóli hverfisins og ekki endilega hlaupið að því að fá pláss annars staðar, nema þá einna helst á Íslandi.
Á leiðinni heim fór ég að efast. Erum við að gera rétt með því að senda son okkar í skóla þar sem meirihluti barnanna kemur úr framandi menningarheimum? Eftir smá umhugsun sannfærði ég sjálfan mig um að við værum að gefa honum ný verkfæri til að takast á við framtíðina. Á næstu áratugum mun verða æ mikilvægara fyrir ungt fólk að skilja hvað annað og geta leyst úr ágreiningi.
Sonur okkar átti ekkert sérstaklega auðvelt uppdráttar í Berlín þegar við fluttum þangað fyrst. Litlu sætu foreldrareknu leikskólar hverfisins virtust lýðræðislegir á yfirborðinu en þegar betur var að gáð höfðu tvítyngdir foreldrar, eins og við sjálf, ekki mikið að segja meðan suður-þýskar frekjur stöppuðu í gólfin á birkenstokk-skóm og rifust tímunum saman um hver ætti að kaupa ljósaperur og klósettpappír eða mála forstofu skólans í jólafríinu. Tvítyngdum var haldið í skefjum í þessu umhverfi; við vorum lágstétt líkt og einstæðu mæðurnar – en Íslendingar þykja þó girnilegur minnihlutahópur til að búa til gott uppeldislegt umhverfi. Við mætum með hvalkjöt á grillið, þykjum mátulega framandi, góð til undaneldis og furðu góð í hópíþróttum. Kannski svolítið litlaus – en það reddaðist þegar íslenskur túristi tók upp á því að bíta eyrað af manni í hraðlest norðan við Berlín núna í september síðastliðnum.
Það var svo ekki fyrr en sonur okkar fór í ríkissrekinn leikskóla, þar sem rúmlega helmingur barnanna er tvítyngdur líkt og hann sjálfur, að hann varð eins og fiskur í vatni. Þarna mættust börnin á jafningjagrundvelli á leikvelli þaulreynds atvinnufólks í uppeldisfræðum og virtust eiga mun auðveldara með að umgangast og leika sér. Mörg þeirra þýsk eða evrópsk í annan legg en alþjóðleg í hinn og gátu því tileinkað sér það besta úr sinni menningu.
Nú á ég fimm vini, segir sá stutti og telur þá á fingrum fram. Ég átti líka vini í gamla leikskólanum. En það voru erfiðir vinir. Ef ég orðaði eitthvað vitlaust þá hættu þeir stundum að tala við mig.
Vonin býr í börnunum okkar sem mætast á róló og faðmast í leik. Þau munu í sameiningu skapa nýjan heim. Og þeim mun með tíð og tíma takast að hemja danska svínið sem býr innan í okkur öllum.
Athugasemdir