Þegar ráðið er í mikilvægar stöður er gjarnan reynt að horfa til þess að umsækjendur hafi staðið sig vel í fyrri stöðum sínum og uppfylli kröfur um reynslu og hæfni.
Nú vorum við að skipa í æðstu stöðu ríkisins.
Nýr forsætisráðherra Íslands hefur á þriggja ára ferli sem ráðherra náð að sýna fram á slæm vinnubrögð og vafasama dómgreind.
Dagana áður en Sigurður Ingi varð forsætisráðherra gekk hann einna lengst allra í gagnsókninni gegn þeim sem gagnrýndu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forveri hans, hefði leynt hagsmunum sínum og sagt ósatt um þá.
Meðvirkur og virkur í gagnsókninni
Sigurður Ingi var ekki aðeins meðvirkur Sigmundi Davíð, heldur virkur í gagnsókninni gegn gagnrýnendum hans. Hann var ekki einungis sáttur við leyndina og hagsmunaáreksturinn sem voru kjarninn í broti Sigmundar gegn kjósendum og öðrum, heldur var hann ósáttur við að fólk skyldi leyfa sér að ræða það.
„Mér er nánast orða vant yfir því sem er borið á borð í þinginu. Ég hélt við værum komin yfir þann lágkúrulega kafla að draga hér fjölskyldur þingmanna og kjörinna manna hér inn í ræðustól Alþingis,“ sagði hann á Alþingi þegar þingmenn gagnrýndu leynda hagsmuni forvera hans.
„Fullkomlega eðlileg atburðarrás“
Eftir að hafa séð Sigmund afvegaleiða fréttamann í viðtali, segja honum ósatt, reiðast og ganga síðan út, og séð gögn sem sýndu brot Sigmundar á siðareglum, reglum um hagsmunaskráningu og fleira, upplifði Sigurður eftirfarandi: 1. „Fullkomlega eðlileg atburðarrás.“ 2. „Ekkert nýtt.“
Viðbrögð hans voru meðaumkun með Sigmundi vegna offjár hans. „Það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi.“
Svar hans við því að forsætisráðherra nýtti sér skattaskjól, þar sem hagsmunir hans voru leyndir öðrum var: „Einhvers staðar verða peningar að vera.“
Sigurður Ingi var því virkur og meðvitaður aðili að bjöguðu gildismati og blekkingum Sigmundar Davíðs.
Sniðgekk faglega ferla
Áður hefur Sigurður Ingi sýnt að hann er tilbúinn að sniðganga faglega ferla með því að grípa fram fyrir hendurnar á heilbrigðiseftirlitinu og leyfa sölu á saurmenguðum hvalabjór og taka gerræðislega ákvörðun um að flytja heila stofnun, Fiskistofu, og allt starfsfólk þess til Akureyrar með skömmum fyrirvara, þannig að stór hluti starfsmanna sagði upp og aðrir mótmæltu honum með orðunum: „Vinnubrögð af þessu tagi ættu ekki að tíðkast í siðuðu samfélagi.“
Starfsmennirnir sökuðu hann um að hafa sagt ósatt um samskipti sín við þá. Þar sem forsætisráðherrann Sigmundur Davíð lýsti því á sama tíma yfir að flytja ætti fleiri stofnanir út á land óttaðist starfsfólkið að fjöldi annarra opinberra starfsmanna myndu upplifa að starfsöryggi þeirra yrði „háð geðþóttaákvörðunum valdamanna, sem minna fremur á vinnubrögð í alræðisríkjum, en það sem við væri að búast í nútímalegu lýðræðislegu samfélagi.“
Umboðsmaður Alþingis komst síðan að þeirri niðurstöðu að vinnubrögðin hefðu „ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti“.
Hefur vald yfir ásýnd byggðar
Nú þegar Sigurður Ingi er orðinn forsætisráðherra hefur hann heimild til að grípa inn í húsbyggingar og gera inngrip í skipulagsvald, eftir að Sigmundur Davíð fékk samþykkt lög sem veittu forsætisráðherra slík völd.
Þegar fólk hefur endurtekið sýnt óæskilega hegðun er tilefni til að hafa áhyggjur af því að hún haldi áfram og því full ástæða til að fylgjast vel með til að fyrirbyggja skaða. Það hefur sýnt sig að inngrip almennings er nauðsynlegur hvati fyrir stjórnmálamenn til að vinna að almannahagsmunum.
Athugasemdir