Eitt það mikilvægasta fyrir sjálfstæða hugsun er að átta sig á því að fólk er tilbúið til að borga fyrir að gefa manni upplýsingar.
Upplýsingar eru ekki bara hráefni hugsunar þinnar, heldur líka það sem mótar dómgreind þína og gildismat. Hluti af upplýsingunum sem þú færð koma frá menntakerfinu og annar hluti frá foreldrum, vinum og öðrum sem þú rekst á í lífinu. Dagsdaglega koma upplýsingarnar um atburði og þróun sem móta dómgreind þína og ákvarðanir beint eða óbeint frá fjölmiðlum.
Undanfarin ár hefur borið meira og meira á fjölmiðlum sem eru sendir frítt heim til fólks. En fjölmiðlar gefa þér ekki upplýsingar skilyrðislaust. Af hverju ættu þeir að gera það? Hver er annars að gefa þér mat, föt eða húsnæði, eða annað sem kostar vinnu og fjármuni að búa til?
Skoðun þín er verðmæti
Helsta ástæðan fyrir því að gefa upplýsingar er að það eru auglýsingar nálægt upplýsingunum sem gætu gripið athygli þína, sem fyrirtæki hafa borgað fyrir. Stundum hafa auglýsendur borgað fyrir greinarnar sem þú lest, eða umfjöllunina sem þú færð, án þess að þú áttir þig á því. Seldar umfjallanir eru helsti vaxtarbroddurinn í fjölmiðlum í dag og samkeppnisstaða þeirra sem sleppa því að selja efnið sitt versnar stöðugt, nema til komi inngrip frá almenningi.
Það kemur ekki endilega á óvart að það eru líka margir sem sjá hag sinn í því að hafa áhrif á þær upplýsingar sem þér eru veittar. Skoðun þín er nefnilega verðmæti. Það að þú takir ákvörðun sem hentar tilteknum aðilum í samfélaginu eru verðmæti fyrir þá.
Þegar fjölmiðill er alfarið fjármagnaður af auglýsendum verða hagsmunir miðilsins samliggjandi auglýsendum. Umsvifamestu auglýsendurnir eru gjarnan þeir sem eru með ráðandi stöðu í samfélaginu, með einum eða öðrum hætti. Þannig verður gagnrýnin ritstjórnarstefna óæskileg og jafnvel banvæn fyrir fjölmiðla. Mörg dæmi eru um að auglýsendur ákveði að sniðganga ákveðna fjölmiðla vegna gagnrýnnar umfjöllunar sem henta ekki fyrirtækjunum eða eigendum þess.
Það er hægt að setja verðmiða á ákvörðun þína í búðinni og í kosningum, til dæmis, eða á viðhorf þitt gagnvart því hvort rannsaka eigi eitthvað sem sakamál eða ekki. Allt þetta hefur áhrif á það hvernig vissum áhrifamiklum hópum tekst upp við að græða peninga eða forðast að þurfa að sæta ábyrgð fyrir það sem þeir gera á hlut annarra.
Þess vegna sækja hagsmunaaðilar í að eignast fjölmiðla og hafa áhrif á efnistök þeirra.
Ritstjórar sem henta hagsmunum
Það mikilvægasta sem hagsmunaaðilar geta gert til að hafa áhrif á upplýsingar sem berast almenningi er að ráða ritstjóra sem hentar hagsmunum.
Gæti verið tilviljun að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, sem rekur stærstu fréttavefsíðu landsins? Einarður stuðningur hans við hægristefnu og kvótakerfið, og andstaða hans við Evrópusambandið, fer fullkomlega saman við hagsmuni eigendanna. Ráðningin var látin ganga í gegn jafnvel þótt Morgunblaðið sjálft tapaði á henni og missti hátt í helming áskrifenda sinna í kjölfar hennar. En það munar ekki miklu fyrir eigendur Morgunblaðsins, því þeir eiga rúmlega þriðja hvern þorsk í sjónum, eins og Stundin benti á í október.
Kannski var það tilviljun að helsti eigandi 365, sem fékk fyrirtækið frá eiginmanni sínum, réð sem aðalritstjóra manneskju sem skar sig úr fyrir mikla og harða andstöðu við rannsóknir á efnahagsglæpum. Á sama tíma var eiginmaður eigandans til rannsóknar fyrir meinta efnahagsglæpi.
Andstæðingar ábyrgðar
Kannski var líka tilviljun að hópur manna tók yfir DV fyrir rúmu ári, meðal annars lögmaður tveggja auðugra aðila sem voru í málaferlum við DV vegna gagnrýninnar umfjöllunar, en líka aðili sem fór í mál við DV af sömu ástæðu. Sá sem á endanum leiddi yfirtökuna, Björn Ingi Hrafnsson, var áður framámaður í Framsóknarflokknum og sagðist fyrir nokkrum árum ekki eiga neina peninga eftir að hafa tapað á sérmeðferð sem hann fékk hjá Kaupþingi, en galdraði samt fram peninga á óútskýrðan hátt.
Kannski er tilviljun að sá sem var svo valinn til að ritstýra DV, Eggert Skúlason, er sá sem hefur mest haft sig í frammi í andstöðu gegn rannsóknum á efnahagsglæpum og því að upplýsingar um þær berist almenningi.
Kannski er önnur tilviljun að sami ritstjóri DV skrifaði bók sína um að rannsóknir á brotum bankamanna væru „ofsóknir“ fyrir bókaútgáfu sem bankamenn og þekktir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eiga, meðal annars einn sem dæmdur var fyrir innherjasvik í starfi sínu fyrir almenning fyrir tilstilli Sjálfstæðisflokkins, þegar hann reyndi að bjarga meira en 100 milljónum krónum fyrir sjálfan sig.
Kannski er líka tilviljun að annar helsti eigandi bókaútgáfu Eggerts er háværasti fylgismaður og hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor. Hann var einnig valinn af formanni Sjálfstæðisflokksins til að meta ábyrgð þeirra sem héldu utan um valdataumana þegar efnahagslífið hrundi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.
Í átt að hagsmunum fjöldans
Kannski eru þetta allt tilviljanir, þar sem peningar, hagsmunir og upplýsingagjöf til þín fara saman. Það er hins vegar líklegra að það sama gildi um upplýsingar og annað sem fyrirtæki framleiða, að þær eru ekki ókeypis. Það eru verðmæti fyrir ákveðna aðila að sannfæra þig um hvað sé rétt og hvað sé rangt.
„Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis,“ útskýrði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í rannsókn hrunsins og bókaútgefandi ritstjóra DV undir lok síðustu aldar.
Ef þú vilt óháða upplýsingagjöf, sem tekur mið af hagsmunum fjöldans frekar en samþjappaðs valds, þarftu á endanum að borga fyrir hana sjálf(ur) með einhverjum hætti. Ein leið í áttina að því er að kaupa áskrift að fjölmiðlum í dreifðu eignarhaldi sem binda helst hagsmuni sína við almenning sem kaupir áskrift.
Athugasemdir