Gunnar Bragi er fyrirferðarmikill í fjölmiðlum þessa dagana. Hann gagnrýndi aðferðir stjórnarandstöðuna í pistli á heimasíðu sinni og sagði þær andstyggilegar, ólýðræðislegar og einkennast af frekju. Þar vísaði hann í kröfu andstöðunnar um að ríkisstjórnin stæði við eigið loforð um kosningar í haust.
Gunnar Bragi sagði að stjórnarandstaðan hefði hótað því að taka Alþingi í gíslingu. Það er rétt. Ásta Guðrún, þingmaður Pírata, sagði að ekkert mál færi í gegn ef við fáum ekki kjördag þegar þing kemur sama. – Hljómar harkalega, en Ásta Guðrún er þó í fullum rétti.
Ríkisstjórnin hefur nefnilega reynt að nota loforðið til að þess að þvinga stjórnarandstöðuna til undirgefni. Gunnar Bragi hefur til dæmis tengt kosningarnar við búvörusamninginn; ef hann nær ekki í gegn að þá getum við bara gleymt kosningunum.
Skoðum nú loforðið um kosningar í haust. Það var svar ríkisstjórnarinnar við stærstu mótmælum í sögu Íslands. Það var gefið þjóðinni. Það var fullkomlega skilyrðislaust; ekkert hékk á spýtunni. Enginn talaði um að kosningarnar væru háðar búvörusamningnum eða öðrum störfum þingsins. Það kom seinna.
Orðrétt hljóðaði það svo: „Við hyggjumst stefna að því að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust; nákvæm dagsetning veltur á framvindu þingmála.“ Þetta er ekki hægt að skilja nema á einn hátt. Haust.
Gunnar Bragi hefur talað um að dagsetningin sé „vopn“ í höndum stjórnarandstöðunnar. Þannig sér hann fyrir sér að hún gæti tekið þingið í gíslingu með málþófi.
Þetta er rétt hjá Gunnari Braga. Stjórnarandstaðan getur beitt málþófi, en ég þó alls ekki viss um að hún geri það. Hún hefur náð að starfa vel með stjórninni eftir að Sigurður Ingi tók við embætti forsætisráðherra. Er nokkur ástæða til að ætla að það breytist?
Eina vandamálið virðist vera búvörusamningurinn – förum aðeins yfir hann.
Ekkert var talað um þennan 220 milljarða ofursamning fyrir þingkosningarnar 2013. Því má vel setja spurningarmerki við umboðið. Samningnum var smyglað undir radarinn; þingið og hagmunaaðilar fengu ekki að vera með. Samið var til tíu ára. Það bindur hendur næstu tveggja ríkisstjórna. Sérfræðingar tala um glapræði og hagmunaaðilar um risaskref til fortíðar. Og aðeins tólf prósent þjóðarinnar styður samninginn samkvæmt skoðanakönnunum.
Auðvitað mun stjórnarandstaðan mótmæla þessum fordæmalausa átroðningi. Annars væri hún fullkomlega vanhæf.
Gunnar Bragi hefur reyndar boðað breytingar á samningnum. Með þeim hyggst hann ná sátt um málið. Fyrstu drög þessara breytinga komu í gær – lykillinn að sátt, að mati formanns atvinnuveganefndar, er aukið frelsi til þess að flytja inn ost. Það mun bæta upp fyrir allt annað.
Þetta er ótrúlegt vanmat á stöðunni. Ef stjórnvöld vilja raunverulega sátt, þá er aðeins ein leið fær: Hafa samningin til eins árs, semja þá upp á nýtt og bjóða öllum hagsmunaaðilum að samningsborðinu.
Þvergirðingsháttur Gunnars Braga varðandi kosningarnar í haust hefur verið kenndur við leikjafræði. Með því að gefa ekki upp dagsetninguna er hann með einhvers konar tak á stjórnarandstöðunni. – Það er alrangt. Frá sjónarhorni leikjafræðinnar er Gunnar Bragi gjaldþrota.
Annars vegar vill samstarfsflokkurinn kjósa í haust. Bjarni Benediktsson hefur áður látið undan þrýstingi framsóknarmanna um að svíkja loforð um kosningar – það mun hann ekki gera aftur. Hins vegar höfum við starf Alþingis. Svikið loforð myndi jafngilda óstarfhæfu þingi fram í apríl 2017. Hinn kosturinn er augljóslega betri; þolanlegt samstarf fram í október.
Gunnar Bragi ætti að endurskoða afstöðu sína til kosninganna í haust. Ekkert verður unnið með aðferðum sem eru andstyggilegar, ólýðræðislegar og einkennast af frekju.
Athugasemdir