Fimm karla dómnefnd sem skipuð var til að meta hæfni þriggja umsækjenda um embætti hæstaréttardómara hefur gefið út það álit að karlinn Karl sé hæfastur þrátt fyrir að hafa minnstu reynsluna af dómarastörfum, meðal annars minni reynslu en eina konan í hópi umsækjenda. Við leikmennirnir sem ekki höfum aðgang að öllum umsóknargögnum eða til þess bæra fagþekkingu að meta hæfni hæstaréttardómara erum svo ekki endilega í aðstöðu til að leggja mat á úrskurð þessarar dómnefndar. Hins vegar höfum við ýmislegt í höndunum sem bendir til þess að óeðlilegt sé að láta dómnefnd skipaða fimm körlum um mat sem þetta, jafnvel þótt svo kunni að vera að þeir hafi rambað á góða niðurstöðu í þessu tiltekna tilfelli (hér geng ég út frá að við vitum ekki hvort svo er).
Í frétt á visir.is var Gunnlaugur Claessen, formaður dómnefndarinnar, spurður „hvort hann teldi nefndina hafi verið óvilhalla í mati sínu á umsækjendum“. Gunnlaugur svaraði: „Já, ég held að þessi nefnd, sem er skipuð körlum, geti gert það og hafi gert það.“
Nú er ekkert erfitt að trúa því að Gunnlaugur haldi að nefndin hafi verið óvilhöll. Það er óþarfi að ætla körlunum fimm annað en að þeir hafi hagað mati sínu eftir bestu vitund og ekki verið vísvitandi vilhallir með ósanngjörnum hætti. Öðru máli gegnir hins vegar um það hvort nefndin geti þetta í raun og veru og hafi gert það í raun. Hér kemur þrennt til:
1) Nauðsynlegt er að minna á svokallaða undirliggjandi hlutdrægni (e. implicit bias) sem mikið hefur verið til rannsóknar á undanförnum árum. Í stuttu máli snýst málið um að ekki nema brot af þeim fordómum og hlutdrægni sem við höfum kemur upp á yfirborðið og með vísvitandi hætti. Í samfélagi sem er byggt á aldalangri hefð mismununar af einhverju tagi býr fólk yfir rótgrónum hugmyndum um hina ýmsu hópa samfélagsins og hegðar sér í samræmi við þær, oftast fullkomlega ómeðvitað. Þetta þýðir að jafnvel fólk sem er fullt af góðum vilja og ríkri réttlætiskennd býr líka yfir undirliggjandi fordómum og getur gerst sekt um ýmiss konar mismunun án þess að hafa nokkurn tímann ætlað sér það, meðal annars í dómnefndarálitum og stöðuveitingum. Þetta hefur komið fram í fjölda rannsókna. Af nógu er að taka en hér er einn dropi úr hafsjónum. Annars mæli ég með að fólk kynni sér þetta rannsóknarverkefni hér á vegum Harvard-háskóla þar sem hægt er að taka sjálfspróf í undirliggjandi fordómum gagnvart hinum ýmsu samfélagshópum og nálgast ýmiss konar fróðleik.
„Ekki nema brot af þeim fordómum og hlutdrægni sem við höfum kemur upp á yfirborðið og með vísvitandi hætti.“
2) Erfiðasta úrlausnarefnið varðandi undirliggjandi hlutdrægni er að finna leiðir til að bæta úr henni því að það virðist ekki með nokkru móti hjálpa að ætla sér bara að hætta að vera hlutdrægur. Ef eitthvað er þá gerir það illt verra að hafa mikla trú á eigin getu til þess að vera óhlutdrægur. Þannig má nefna rannsókn Uhlmanns og Cohen frá 2007 sem sýndi að fólki sem upplifði sjálft sig sem óhlutdrægt var hættara en öðru við að beita mismunun því að það var síður líklegt til að vera gagnrýnið á eigin hugmyndir.
3) Enn annað sem nefna má hér er að við eigum mörg nokkuð gott með að koma auga á hlutdrægni þegar aðrir gerast sekir um hana en erum á sama tíma fullkomlega ófær um að sjá hana í eigin ranni. Sálfræðingar hafa talað um „blindan blett“ í þessu sambandi, við upplifum okkur sjálf einfaldlega allt öðruvísi en aðra og erum ekki gagnrýnin á eigin hlutdrægni á sama hátt og við erum gagnrýnin á hlutdrægni annarra; jafnvel þannig að við erum alveg ófær um að nema hana. Fólk trúir því jafnvel í fullri einlægni að það sjálft sé ólíklegra en aðrir til að gerast sekt um hlutdrægni og þannig er vitnisburður fólks sem horfir „inn á við“ til að leggja mat á getu sína til að vera óhlutdrægt fullkomlega ómarktækur, til dæmis þegar dómarar segjast alveg treysta sér til að fjalla með óhlutdrægum hætti um mál vina sinna eins og í dæminu sem þau Pronin og Kugler nefna í þessari rannsókn.
Með öðrum orðum þá er Gunnlaugur Claessen ekki áreiðanlegt vitni um getu dómnefndarinnar til að vera óvilhöll, jafnvel þótt hann hafi svarað í fullri einlægni um hvað hann haldi.
Athugasemdir