Varúð: Þessi grein kann að vera tilraun til að eyðileggja Ísland og er hugsanlega til marks um hatur á Framsóknarflokknum og öllu því sem einkennir íslenskt samfélag.
Veðurfræðingur spáir því að 30 ára kuldaskeið sé að hefjast á Íslandi. Og að sumarið verði óvenjukalt. En það er ekki allt.
Forsætisráðherra segir að hrægammarnir séu að sálgreina okkur til að láta okkur gera það sem þeir vilja. Og svo er hópur fólks að reyna að eyðileggja allt vegna þess að hann hatar íslenskt samfélag, segir forsætisráðherrann.
Það er alltaf sólskin í Afganistan
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var alsaklaus af því að hafa gert nokkuð í aðdraganda efnahagshrunsins, steig fram í viðtali í Morgunblaðinu undir ritstjórn Davíðs Oddssonar og gantaðist með að íslenskir stjórnmálamenn myndu frekar vilja vera í Afganistan eða Úkraínu en á Íslandi. Því það er svo erfitt að vera í stjórnmálum á Íslandi, vegna orðræðunnar.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Hvert blogg er fyrir stjórnmálamannssálartetrið eins og talibönsk skæruliðaárás og sérhvert facebook-komment særir eins og sprengjuflís.
Hún segir að það eigi sér ekki lengur stað uppbyggileg umræða um hugmyndir og hugsjónir. Eins og hún var vön í víggirtu verndarsvæði starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í Afganistan.
Það er ekki bara betra að vera stjórnmálamaður í Afganistan, svona í léttum dúr. Það er líka miklu betra veður. Í Kabúl eru 3.200 sólsskinsstundir á ári. Í Reykjavík eru þær bara 1.300 á ári. Og margar þeirra eiga sér stað í roki og kulda eins og í dag, þar sem máttlausir sólargeislarnir endurkastast bara af rjómahvítri, melanínskertri gæsahúðinni.
Þeir sem hata Ísland
Forsætisráðherrann lýsti því um helgina að það stafar sérstök ógn af þessu hættulega fólki sem „leggur fæð á allt sem einkennt hefur íslenskt samfélag en ver í blindni allt sem má verða til þess að eyðileggja það sem fyrir var.“
„... leggur fæð á allt sem einkennt hefur íslenskt samfélag“
Þetta eru ekki talibanar eða ISIS, eyðileggjandi fornminjar og kastandi fólki fram af húsþökum fyrir að vera hitt eða þetta. Þessi hættulegi hópur innlendra skæruliða andans virðist skáka talibönum í ógnarskala.
„... aðhyllast bölhyggju og stunda illmælgi...“
Forsætisráðherrann varar við því að leyfa þeim sem „aðhyllast bölhyggju og stunda illmælgi að leiða umræðu í landinu“. Ekki hann samt. Endurtekin opinber illmælgi hans um hvatir gagnrýnenda hans er uppbyggileg. Hún er ímynd „heilbrigðrar gagnrýni því rýni til gagns á að byggja á rökum og miða að því að benda á hvernig gera megi hlutina betur.“
Það var líklega ekki heldur bölhyggja, heldur „róttæk rökhyggja“, þegar forsætisráðherrann sagði að síðasta ríkisstjórn væri verri en efnahagshrunið, áður en hann komst til valda.
Hreyfing hrægammanna
En þetta er ekki allt.
„Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála,“ upplýsti forsætisráðherra um helgina „Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.“
Niðurstaðan af leyniskýrslum hrægammanna um Ísland, sem forsætisráðherra hefur komist á snoðir um með óvirkum rannsóknaraðferðum, er að Framsóknarflokkurinn sé helsti verndari Íslands. Enda ekkert grín að eiga við flokksmenn sem hóta hrægömmum með kylfu og haglabyssu.
En getur verið að hrægammarnir hafi náð til okkar, án þess að við vitum af því?
Egill Helgason, bloggari og þáttarstjórnandi, sagði í vikunni, í sálgreinandi þriggja orða aukasetningarfréttaskýringu, að fjölmiðillinn Stundin hataði Framsóknarflokkinn.
Getur verið að við hötum Ísland þegar við gagnrýnum ráðandi hugmyndafræði?
Endurnýtt hugmyndafræði
Ef hugmyndafræðin er sú að þeir sem gagnrýna ráðandi öfl séu niðurrifsseggir og að hættulegir útlendingar séu að njósna um og reyna að heilaþvo fólkið, þá er það gamalt þjóðernispopúlistabrugg, sem hefur álíka áhrif á víðsýni og tréspíragambri.
Ef hugmyndafræðin er að allir eigi að vera jákvæðir og þeir sem séu gagnrýnir eyðileggi fyrir hinum, þá hefur það líka verið reynt í ýmsum útgáfum.
En þarna komum við að kjarna málsins. Maður verður að greina á milli þess sem maður getur gert eitthvað í og þess sem maður fær ekki breytt. Við getum bætt stjórnmálamenninguna, gildismat okkar og ákvarðanatöku í efnahagsmálum, með því að ástunda gagnrýna hugsun og þora að tjá okkur; með því að ráðandi öfl hafi þroska til að umbera og hvetja til gagnrýninnar umræðu frekar en að útiloka hana og jaðarsetja fólk fyrir hana.
Við getum breytt þessu, en við getum ekki breytt veðrinu. Þess vegna þýðir ekkert að vera að öfundast út í fólkið í Afganistan.
Má ekki neitt?
Formaður kjarasamninganefndar ríkisins skelfur á beinunum eftir að forsætisráðherrann galaði því upp til að hrósa sjálfum sér að nú sé loksins nóg til skiptanna í íslensku samfélagi, þótt ríkið bjóði bara 3,5% launahækkun standandi frammi fyrir fjöldaverkföllum. Ríkið býður einn tíunda af því sem forsætisráðherra hefur fengið í launahækkun frá hruni. Nú er eins gott að gefa ekkert eftir í viðræðunum við ríkið.
Stjórnendur í fjármálageiranum hafa hækkað um 11% bara á einu ári, en þeir fá ekki einu sinni að borga sér tvöföld árslaun í bónusa, eins og þeir berjast nú fyrir.
Á meðan er Starfsgreinasambandið að reyna að kollvarpa efnahagslífinu með því hækka lágmarkslaun í 300 þúsund krónur.
Íslendingar eru nefnilega sjálfum sér verstir, í augum ráðandi afla. Þeir eru ýmist að eyðileggja landið með því að tjá sig of neikvætt eða biðja um peninga. Við erum eins og eitt stórt unglingavandamál þeirra sem ráða. Svo mikið að sumir telja sig bara geta fullorðnast sem manneskjur með því að flytja að heiman til Noregs.
Afeitraða þjóðin
Til allrar hamingju býður Jónína Ben okkur öllum í ferð til Póllands í viðtali sem hún keypti í Fréttatímanum í dag. 190 þúsund fyrir utan flug og leigubíl. „Innifalið er fullt fæði og fræðsla“, en mælt með því að fólk stundi tveggja vikna „detoxföstu“ á meðan dvölinni stendur, sem gerir „fulla fæðið“ vissulega takmarkaða auðlind. „Ég er einnig vön að vinna með unglingum, 14 ára og eldri,“ segir Jónína.
Kannski ættu stjórnmálamennirnir okkar að fá fría ferð með Jónínu á hverju ári þar sem þeir geta afeitrað sig frá þessum neikvæðu niðurrifsseggjum sem byggja þetta land.
Eða kannski eru detox-ferðir Jónínu Ben táknmynd fyrir það að vera íslenskur launþegi og borgari: Það er nóg af peningum í spilinu, en það þarf að afeitra okkur með fjársvelti, á meðan góðar fyrirmyndir mata okkur með hollráðum um hvernig við eigum að hegða okkur svo við eyðileggjum ekki allt.
Athugasemdir