Ríkisstofnunin Sjúkratryggingar Íslands virðist hafa sín eigin pólitísku markmið þó þetta sé ekki hluti af lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. Pólitísk markmið Sjúkratrygginga Íslands lýsa sér í tilraunum til þess að ganga erinda einkafyrirtækja sem starfa á heilbrigðissviði gagnvart ráðuneyti heilbrigðismála með það fyrir augum auka viðskipti þessara fyrirtækja.
Í lögum um starfsemi stofnunarinnar er ekki kveðið á um að hún hafi lagalegt hlutverk sem felst í frumkvæðisstarfi á sviði heilbrigðismála. Í raun snýst lagalegt hlutverk stofnunarinnar bara um framfylgd laga og reglna sem aðrir hafa sett, meðal annars alþingi og ráðherra heilbrigðismála. Í fimmtu grein laga um starfsemi sjúkratrygginga segir meðal annars: „Sjúkratryggingastofnunin annast framkvæmd sjúkratrygginga og semur um og greiðir endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum í samræmi við stefnumörkun ráðherra á hverjum tíma.“
„Þetta eru stórar pólitískar spurningar og það er ekki Sjúkratrygginga Íslands að svara þeim“
Stundin greindi frá því í síðustu viku að Sjúkratryggingar Íslands hefðu sent erindi til velferðarráðuneytis Kristjáns Þórs Júlíussonar í október síðastliðnum vegna einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins Klíníkurinnar. Fyrirtækið vill bjóða upp á brjóstaskurðaaðgerðir á krabbameinssjúkum konum sem eru sjúkratryggðar á Íslandi og eins fyrirbyggjandi aðgerðir á konum sem er arfberar fyrir tvær stökkbreytingar BRACI og BRACII sem orsakað geta brjóstakrabbamein.
Erindi Sjúkratrygginga byggði á því að Klíníkin hafði sett sig í samband við stofnunina vegna áhuga þess á að geta gert umræddar brjóstaskurðaðgerðir með kostnaðarþátttöku íslenska ríkisins. Stofnunin sendi svo erindi til ráðuneytisins á grundvelli upplýsinga frá Klíníkinni eins og sagði í svari frá ráðuneytinu til Stundarinnar: „Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sendu velferðarráðuneytinu minnisblað, dags. 30. október 2015, þar sem fram kom að forsvarsmenn Klíníkurinnar í Ármúla hefðu leitað til SÍ vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem undirgangast aðgerðir og önnur læknisverk og myndgreiningu í brjóstamiðstöð Klíníkurinnar. Í minnisblaðinu gerðu Sjúkratryggingar grein fyrir þeirri þjónustu sem Klínikin áformaði að veita og þar voru einnig veittar upplýsingar um kostnaðarliði einstakra verka/aðgerða í ferlinu.“
Burtséð frá því að það er sannarlega ekki hlutverk Sjúkratrygginga Íslands að vinna frumkvæðisvinnu fyrir tiltekin einkarekin heilbrigðisfyrirtæki og setja þrýsting á ráðuneyti heilbrigðismála í tilteknum viðskiptum þá er Kristján Þór Júlíusson búinn að segja Klíníkinni frá því af hverju henni telur ekki æskilegt að brjóstaskurðaðgerðir verði framkvæmdar annars staðar en á Landspítalanum. Kristján Þór gerði þetta með bréfi fyrir einu og hálfu ári síðan þegar Klíníkin sótti fyrst um að fá að gera slíkar aðgerðir með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.
Í synjun Kristjáns Þórs kom fram, líkt og hann sagði við Stundina í fyrra að brjóstaskurðaðgerðir fælu í sér það mikið inngrip að það væri æskilegast að slíkar aðgerðir væru gerðar á sjúkrahúsi vegna gæða- og öryggissjónarmiða: „Við teljum að allar flóknari og þyngri aðgerðir eigi að vera í miðlægri stofnun. Við fólum Landspítalanum, í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands, að vinna í þessum málum. […] Við verðum að hafa tryggingu fyrir því að flóknar og þungar aðgerðir þar sem miklar kröfur eru gerðar um öryggi og gæði séu gerðar í miðlægri stofnun.“
Sjúkartryggingar Íslands halda hins vegar áfram að reyna að fá heilbrigðisráðuneytið til að samþykkja að Klíníkin fái að gera þessar aðgerðir þrátt fyrir að þetta svar Kristjáns Þórs liggi fyrir og að það hafi ekkert breyst eins og segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar: „Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að Landspítali skuli annast klínískar skoðanir kvenna með einkenni frá brjóstum og sinna meðferð kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein stendur óhögguð og afstaða ráðherra hefur ekki breyst.“ Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, vildi hins vegar meina að forsendurnar fyrir synjun Kristjáns Þórs Júlíussonar á beiðni Klíníkurinnar hefði breyst. „Þetta svar [frá Kristjáni Þór árið 2014] liggur fyrir og það byggir á ákveðnum forsendum en það er spurning hvort einhverjar breytingar hafa orðið.“
Af hverju er ríkisstofnun, sem er ekki pólitísk að lögum, að setja slíka pressu á ráðuneyti fyrir einkafyrirtæki úti í bæ? Pressu sem hefði þær pólitísku afleiðingar í för með sér að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu yrði aukin á kostnað Landspítalans? Þetta er einkennileg togstreita á milli einnar ríkistofnunar, Sjúkratrygginga Íslands, og annarar, Landspítala-háskólasjúkrahúss. Sjúkratryggingar Íslands setja pólitíska pressu á ráðuneytið sem leitt getur til þess að fjárveitingar til Landspítalans vegna þessara tilteknu aðgerða verði skornar niður með tíð og tíma sem aftur getur leitt til færri stöðugilda sérfræðinga sem gera þessar aðgerðir. Í stuttu máli: Einkarekið heilbrigðisfyrirtæki út í bæ styrkist en Landspítalinn veikist, bæði fjárhagslega og eins með tilliti til mannauðar vegna þess að flæði fjármagns og fjöldi starfsfólks helst í hendur.
Heilbrigðisráðuneytið neitar að láta Stundina fá afrit af erindi Sjúkratrygginga Íslands til Stundarinnar og vísar til upplýsingalaga. „Varðandi beiðni Stundarinnar um að fá afrit af erindi SÍ til ráðuneytisins varðandi Klínikina telur ráðuneytið sér ekki fært að verða við því vegna rekstrarlegra upplýsinga sem þar koma fram. Byggist sú afstaða ráðuneytisins á eftirfarandi 9. gr. upplýsingalaga.“ Þess vegna er ekki hægt að greina frá þeim forsendum sem erindi Sjúkratrygginga Íslands út af umsókn Klíníkurinnar til heilbrigðisráðuneytisins byggist á.
Út frá þeim svörum ráðuneytisins sem þó liggja fyrir virðist sem hluti rökstuðningsins fyrir því að Klíníkin ætti að fá að gera slíka aðgerðir með kostnaðarþáttöku ríkisins sé hagræns eðlis, það er að segja að hugsanlega sé jafn hagstætt eða hagstæðara að gera slíkar aðgerðir utan Landspítalans. Slíkur samanburður á kostnaði við slíkar aðgerðir á ríkisreknum stofnunum og hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum er þó einungis bara hluti af þeim forsendum sem skipta máli þegar metið er hvort leyfa eigi einkafyrirtækjum að taka við aðgerðum og verkum sem hingað til hafa eingöngu verið unnin á Landspítalanum.
Ef eingöngu væri horft á kostnaðartölur þá væri fræðilega og mögulega hægt að sýna fram á að það væri óhagkvæmt að reka ýmsa þá þjónustu sem Landspítalinn veitir vegna þess að það væri hagstæðara að útvista henni til einkaðila. Smám saman, með hverri rekstrarflís sem væri flysjuð innan úr starfsemi Landspítalans og færð til einkafyrirtækja, myndi Landspítalinn veikjast og veikjast enn meira þar til kannski fáar rekstrareiningar og aðgerðaform væru eftir innan hans. Þetta þýðir lægri fjárveitingar, færra starfsfólk: Veikara sjúkrahús í rekstrarlegum og þjónustulegum skilningi.
Þess vegna þarf að horfa á málið í stærra samhengi. Spurningin sem þarf alltaf að velta upp er stór: Vilja Íslendingar eiga og reka Landspítala, þjóðarsjúkrahús, eða vilja þeir það ekki? Vilja Íslendingar að einstaka einkarekin heilbrigðisfyrirtæki taki við þeirri þjónustu sem Landspítalinn veitir? Þetta eru stórar pólitískar spurningar og það er ekki Sjúkratrygginga Íslands að svara þeim.
Vega og meta þarf hverja hugmynd sem snýst um að að flytja þjónustu frá Landspítalanum og til einkafyrirtækja með tilliti til þessarar stóru spurningar. Ekki er bara hægt að segja: Aðgerðarform X kostar Y á Landspítalanum en P hjá einkareknu heilbrigðisfyrirtæki; þar sem P er minna Y er þess vegna æskilegt að einkarekna fyrirtækið geri aðgerðirnar vegna þess að það kostar minna. Landspítalinn veikist alltaf sem heild ef rekstur og þjónusta er flutt frá honum og til einkaðila.
Sagan um tilraunir Klíníkurinnar til að fá að gera brjóstaskurðaaðgerðir á konum sem eru sjúkratryggðar á Íslandi er bara ein slík saga. Og hún skiptir máli í stóra samhengi hlutanna þegar eftirfarandi spurning er metin: Hvernig þjóðarsjúkrahús vilja Íslendingar til framtíðar?
Athugasemdir