Fyrir nokkrum árum lifðum við í hugmyndaheimi þeirra sem búa yfir margfalt meiri auðæfum en venjulegt fólk. Kenningar þeirra voru að við ættum sem minnst að stýra því hvernig samfélagið þróaðist, að við ættum að búa í efnahagskerfi byggðu á nýfrjálshyggju sem væri fremur eins og frumskógur en garður.
Við áttum að hætta að rækta, reka garðyrkjumanninn og leyfa stærstu rándýrunum að taka stjórnina.
Niðurstaðan var að moldríkur minnihluti nýtti sér aðstöðumun sinn til að fá skuldbindingalaus lán, kaupa upp landið, auðlindirnar og fyrirtækin, taka yfir fjölmiðlana og umræðuna, lækka skattgreiðslur, fela slóðina og þegar allt um þraut fá lán sín afskrifuð.
Þessi minnihluti er að mestu leyti aftur ríkjandi í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum á Íslandi.
Samsektin
Eftir að Panama-skjölin leiddu í ljós að stór hluti efsta lags samfélagsins sótti í að losna við að borga skatta á Íslandi og ná fram leynd um viðskipti sín með því að stofna skúffufélög í frumskógarlöndum, hefur þessi hópur öðlast sameiginlega hagsmuni.
Nú hafa þau sameiginlegan hag af því að réttlæta eitthvað sem er skaðlegt heildarhagsmunum. Og áhrif þeirra teygja sig þvert yfir fjölmiðla, stjórnmál og viðskipti. Samsektin skapar sameiginlega hagsmuni, þvert á efsta lag samfélagsins, að standa gegn umbótaöflum og standa með ríkjandi ríkisstjórn.
Um leið er tvöföld kosningabarátta byrjuð. Meginefni þjóðmálaumræðunnar á næstu mánuðum mun snúast um að vara við breytingum. Takmarkið er að fullvissa okkur um að okkur stafi ógn af því að einhverjir aðrir taki ákvarðanir fyrir okkar hönd en þeir sem stýra núna.
Þetta er strax farið að virka. Ólafur Ragnar Grímsson mælist með stuðning meirihluta almennings fyrir forsetakosningarnar og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bæta við sig fylgi í skoðanakönnunum vegna alþingiskosninga.
Hvatinn til að standa gegn umbótum
Vandamálið er það að eftir því sem fólk ver lengri tíma í áhrifastöðum verða hagsmunir þess samofnari sérhagsmunum þeirra hæst settu í samfélaginu og lenda þar af leiðandi í ákveðinni andstöðu við almannahagsmuni.
Þar sem ríkjandi valdhafar hafa gjarnan verið þátttakendur í því sem fór afvega byrja þeir oft að réttlæta það sem er skaðlegt og viðhalda þannig skaðanum.
Dæmi um þetta er atferli forseta Íslands eftir hrun. Þótt rannsóknarnefnd Alþingis hefði komist að þeirri niðurstöðu að setja þyrfti forsetanum siðareglur, eins og ríkisstjórninni, stóð Ólafur Ragnar Grímsson gegn því. Nefndin komst líka að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til að skýra betur hlutverk forseta Íslands, en Ólafur stóð líka gegn því.
Á Íslandi bætist ofan á að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna og foreldrar þeirra hafa stundað skattaskjólsviðskipti á laun, og eiginkona forsetans einnig.
Það segir sig sjálft að sá sem er birtingarmynd vandamálsins sem þarf að leysa á erfitt að standa fyrir umbótum á því.
Hvatinn til að grafa undan siðferði
Sigurður Ingi Jóhannsson, sitjandi forsætisráðherra, tók að sér að grafa undan almennu siðferði með því að réttlæta að stjórnmálamenn feldu leynilega hagsmuni sína í skattaskjólum og kvarta undan því hversu erfitt er að eiga peninga á Íslandi. Að hans mati eiga landsmenn ekki heimtingu á að vita af stórvægilegum hagsmunum forsætisráðherra í mikilvægum ákvarðanatökum, jafnvel þótt nánast allir aðrir landsmenn hafi sitt uppi á borðum og borgi sína skatta. Ástæðan fyrir þessu er að hann, með flokki sínum, hefur verið þátttakandi í því sem var að og hefur því hag af því að grafa undan umbótum.
Allt í kringum okkur eiga svipaðir atburðir sér stað, bara í mismunandi mynd: Menn í sterkum stöðum standa gegn umbótum til að verja stöður sínar. Risaeðlurnar eru úti um allt.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður líkti fréttafólki Kastljóss Ríkissjónvarpsins við Adolf Hitler vegna þess að þau tóku þátt í að afhjúpa hvaða fólk í áhrifastöðum hefði stofnað leynifyrirtæki í skattaskjólum, þótt aflétting leyndar og afnám skattaflótta séu augljóst hagsmunamál almennings.
Sigurður Einarsson, sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsisvist fyrir markaðsmisnotkun, er laus eftir eitt ár og hótaði að berja fólk sem kom að sumarbústaðnum sem hann á ekki, því ef hann hefði átt hann hefði hann verið tekinn upp í skuldir vegna rúmlega 250 milljarða króna gjaldþrots hans.
64 milljarðar voru afskrifaðir af skuldum vegna viðskipta Ólafs Ólafssonar árið 2011. Ólafur, sem var dæmdur með Sigurði, var með honum í sumarbústaðnum. Saman hafa þeir reynt að breyta skilgreiningu samfélagsins á því sem er rétt og rangt. Það sem er rangt er að þeirra mati að treysta á dómskerfið, ekki að stunda milljarða króna markaðsmisnotkun. Þeir eru snúnir aftur og skilaboðin eru að viðurlögin séu röng, frekar en glæpurinn.
Stöðukvíði stjórnenda
Stöðukvíðinn er sammannlegur hægra megin og vinstra megin í stjórnmálum. Það er algengt að fólk fórni hagsmunum annarra til að halda eigin yfirburðarstöðu.
Árni Páll Árnason vill ekki hætta sem formaður Samfylkingarinnar. Flokkur hans mældist með tæplega 16 prósenta fylgi þegar Árni Páll náði að halda sér í formannsstólnum með eins atkvæðis mun í fyrra. Það sem hefur breyst síðan þá er að einn fjórði af fylginu hvarf í næstu mælingu á eftir. Nú er fylgið undir 10 prósentum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem slíkt gerist, því fylgið féll um þriðjung innan tveggja mánaða frá því hann var fyrst kjörinn formaður 2013.
Uppfært: Árni Páll hefur nú hætt við formannsframboð.
Við lifum af að missa Bjarna Benediktsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Ólaf Ragnar Grímsson og Árna Pál Árnason úr stöðunum sem þeir gegna.
Við þurfum ekki heldur að láta Davíð Oddsson ritstýra blöðum. Við eigum fullt af góðu og hæfu, óháðu fólki sem getur stýrt miðlun upplýsinga.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor fékk 10 milljónir króna af peningum almennings frá Bjarna Benediktssyni fyrir að rannsaka orsakir efnahagshrunsins. Við þurfum ekki á honum að halda. Aðrir óháðari fræðimenn geta gert þetta, sem eru ekki augljóslega búnir að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram.
Nýjasta grein Hannesar í blaðinu sem Davíð stýrir, um mikilfengleika Davíðs, einkennir foringjadýrkunina sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa.
Þörf okkar fyrir áframhaldandi stjórnun auðugra karlmanna í áhrifastöðum er stórlega ofmetin. Skaðinn af þrásetu þeirra er hins vegar vanmetinn.
Ruðningsáhrif risaeðlna
Risaeðlur hafa ruðningsáhrif. Þær koma í veg fyrir að aðrir nýti möguleika sína. Eftir að risaeðlurnar dóu út fyrir um 65 milljónum ára, líklega eftir að lofsteinn féll skammt frá skattaskjólum Mið-Ameríku, tók við mesta blómaskeið í lífssögu jarðarinnar sem markaði upprisu spendýranna og var þar af leiðandi forsenda tilvistar okkar.
Lífið er breyting. Ef tilgangur lífsins er hamingja, og tilgangur stjórnskipunar þá hámarkshamingja sem flestra, felst sjálfgefið mikilvægi í því að tryggja að æðstu stjórnendur samfélagsins og mótendur samfélagsreglnanna hafi sem minnsta hvata til að vinna gegn umbótum til verndar almannahagsmunum.
Við vitum að reynt verður að ala á ótta við breytingar, en það hefur tilgang í sjálfu sér að gefa öðrum tækifæri.
Athugasemdir