Það er hálfgert bann við því að gagnrýna trúarbrögð, kannski vegna þess að rökstudd gagnrýni getur kippt fótunum undan trú. Þannig er trúfrelsi stundum túlkað sem rétturinn til að vera laus við gagnrýni á trú sína.
Fyrir nokkrum vikum voru birtar niðurstöður rannsóknar í sex löndum sem sýndi að trúuð börn eru að meðaltali „verri“ en börn í trúlausum fjölskyldum, út frá siðferðislegum mælikvarða. Niðurstöðurnar voru að trúuð börn eru síður hjálpsöm en trúlaus börn, þau eru refsigjarnari og trúa því fremur en trúlaus börn að aðrir séu illviljaðir.
Þrátt fyrir þetta sýndi rannsóknin að foreldrar í trúuðum fjölskyldum eru mun líklegri en trúlausir til að álíta börnin sín standa öðrum framar í réttlætiskennd og samhyggð.
Niðurstaðan er því að trúhneigð hefur neikvæða fylgni við hjálpsemi en jákvæða við tortryggni og refsigleði gagnvart öðrum.
Trúaðir mælast vera líklegri en trúlausir til að álíta sig siðferðislega fremri öðrum, en jafnframt tortryggja þeir aðra og vilja refsa þeim. Það bendir til þess að siðferðislega byggi trúarbrögð ekki brýr á milli fólks heldur breikka bilið.
Þrjú höfuðeinkenni trúarbragða geta orsakað slæm áhrif þeirra á siðferði:
1. Trúin á að aðrir geti verið illir. Þeir séu eðlislægt óæskilegir.
2. Tilfærsla á ábyrgð á atburðum og ástandi heimsins frá sjálfum sér til alvaldrar, alvitrar, ósýnilegrar veru.
3. Krafa um skilyrðislausa fylgisspekt við vilja hinnar ósýnilegu veru og jaðarsetning eða refsikvöð gegn þeim sem ekki fylgja vilja hennar.
Það að gagnrýna trúarbrögð getur framkallað hörð viðbrögð, enda getur gagnrýnin verið túlkuð sem hrein árás á undirstöður trúarinnar. Gagnrýnin umræða grefur undan trú á það sem ekki er staðfestanlegt og að öllum líkindum ekki satt. En hvers vegna ætti að gilda bann við framþróun lífsgilda okkar og siðferðisgrunns, ólíkt öðru? Hvers vegna erum við bundin af þekkingu og boðskap sem er 1.400 til 3.500 ára gamall, þegar orðið hafa margar byltingar á þekkingu mannkyns á sjálfu sér í millitíðinni?
Biblían og Kóraninn eru að mörgu leyti úreltur grunnur siðferðis og það hefur sýnt sig að hann getur haft brenglandi áhrif á þá sem eru óstöðugir og viðkvæmir fyrir. Þetta eru hugmyndakerfi sem eru nýtileg til að fá einstaklinga til að sprengja sig upp og myrða aðra í hrönnum.
Tortryggni og refsigleði, sem eru fylgifiskar trúarbragða samkvæmt rannsókninni eru gjarnan orsök vítahringja ofbeldis.
Það er ekki víst hversu trúaðir verstu hryðjuverkamenn heimsins raunverulega eru, en í flestum mest áberandi hryðjuverkaárásum er trúin notuð til að forrita fólk til hryllings.
Árás trúaröfgamanna á Bandaríkin 2001 var svarað með stríði gegn „Öxulveldum hins illa“. Guð talaði við Bandaríkjaforseta. Ráðist var inn í Írak á fölskum forsendum. Stofnaðar voru fangabúðir þar sem tugþúsundum sekra sem saklausra var haldið. Eins og fjallað er um í Stundinni voru fangabúðirnar Bucca vettvangur tengslasköpunar og öfgavæðingar, sem lagði grunn að ISIS, sem stóð nýlega fyrir hryðjuverkaárás í París. Stríðið gegn hryðjuverkum skildi eftir sig land með heimsmet í hryðjuverkum. Tæplega helmingur allra dauðsfalla vegna hryðjuverka árið 2014 áttu sér stað í löndunum sem ráðist var inn í til að bregðast við hryðjuverkum.
Trúarbrögð ættu ekki að vera neitt kappsmál fyrir utan praktískt gildi þeirra við að stuðla að farsæld og vellíðan. Frelsið til að trúa þýðir ekki lausn undan gagnrýninni umræðu. Öllum er frjálst að trúa því að þeir séu betri en aðrir vegna þess að þeir trúi á Guð, og að aðrir séu verri. Við skulum bara ekki ríkisstyrkja það.
Við þurfum ný trúarbrögð. Trú á mannkynið, en ekki ósýnilegar alvaldar verur sem svipta okkur ábyrgð á farsæld fólks og samfélaga. Eitthvað sem stuðlar að auknum mannauði, þekkingu og góðmennsku, en vinnur ekki á móti því að við bætum okkur.
„Gleymdu því ekki, ef þér finnst allur heimurinn vondur, að það eru menn eins og þú sem lifa í honum.“
- Mahatma Ghandi
Athugasemdir