Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill ekki hætta í stjórnmálum vegna þess að hann hefur náð svo miklum árangri og býst við „stórri, raunverulegri og aðkallandi hættu á að árangrinum verði kastað á glæ“.
Vigdís Hauksdóttir telur að hún hafi náð svo góðum árangri að hún ákvað þvert á móti að hætta í stjórnmálum.
Í ljósi þess að árangurinn er grunnforsenda þessara gagnstæðu aðgerða mest áberandi meðlima Framsóknarflokksins er ástæða til að rifja upp það sem ríkisstjórnin hefur helst staðið fyrir.
Þrátt fyrir forsendu Sigmundar Davíðs um góðan árangur sinn og róttæku skynsemishyggjuna sem hann boðar kemst hann að þeirri niðurstöðu á sama tíma að það sé „fráleitt“ að ákveða dagsetningu alþingiskosninga vegna ókláraðra verkefna hans í tveimur af þremur stærstu kosningaloforðum hans. Hann á eftir að afnema verðtrygginguna, sem hann sagði að væri „einfalt“ áður en hann var kosinn fyrir þremur árum, og svo að umbylta fjármálakerfinu.
Sigmundur vill svíkja loforð forsætisráðherrans og formanns hins stjórnarflokksins um að flýta þingkosningum til hausts, sem var gefið vegna fjölmennra mótmæla þegar hann sjálfur var staðinn að ósannindum og leyndum hagsmunaárekstri. Það sem er kannski mest sláandi við óskammfeilnina er að hún kemur lítið á óvart. Því þetta fellur að því sem ríkisstjórnin hans hefur staðið fyrir frá upphafi.
Viðhorfið gagnvart lýðræði
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gerðu báðir út á lýðræðisstefnu í aðdraganda síðustu kosninga, einna helst með loforði um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ólíkt formanni Íhaldsflokksins í Bretlandi taldi Bjarni Benediktsson „pólitískan ómöguleika“ felast í því að standa við loforðið.
Lýðræðisstefna ríkisstjórnarinnar hefur líka birst í því að hún fylgdi ekki eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá.
Eftir valdatökuna breytti Bjarni Benediktsson áherslu sinni úr lýðræði yfir í flokksræði.
Nú birtist stefnan í þeim tilraunum framsóknarmanna að standa ekki við að halda kosningar í haust og „virkja lýðræðið“ til að koma til móts við kröfur almennings, vegna þess að orðalagið hafi bara verið „stefnt sé að“. „Kannski er hægt að stefna að því í sameiningu að það verði kosið fyrir áramót,“ segir Sigmundur núna. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hjá honum að Framsóknarflokkurinn græðir tugi milljóna á því að fresta kosningunum, því fjármagni til stjórnmálaflokka er úthlutað miðað við þingmannafjölda í febrúarmánuði ár hvert.
Hvað er mikilvægt?
Til að meta árangur ríkisstjórnar þarf að greina hvað sé mikilvægt í samfélaginu. Lýðræðið er lykilatriði fyrir langvarandi farsæld, en orsakasamhengið er flókið. Við þekkjum viðhorf ríkisstjórnarinnar til lýðræðis vegna reynslunnar af því, en aukið lýðræði hefur ekki verið forgangsmál hjá valdaflokkunum, nema stundum í orði fyrir kosningar.
Núverandi ríkisstjórn og flestar fyrri ríkisstjórnir hafa horft til hagvaxtar sem mikilvægasta mælikvarða farsældar.
En hagvöxtur er í fyrsta lagi ekki alltaf góður, og í öðru lagi tekur tíma fyrir aðstæður að skapast fyrir vöxt. Sigmundur Davíð virtist reyna að selja þjóðinni mikilvægi sitt út frá því að hann sé mikilvægur og jafnvel ómissandi orsakavaldur hagvaxtar. Hins vegar byrjaði hagvöxtur að aukast verulega á síðasta ári vinstri stjórnarinnar.
Hagvöxtur er ekki góður mælikvarði á gott líf, sérstaklega til skemmri tíma. Hann getur mælt kraft samfélagsins, en ekki hvert hann verkar, hvort hann nýtist til góðs eða ills fyrir hamingju og farsæld. Hann mælir til dæmis ekki mengun í andrúmsloftinu. Hann mælir ekki frelsi, eða aðrar forsendur hamingjuríks lífs. Til dæmis gæti það skilað auknum hagvexti ef aukin mengun kallaði á aðgerðir til hreinsunar. Og það skilar auknum hagvexti ef okkur er bannað að sjá landið okkar án þess að borga eigendum náttúruperla fyrir. Það skilar meiri hagvexti að rukka okkur fyrir að fara á salernið og selja allar óbyggðir í einkaeign.
Forsendur farsældar
Farsæld og hagvöxtur fara ekki alltaf saman, og þess vegna er ekki hægt að dæma ríkisstjórn án þess að skoða áhrif hennar á orsakaþætti farsældar.
Heilsa er óumflýjanlega forsenda hamingju þar sem hún afmarkar virkni okkar. Ákvarðanir ríkisstjórna sem snerta heilsu snúa ekki bara að því að leysa vandamál sem þegar eru orðin, heldur líka að skapa kjöraðstæður fyrir fólk til að lifa heilbrigðu lífi.
Eitt af stærstu málum núverandi ríkisstjórnar var að breyta virðisaukaskattinum. Leiðin sem hún fór var að hækka matvæli úr 7% skattþrepi í 11%, og þannig valda auknum útgjöldum fyrir alla, því allir þurfa að fæðast. Þetta snertir mest þá fátækustu. Áhersla stjórnarinnar í lýðheilsumálum birtist hins vegar í því að lækka á sama tíma stórvægilega álagningu á sykruðum matvælum, sem eru talin vera ein mesta ógnin við heilsufar manna í dag. Á sama tíma og yfirvöld víða um heim leggja sérstakan skatt á sykruð matvæli eða gosdrykki vegna faraldurs margvíslegra sjúkdóma sem tengjast of mikilli neyslu þeirra.
Þessi ríkisstjórn beitti því takmarkaða valdi sem hún hefur til að hafa áhrif á mataræði – einn mikilvægasta orsakaþátt heilbrigðis – til þess að gera grænmeti dýrara og gosdrykki ódýrari, sem er andstætt almennri skynsemi og vinnur gegn farsæld fólks.
Matarskattsmálið var annar bautasteinn heiðarleika og lýðræðisstefnu Sigmundar Davíðs, þar sem hann hafði úthrópað hugmyndir í tíð fyrri ríkisstjórn um mögulega hækkun matarskatts. „Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær,“ sagði Sigmundur um matarskattinn áður en hann var kjörinn, og hækkaði síðan matarskatt um 60% eftir að hann var kjörinn.
Einkavæðing lækninga
Annað einkenni stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er meiri einkavæðing. Kristján Þór Júlíusson er byrjaður að einkavæða heilsugæsluna. Þrjár einkareknar heilsugæslustöðvar verða opnaðar á næstunni. Á sama tíma eru þrjú fyrirtæki með einkarekna heilbrigðisþjónustu á lista yfir 20 arðsömustu á landinu. Sjöunda arðbærasta félag landsins hefur greitt yfir 200 milljónir króna í arð til þriggja eigenda, en það starfar við að taka röntgenmyndir og sneiðmyndir af veiku fólki.
En Bjarni Benediktsson tilkynnir að núna ætli þeir að setja heilbrigðismálin í forgang, í viðtali við Morgunblaðið, með mynd af sér að nostra við gróðurinn í garðinum sínum í Garðabænum. Rétt eins og Sigmundur hefur sparað sér síðustu þrjú ár að afnema verðtrygginguna á einfaldan hátt og koma á heilbrigðu fjármálakerfi.
Umverfisstefnan
Ríkisstjórnin hefur gert lítið í umhverfismálum, eins og sést í úttekt í Stundinni. Hún leggur ekki meiri áherslu á að vernda umhverfið en svo að núverandi forsætisráðherra vildi láta leggja niður umhverfisráðuneytið þegar hann tók við því ráðuneyti í upphafi kjörtímabilsins.
Núverandi ríkisstjórn hefur formlega lýst yfir vilja til að reisa kínverskt álver á Skaga, nálægt Skagaströnd. Stjórnin hefur lagt 20 milljónir króna í að undirbúa jarðveginn fyrir það. Álver Kínverja gæti vissulega aukið hagvöxt, en eins og Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, hefur bent á, situr takmarkað eftir í landinu af veltu álvera.
Þrátt fyrir að erlendir álrisar hér á landi beiti bókhaldsbrellum til að forðast að borga skatta á Íslandi setti Bjarni Benediktsson í forgang að afnema raforkuskatt á stóriðju. „Afnám raforkuskatts er forgangsmál,“ sagði hann og leit á það sem hluta af „meginhlutverki“ stjórnvalda. Um var að ræða 1,6 milljarða króna tekjur. Stóriðjan notar 80% af orku landsins.
Raunveruleg orsök hagvaxtar
En hvað hefur hún gert? Er ferðamannastraumurinn ríkisstjórninni að þakka?
Íslensk náttúra er ekki verk ríkisstjórnarinnar. Gosið í Eyjafjallajökli ekki heldur. Lækkun krónunnar, sem lækkaði raunlaun okkar og gerði hagstæðara fyrir notendur annarra gjaldmiðla að koma til Íslands og kaupa þjónustu okkar, er hins vegar á ábyrgð stjórnmálamanna, og þá helst þeirra sem hafa staðið gegn upptöku annarra gjaldmiðla.
Aukinn hagvöxtur, sem að miklu leyti er tilkominn vegna ferðamennsku, er því ekki ríkisstjórninni að þakka. Þvert á móti hefur skapast einhvers konar óáran vegna þess að ekki var gert ráð fyrir því að það þyrfti að tryggja þeirri 1,6 milljón manna sem ferðast um landið aðstöðu til þess að fara á salernið.
Skattalækkanir fyrir ríka
Bjarni Benediktsson og ríkisstjórnin hafa náð að nýta hagsveifluna til að borga skuldir ríkisins. Á sama tíma hefur verið gerð eins skiptis aðgerð til að breyta skuldum hluta heimilanna og smávægilegar skattbreytingar sem gagnast mörgum, til dæmis afnám tolla á föt og skó.
Að flestu öðru leyti hafa skattabreytingar ríkisstjórnarinnar beinst að því að bæta hag þeirra ríkustu, til dæmis takmörkun veiðigjalda.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson náði líka að lækka sína eigin skattbyrði um helming, eða um 10 milljónir króna, þegar auðlegðarskatturinn var afnuminn.
Því Sigmundur er, að eigin mati, og mati annarra eins og hans, forsenda hagvaxtar og hagsældar, út frá hans bæjardyrum séð, en hann er skráður með falskt lögheimili úti í sveit á Austurlandi til að auðvelda honum að halda völdum.
Athugasemdir