„Sagan endurtekur sig kannski ekki en hún rímar,“ er stundum haft eftir Mark Twain. Góðærið nú virðist við fyrstu sýn ólíkt því síðasta sem lauk með hruninu árið 2008. Lítið fer fyrir íburðarmiklum auðmönnum sem spranga um eins og óskilgetin afkvæmi trekants milli páfugls, galtar og Lúðvíks 14. með fötu fulla af djúpsteiktum gullgæsarvængjum undir World Class þöndum handleggjum, trufflu-tómatsósu út á kinn og Chateau Margaux í pappaglasi sem þeir skvetta í sig af jafnmikilli virðingu og baðvatni á meðan þeir velta sér eins og svín upp úr forarpytti upp úr eigin yfirburðum sem þeir standa fast á að hafi komið beint frá almættinu. En þótt áður óþekkt hógværð virðist einkenna góðæri hið nýja eru teikn á lofti sem benda til þess að svo sé aðeins á yfirborðinu.
Í mars árið 2006 sendi Danske Bank frá sér skýrslu þar sem dregin var upp svört mynd af íslensku efnahagslífi og spáði bankinn kreppu á komandi misserum. Eins og alræmt er orðið varð allt brjálað. Upphófst rógsherferð sem beindist að skýrslunni, Danske Bank og jafnvel Dönum sjálfum. Fyrirsagnir í boði greiningardeilda íslensku bankanna og hagfræðinga fylltu síður blaðanna: „Umhugsunarvert hvað bankanum gengur til“ - „Uppfyllir ekki kröfur um fagleg vinnubrögð“ - „Rætnar vangaveltur“. Ekki leið á löngu uns íslenskir stjórnmálamenn blönduðu sér í málið. „[M]aður veltir fyrir sér hvort það séu samkeppnissjónarmið sem ráða þeirri för eða hvort sjálfsímynd Dana hafi eitthvað rispast eftir að Íslendingar fóru að fjárfesta í stórum stíl í Danmörku,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra.
Í síðasta góðæri var eins og þegjandi samkomulag ríkti með þjóðinni: Aðgát skal höfð í nærværu peninga. Allir áttu að tipla á tánum kringum peninga líkt og þeir væru viðkvæmt blóm sem ekki þyldi tramp – eða sofandi ófreskja sem ekki mætti vekja. Við vorum öll á sama báti, góðærisbáti, og honum skyldi enginn rugga með óábyrgu tali, óæskilegri hegðun eins og að segja sannleikann, nota skynsemina eða benda á það þegar keisarinn var nakinn. Og helsti ógnvaldur góðærisins voru orð.
„Styggjum ekki markaðina, styggjum ekki túristana, styggjum ekki peningana.“
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 greindi Vilhjálmur Bjarnason, þá lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, frá því að sér hefði borist, eftir persónulegum leiðum, hótun frá Kaupþingi um að styrkur bankans til viðskiptafræðideildar H.Í. yrði dreginn til baka ef hann yrði þar áfram við störf og léti ekki af gagnrýni sinni.
Í síðasta mánuði samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að sniðganga í innkaupum sínum vörur frá Ísrael. Samstundis reis upp gamalkunn krafa um að sýna peningunum aðgát. „Skaðinn er skeður,“ voru skilaboðin sem bárust frá samtökum ferðaþjónustunnar þótt fljótt lægi fyrir að borgin hygðist draga samþykktina til baka. „Sterkir hagsmunir,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, og vísaði í peninga í kvikmyndabransanum. „Núna þurfum við bara að standa saman um það að lágmarka þann skaða sem orðinn er.“ En skýrust voru skilaboðin komu frá bankastjóra Arion banka sem sendi borgarstjóra sjálfum óheflað bréf þar sem hann hótaði því að orðagjálfur um mannréttindi myndi hræða peningana burt úr landinu. „Ákaflega óheppilegt og hygg ég að sambærilegt berist okkur í bankanum úr öðrum áttum vegna annarra verkefna.“
Styggjum ekki markaðina, styggjum ekki túristana, styggjum ekki peningana. Sagan endurtekur sig kannski ekki en að þessu sinni virðist hún svo sannarlega ríma.
Pistill Sifjar Sigmarsdóttur er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir