Í fyrra var íslenskum fjölmiðlum boðið að senda fulltrúa í boðsferð til Washington. Tilefnið var ný flugleið WOW air. Margir þáðu boðið. Stundin fjallaði um málið og setti í samhengi. Og nú þegar rykið hefur sest í boðsferðarmáli WOW air og mörg setlög af öðrum og stærri fréttamálum mánuðum saman þjappað ofan á því og steingervt það, má grafa það upp aftur og sjá fölskvalausar staðreyndir málsins án þeirrar óumflýjanlegu hluttekningar sem grípur mann alltaf þegar atburðum vindur jafn óðum fram.
Og það sem sést er fréttafólk sem þáði gjafir af stóru og áberandi einkafyrirtæki sem óumflýjanlega myndi verða í kastljósi fjölmiðlanna. Og það er ósmekklegt, og það er sérstaklega ósmekklegt í landi þar sem fjölmiðlar höfðu nokkrum árum áður verið meðvirkir með viðskiptalífinu í atburðarás sem skók íslenskt efnahagslíf og þjóðina alla. Rannsóknarskýrsla Alþingis dregur það saman sem svo:
„Fjölmiðlar ræktu illa það hlutverk sitt að upplýsa almenning um stöðu mála og veita stjórnvöldum og einkaaðilum gagnrýnið aðhald. Fjölmiðlar áttu stóran þátt í að móta og viðhalda ríkjandi orðræðu um velgengni íslensks fjármálalífs.“
Það er ósmekklegt vegna þess að manneskjur og vit þeirra eru ekki samansafn af hlutlægum staðreyndum, og hegðun okkar er ekki rasjónal og meðvituð. Og þetta eiga allir að vita. Vita að maður finnur fyrir þakklæti gagnvart þeim sem gera manni gott, og vita að maður kemur öðruvísi fram gagnvart, og hefur öðruvísi hugsanir gagnvart því sem manni líkar vel og því sem manni líkar illa.
Á sínum tíma kom einn fréttamannanna fram í fjölmiðlum og sagði, líkt og hann væri heilagur maður, að hann myndi ekki láta hluti eins og ókeypis utanlandsferð hafa áhrif á sig og sína umfjöllun. Og að fréttaneytendur vissu að hann fjallaði um staðreyndir máls á hlutlægan máta og út frá almannahagsmunum.
Víkur nú sögunni að fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Fjallað var um WOW air, og fréttamaður var sá sami og sór af sér möguleikann á áhrifum af ferðinni. Fréttamaðurinn hafði með því lofað hinu ómögulega, en honum var þó í sjálfvald sett að setja umfjöllun sína sérstaklega upp svo ekki þyrfti að velkjast í vafa um að fjallað sé um fyrirtækið á eins hlutlægan máta og gerlegt er, eða jafnvel biðjast undan því að fjalla um fyrirtækið.
Svo ég reifi umfjöllunina, sem var rúmar fjórar mínútur, þá hefst hún á hefðbundnu fréttainnslagi þar sem fréttapunkturinn er nýtilkominn hagnaður WOW air. Hún hefst á orðunum „Það höfðu ekki margir trú á Skúla Mogensen þegar hann stofnaði WOW air enda er flugrekstur einn áhættusamasti bransi í heiminum.“ Ég ætla ekki að fjalla um þá umfjöllun, hvað hún er og hvað hún er ekki. Læt duga að segja að ég treysti því ekki að þetta sé góð umfjöllun. En að því loknu kemur ótrúleg orðræða sem sýnir svo ekki verður um villst hvaða hugarfar fréttamaður hefur gagnvart fyrirtækinu og eiganda þess, eða í öllu falli kynnir áhorfendum:
Fréttakynnir: „Já og hjá mér er sestur Þorbjörn Þórðarson. Þessi frétt snýst ekki bara um rekstrarhagnað eða hvað.“
Fréttamaður: „Nei, þessi frétt snýst ekki um hagnað og hún snýst ekkert um WOW air. Hún snýst um sálfræði. Hún snýst um það að hafa sjálfstraust og hafa trú á sjálfum sér, og treysta eigin dómgreind og vera tilbúinn að sigla gegn straumnum þegar enginn hefur trú á þér. Óðinn í Viðskiptablaðinu fannst WOW air galin fjárfesting og vildi að Skúli setti peningana sína í hlutabréfakaup í Icelandair. Og þessi afkoma sannar að höfundurinn hafði rangt fyrir sér.“
Nú gengur svo yfirgengileg afstæðishyggja yfir landið að kannski hefur þetta enga merkingu, en af öllum túlkunum og staðreyndum og bollaleggingum mögulegum til að viðhafa, þá er þetta val fréttamanns svo skýrt merki um velvild og virðingu fyrir fyrirtækinu og eiganda þess að það tekur engu tali. Og þetta er fréttamaður sem ferðaðist með manninum sem hann mærir svo í lest í Washington í hans boði, og birti af honum kumpánlega mynd á Instagram.
Að því loknu talar hann um ferðaþjónustuna sem gullkálf, og kemur á framfæri áhyggjum Skúla Mogensen, hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, yfir að ekki sé hlúð nægilega að ferðaþjónustunni. Hefst svo ofurvinalegt viðtal fréttamanns við Skúla Mogensen. Ég ætla annars ekki að vera með einhvern sparðatíning þegar kemur að umfjölluninni í heild. Til dæmis hvernig fréttamaður telur þess vert að fjalla sérstaklega um að hagnaðurinn væri enn meiri ef fyrirtækið hefði hefði ekki gert (hefðbundna) samninga um eldsneytisverð til að minnka áhættu sína og þess háttar. Það flækir bara málin að óþörfu. Ljóst er að umfjöllunin er ofurhagstæð WOW air og Skúla Mogensen.
Sami fréttamaður skrifaði fyrir tæpum tveimur vikum ágæta grein um ásýnd og traust, þá í samhengi við bankakerfið: „Í bankakerfinu skiptir ekki bara máli hvort menn hafi tekið ákvarðanir í góðri trú með rétta hagsmuni að leiðarljósi. Ásýndin er ekki síður mikilvæg. Það skiptir miklu máli hvernig þessar sömu ákvarðanir „virðast“ vera þegar þær fara undir smásjá almenningsálitsins. Dómur þess er sjaldnast mildur og í augnablikinu hangir hann eins og biturt sverð yfir höfði stjórnenda Landsbankans.“ Þessi orð, heimfærð á fjölmiðla, fanga ákveðinn kjarna í málinu.
Hver einasta setning sögð, hvert einasta umfjöllunarefni, hver einasta spurning í viðtalinu, er einstakt val úr hópi stjarnfræðilega margra möguleika. Hefði umfjöllunin verið öðruvísi ef fréttamaður hefði ekki þegið veglega gjöf frá fyrirtækinu? Við munum aldrei komast að því, en ég velkist í vafa um að hún hefði verið nákvæmlega eins.
Athugasemdir