Mamma, bitte! Bitte, mamma, má ég fá kakaó? grátbað sonur minn, sex ára gamall.
Ef þú biður á íslensku, svaraði ég.
En Niccole (leikskólakennarinn) segir að bitte sé töfraorðið, sagði sonur minn með syngjandi þýskum hreim. Ef ég segi bitte fæ ég allt.
Ekki hér, sagði ég og heyrði sjálf hvað ég var leiðinleg. Þú átt að tala íslensku heima hjá þér.
Hvað get ég sagt í staðinn fyrir bitte? spurði sonurinn þá.
Nú kom hik á mig því þýðing orðsins bitte ræðst eftir aðstæðum og hljómi. En það mátti reyna: Þú getur sagt vinsamlegast ... já, eða viltu vera svo væn.
Sonur minn tók andköf af hlátri og stundi leikrænt: Mamma, viltu vera svo væn, má ég fá kakómalt. Vinsamlegast, mamma!
Ég reyndi að brosa en brosið varð ósjálfrátt að grettu. Hann mátti samt ekki heyra að ég heyrði það sem hann heyrði: orðin hljómuðu afkáralega.
Mál móðurinnar
Þó að kauði eigi foreldra sem tala bara íslensku sín á milli, lesi fyrir hann á íslensku á hverju kvöldi og sjái til þess að hann fari samtals í tvo mánuði á ári til Íslands, þá freistar þýskan hans æ meira með hverju árinu sem líður á þýskri grund. Þýskan er leikmálið hans og það heyrist glöggt þegar tvö íslensk börn, búsett í Berlín, hittast því um leið og foreldrarnir fara afsíðis skipta þau yfir í þýsku. Þangað til einhver móðirin galar: Tala íslensku, krakkar!
Auðvitað skiptir móðurmálið móðurina máli. Gagnkvæmur skilningur á hljóðum og táknum sem samanlagt mynda sérstakan hugarheim þeirra sem eiga sér sama móðurmál. En í þessum hópi eiga sum börnin foreldra af tveimur þjóðernum og þá vandast auðvitað (móður)málin og eðlilega er föðurmálið stundum móðurmálið en mörg þeirra tala tvö mál reiprennandi og hið þriðja ágætlega.
Grandaborg bjargaði málunum
Börn eru fljót að læra tungumál en þau þurfa smá stuðning til að tala móðurmálið vel, ef þau læra að tala í umhverfi þar sem flestir aðrir en foreldrarnir tala annað tungumál og þeim er kennt að lesa og skrifa á öðru máli. Íslenska sonar okkar var á tímabili orðin ansi þýskuskotin, þá var hann á fimmta ári og hafði ekki dvalið að ráði á Íslandi síðan hann var tveggja ára. Hann hafði vanið sig á að nota þýsk orð sem honum fundust þægilegri en þau sem móðurmálið bauð upp á. Þannig sagði hann til dæmis: Veistu ob þú vilt koma út, weil mig langar núna.
Sjálfsagt hefur barnseyranu þótt þýsku orðin hljóma eðlilegar en foreldrunum fannst þetta ekki eins eðlilegt og brugðu á það ráð að setja strákinn á leikskólann Grandaborg í Reykjavík í tvo mánuði. Þegar fjölskyldan sneri aftur til Þýskalands talaði hann bæði íslensku og þýsku betur en áður og hélt málunum aðskildum.
Talað eftir tilfinningu
Þó kemur fyrir að stráksi skjóti inn þýsku orði ef honum finnst það hljóma eðlilegar í ákveðnu samhengi. Við tölum tungumál eftir tilfinningunni og ég var hugsi yfir því um daginn í þýðingarverkefni úr ensku yfir á íslensku þegar einhverjum í hópnum fannst það hljóma eðlilegar að nota enska orðið Thanksgiving en þakkargjörðarhátíð. Þarna var um að ræða fólk sem hefur dvalið lengi á enskumælandi svæðum og kannski ekkert skrýtið að því finnist enska heitið hljóma betur en þýðingin á viðburði sem er rótgróinn í bandarískri menningu og nýjung á Íslandi.
„Þegar fyrirtæki nota ensk heiti á Íslandi gefa þau skít í hugmyndaflugið og sköpunina.“
Þakkargjörðarhátíð glamraði í munninum á þeim en ég hafði samt mitt fram og við notuðum íslenska nýyrðið. Öðru máli gegndi um mínimalisma sem á sér nýyrðið naumhyggja. Þá varð ég að láta í minni pokann því hver í andskotanum segir það?! Og það er nokkuð til í því. Mínimalismi er fyrir löngu orðinn gjaldgengt orð sem má skrifa á íslenskan máta.
Háskaflug með tungubrjóti
Tungumál er lifandi vera og til að halda lífinu í íslenskunni er nauðsynlegt að skrifa, lesa og vinna með hana en líka að hafa meðvitund um hvernig við notum málið. Ræða og skiptast á skoðunum um hvað okkur finnst rétt að laga að því og hvernig. Tungumálið hefur alltaf og mun áfram taka breytingum og þetta umbreytingarafl er birtingarmynd tungumáls í stöðugri notkun. En við, sem tölum þetta tiltekna mál, þurfum að laga breytingarnar að innri strúktúr og lögmálum þess því ef tungumálið lagar sig alfarið að breytingunum er hætt við að lögmálin jafnt sem strúktúrinn máist út og verði að engu.
Orðið mínimalismi stendur hvergi í Njálu eða öðrum lífseigum gæðaskruddum en það er hægt að fallbeygja þetta tökuorð og það passar vel í kjaftstæðið á þeim sem talar íslensku daglega. Og það á við fjölmörg önnur orð sem hafa gert sig heimakomin í íslenskunni, raunar er þanþol hennar slíkt að ég get skrifað: Sorrí, þetta var bara stjúpit djókur (en máltilfinningarinnar vegna skrifa ég sorrí með einföldu og stjúpit með t-i).
Öðru máli gegnir um innanlandsflugfélagið Air Iceland Connect sem hljómar svo kjánalega að þegar ég heyrði um nafngiftina var mér skapi næst að feta í spor dýraverndarsinna og hvetja ferðamenn til að ferðast ekki með flugfélaginu því það ógni tungumáli í útrýmingarhættu. Í ofanálag er það tungubrjótur – og hver þorir að fljúga með tungubrjóti?
Dýrmætt tungumál
Stundum má heyra menn spá dauða íslenskunnar og oft er unga fólkinu (með greini) kennt um. En ef íslenskunni er hætta búin er það ekki ungu fólki að kenna heldur samfélagi sem setur ekki nægilegt fé í að hlúa að þessu dýrmæta tungumáli sem aðeins 350.000 manneskjur tala, nú þegar tungumál tækninnar, enskan, læðist aftan að okkur í öllum þessum tækjum sem við getum ekki lengur verið án í nútímalífi. Í þessum veruleika þarf stöðugt að þýða og búa til nýyrði. Og það er okkur, þessum eldri, að kenna ef við nennum ekki að umgangast tungumálið af lágmarks meðvitund og látum hluti bara heita Amazing þetta og Connect hitt.
Hættan er samt ekki fólgin í enskunni sem slíkri, það getur ekki verið annað en gott að tileinka sér fleiri en eitt tungumál. Málið snýst um að nota þau rétt. Mig rámar í að hafa lesið grein í dönsku blaði um rannsókn sem sýndi fram á að þeir sem eru góðir í tveimur eða fleiri tungumálum aðskilja þau en þeir sem tala tungumál illa blanda þeim frekar saman.
Að finna orð
Í síðustu viku hittum við mæðginin frekan afgreiðslumann sem sonur minn hvíslaði að væri Quatschkopf. Ég sagði að hann gæti sagt þetta upphátt á íslensku og þá romsaði hann út úr sér: Hann er rugluhaus, nei, nei, mamma, hann er bullukollur! Pjakkurinn var álíka ánægður að hafa fundið svona fínt orð á íslensku yfir Quatschkopf og Lína Langsokkur þegar hún fann ryðgaða fötu.
Stundum finn ég til vanmáttar þegar hann leiðréttir þýskuna mína og velti fyrir mér hvort það geti haft áhrif á samband okkar. En þegar ég siða hann til á íslensku, hugga og svæfi, verð ég aftur sú sem virðist allt vita. Þegar hann kemur svo til Íslands tífaldast áræðnin í faðmi ættbálksins. Strákurinn verður svo frakkur að hann fer á bak við búðarborð í pylsusjoppum og finnst hann eiga heiminn. Og um leið veit ég af hverju ég læt mig hafa það að vera óþolandi og heimta að hann biðji um kakómalt á íslensku. Því sjálfsmyndin er nátengd móðurmálinu – sem hjálpar honum að skynja og skilja önnur mál. Sama hvar í heiminum hann á eftir að búa, þá býr hann að því. Nú getur hann hlegið að íslensku þegar orðin hljóma skringilega samansett frekar en að hlæja að málinu sem slíku og það er þroskaskref í sjálfu sér. Húmorinn býr jú í blæbrigðum tungumálsins.
Þegar fyrirtæki nota ensk heiti á Íslandi gefa þau skít í hugmyndaflugið og sköpunina sem fylgir því að leika sér með móðurmálið. Og þegar fólk kann ekki að leika sér með móðurmálið er engin furða þótt enskan þess hljómi hjákátlega.
Athugasemdir