Nú er tækifæri til að ákveða hvernig samfélag við viljum skapa, því á næstu mánuðum höfum við í hendi okkar hvernig valdi verður úthlutað og hvaða öfl eru ráðandi í samfélaginu. Kosningar eru framundan og okkar er valið.
Áður en til alþingiskosninga kemur næsta vetur, munum við kjósa næsta forseta Íslands. Jafnvel þar þurfum við að taka afstöðu til þess hvernig við viljum að valdi sé dreift á Íslandi. Við stöndum frammi fyrir því að einn forsetaframbjóðandinn hefur ekki aðeins verið lykilmaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins um áratugaskeið heldur ritstýrir hann einnig mest sóttu vefsíðu landsins og einu stærsta dagblaðinu, í umboði útgerðarinnar, stærsta hagsmunaaðila þjóðarinnar þegar kemur að auðlindum hennar.
Framundan eru breytingar á stjórnarskrá Íslands. Í tillögum sem stjórnlagaráð skilaði af sér og almenningur tók afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu átti meðal annars að tryggja auðlindir í almannaeign - og færa vald frá forseta yfir til þjóðarinnar. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var afgerandi og vilji þjóðarinnar skýr. Þrátt fyrir það hafa þeir flokkar sem nú eru við völd - og þessi forsetaframbjóðandi tilheyrir öðrum þeirra - ekki enn raungert breytingar á stjórnarskránni.
„Davíð Oddsson segist ekki hafa neinn sérstakan metnað til að verða forseti en það var ekki að ástæðulausu sem hann fór í forsetaframboð.“
Davíð Oddsson segist ekki hafa neinn sérstakan metnað til að verða forseti en það var ekki að ástæðulausu sem hann fór í forsetaframboð.
Hann lofaði að gefa bæði bíl og afsala sér launum nái hann kjöri, en hann getur það vegna þess að hann nýtur góðs af því að þegar hann var forsætisráðherra voru innleidd rífleg eftirlaun fyrir ráðamenn, lög sem voru afar umdeild og afnumin síðar.
Alveg eins og það er ástæða fyrir því að útgerðin niðurgreiðir taprekstur Morgunblaðsins með hlutafé, veitir stjórnarflokkunum tveimur 90 prósent af styrkveitingum sínum til stjórnmálaflokka og styrkir sjálfstæðismenn í prófkjörum.
Ritstjórinn
Sjálfur hefur Davíð lýst því yfir að hann vilji nota embættið til að beita sér innanlands, um leið og hann hefur talað gegn þeirri vinnu sem fór hér fram í kjölfar efnahagshrunsins, uppgjörinu við hrunið, nýrri stjórnarskrá og aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Hann vill að fólk hætti að tjá reiði sína og vonbrigði með mótmælum en fylgi forystu hans, sameinuð á ný. „Menn verða að hætta að tala þjóðina niður“ segir hann og beinir orðunum meðal annars að mótframbjóðanda sínum. Sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að fáir hafa gengið jafn langt í að tala fólk niður eins og hann, sem getur ekki einu sinni nefnt fólk því nafni sem það notar sjálft og talar aldrei öðruvísi um Jón Gnarr en sem Jón Gunnar Kristinsson og Guðna Th. sem Guðna Jóhannesson. Í Reykjavíkurbréfum Morgunblaðsins eru andstæðingar hans uppnefndir og ráðist að minnihlutahópum. Kvenkynsleiðtoga var líkt við gluggaskraut og talað um forseta Bandaríkjanna sem múlatta.
Samkvæmt siðareglum ber blaðamönnum að varast hagsmunaárekstur. Áður en Davíð kynnti framboðið notaði hann eigin miðil til að gera lítið úr öðrum frambjóðendum í nafnlausum leiðara, og birti langa lofgjörð um sjálfan sig eftir einn nánasta vin sinn og samherja.
Daginn sem Davíð fór fram var hann enn starfandi ritstjóri og í viðtali við mbl.is, þar sem hann sagðist vera á leið í leyfi en vildi ekki gefa upp hvort hann væri alfarinn yrði hann forseti. „Ég ákveð það þegar og ef væri.“
Hagsmunirnir
Morgunblaðið fjallar með reglubundnum hætti um forsetakosningarnar, sýndi beint frá opnun kosningamiðstöðvar ritstjórans og skrifaði leiðara til stuðnings honum. Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna vinnur ekki aðeins að framboði Davíðs heldur er einnig blaðamaður á Morgunblaðinu, þar sem hún gekk á milli starfsfólks og safnaði undirskriftum til stuðnings ritstjóranum. Bent er á það í rannsóknarskýrslu Alþingis hversu útbreiddur vandi sjálfsritskoðun er í íslensku samfélagi, meðal annars vegna þess hve fá tækifæri eru á fjölmiðlamarkaði.
Þar var einnig rætt um þá stöðu sem kemur upp þegar stórleikarar í aðdraganda efnahagshrunsins eru jafnframt áhrifamenn í fjölmiðlaheiminum. Þegar hann var í viðtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni voru það sameiginlegir hagsmunir þeirra að skrifa sig fram hjá sögunni, en báðir koma ítarlega við sögu í rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem segir meðal annars:
„Formenn Samtaka blaða- og fréttamanna á Norðurlöndum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þróunar fjölmiðla á Íslandi og segja vegið að rit- og tjáningarfrelsi hérlendis.“
„Ráðning Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra, sem ritstjóra Morgunblaðsins og uppsögn margra reyndra blaðamanna þar sýnir hvernig eigendur fjölmiðla geta ráðskast með fjölmiðla ef þeim sýnist svo. Markmið þeirra virðist vera að ástunda skoðanafjölmiðlun og verja sérhagsmuni fremur en að tryggja faglega og sanngjarna umfjöllun. Formenn Samtaka blaða- og fréttamanna á Norðurlöndum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þróunar fjölmiðla á Íslandi og segja vegið að rit- og tjáningarfrelsi hérlendis.“
Á örskömmum tíma fór Ísland frá því að vera í efstu sætum á lista yfir frelsi fjölmiðla í alþjóðlegum samanburði og hrundi niður í nítjánda sætið, eitt Norðurlandanna sem ekki er á topp tíu listanum.
Leiðtoginn
Til að sannfæra okkur um að kjósa hann notar Davíð áróðurstækni þar sem alið er á ótta, búin er til goðsögn af honum sem sterkum leiðtoga og grafið er undan öðrum frambjóðendum. Samherjar Davíðs í Sjálfstæðisflokknum vinna nú að framboðinu, þar sem búið er að skipa hóp sjálfboðaliða, sem á meðal annars að beita sér á samfélagsmiðlum til að bæta ímynd Davíðs sem hins hressa, skemmtilega og sterka leiðtoga.
Í sama anda varaði Davíð við hættu um leið og hann bauð sig fram og stillti sjálfum sér upp sem lausninni, hinum sterka leiðtoga sem gæti bjargað þjóðinni á ögurstundu, eins og slökkviliðsmaðurinn sem fer inn í brennanndi hús. Seinna líkti hann sér við farsælasta fótboltamann landsins, þann sem alltaf er hægt að treysta til að taka réttar ákvarðanir inni á vellinum og koma boltanum í markið, nú þegar Íslendingar bíða spenntir eftir EM. Þetta er maður sem kann að sannfæra fólk, enda hefur hann aldrei tapað kosningum.
Sama hversu skemmtilegur hann kann að vera er raunveruleikinn sá að síðast þegar hann var í hlutverki leiðtogans tók hann sér vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir án þess að fylgja eðlilegu ferli og fara í gegnum nauðsynlega umræðu. Þannig lentum við til dæmis á lista hinna viljugu þjóða fyrir Íraksstríðið. Nú vill hann opna Bessastaði en varar við múslimum sem flýja upplausnarástand og ógnarstjórn. Undir hans stjórn voru reglur beygðar til að koma Kárahnjúkavirkjun í framkvæmd, Þjóðhagsstofnun lögð niður og einkavæðing bankanna gerð pólitísk og gölluð.
Uppgjörið
Rannsóknarskýrsla Alþingis var áfellisdómur yfir störfum hans, þar sem hann er meðal annars sagður hafa sýnt af sér vanrækslu á vaktinni sem seðlabankastjóri þegar Icesavemálið kom upp, sem og endurreisnarskýrsla Sjálfstæðisflokksins.
Tilraun flokksins til að gera þetta upp lauk á landsfundi árið 2009, þegar Davíð steig í pontu og sagði að endurreisnarskýrslan sem meirihlutinn hafði þegar samþykkt væri „hrákasmíð“, illa samin, full af rangfærslum og sóun á trjám.
Samt heldur hann því fram, enn í dag, að Seðlabankinn hafi einn staðið vaktina og svarar því til að hagfræðiprófessorar sem segja að Seðlabankinn hafi orðið tæknilega gjaldþrota séu „mestu vitleysingarnir“. Þegar hann hrökklaðist úr Seðlabankanum hafi það aðeins verið hefnd vinstrimanna vegna þess hvað hann hefði verið sigursæll.
„Hann var valinn versti seðlabankastjóri Evrópu af sænska dagblaðinu Dagens Nyheder í mars 2009.“
Davíð á enn eftir að gera upp þátt sinn í aðdraganda efnahagshrunsins, þar sem hann var við völd sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri, á tíma sem bankarnir voru einkavæddir, viðskiptalífinu var veitt aukið frelsi og stærð bankanna margfaldaðist á skömmum tíma þar til þeir að lokum féllu. Á þeim tíma talaði Davíð sjálfur gegn hertu eftirliti, fór ítrekað á svig við reglur, var sakaður um hótanir og ofríki, og lenti að lokum á lista tímaritsins Time yfir þá 25 einstaklinga sem taldir voru bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu auk þess sem hann var valinn versti seðlabankastjóri Evrópu af sænska dagblaðinu Dagens Nyheder í mars 2009.
Davíð vill leiða okkur til samstöðu um að læra ekki af sögunni. Það kann að vera honum í hag, en höfum við þörf fyrir það?
Athugasemdir