Þrjár stofnanir sérhvers samfélags þurfa ævinlega að vera hafnar yfir allan vafa um heiðvirð vinnubrögð hvað sem öllu öðru líður. Þær eru Hæstiréttur sem ber að fullnægja réttlæti að lögum til handa borgurunum, Seðlabankinn sem ber að halda verðbólgu og bönkum í heilbrigðu horfi og Hagstofan sem ber að tryggja aðgang almennings og stjórnvalda að réttum upplýsingum um efnahagsmál o.fl. Málið snýst um traust. Minni kröfur eru jafnan gerðar til annarra stofnana, til dæmis einstakra ráðuneyta, útlendingaeftirlits og svo framvegis. Þar eiga hneykslin til að hrannast upp án þess einhvern veginn að hrikti í stoðum samfélagsins.
Þegar spillingin á Ítalíu gekk svo langt að meira en helmingur þingmanna sætti ákæru fyrir lögbrot, um 400 borgarstjórnir og bæjarstjórnir voru leystar upp vegna spillingar, árlegar mútugreiðslur til stjórnmálamanna til að liðka fyrir samningum við ríkið námu um 300.000 krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu 1980–90 og um 9.000 Ítalar fengu dóma fyrir glæpi tengda spillingu, þá hugguðu margir heimamenn sig við það að Hæstiréttur, Seðlabankinn og Hagstofan væru þó alltént í lagi. Það reyndist þó aðeins eiga við um Hæstarétt og Hagstofuna því Antonio Fazio, bankastjóri Seðlabanka Ítalíu 1993–2005, fékk 4ra ára fangelsisdóm 2011 fyrir spillingu og svimandi háa fjársekt að auki (1,5 milljónir evra). Ekki er vitað um lögbrot í Hæstarétti Ítalíu eða um málaferli dómaranna þar hver gegn öðrum eða um rannsókn Mannréttindadómstóls Evrópu á grunsemdum um hlutdrægni dómaranna vegna meintra vonbrigða í hlutabréfaviðskiptum.
Hæstiréttur
Hæstiréttur þarf að vera hafinn yfir allan vafa. Dómurum Hæstaréttar ber að dæma eftir lögum án þess að draga hlut eins eða neins. Þeir eiga ekki að vera stjórnmálamenn sveipaðir skikkjum. Og þeir eiga ekki að saka hver annan um lögbrot og dómsmorð og standa í málaferlum hver við annan. Ef Hæstiréttur nýtur ekki trausts er illa komið fyrir samfélagi sem þarf að lúta dómum réttarins, en þá býr að vísu veik vörn í möguleikanum á að skjóta til erlendra dómstóla málum þar sem meint brot hafa verið framin gegn mannréttindum. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur iðulega sýknað fólk sem fundið hafði verið sekt í Hæstarétti Íslands og það hefur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna einnig gert.
„Ef Hæstiréttur nýtur ekki trausts er illa komið fyrir samfélagi sem þarf að lúta dómum réttarins“
Hæstiréttur Íslands skilur eftir sig skrautlegan slóða. Hann brenndi af þegar hann sneri við fyrri dómi um fiskveiðistjórnarkerfið sem hann taldi ekki standast stjórnarskrána 1998 og kúventi svo 18 mánuðum síðar eftir að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem sátu þá sem nú saman í ríkisstjórn, höfðu lýst óánægju sinni með fyrri dóminn fyrir hönd umbjóðenda sinna og borgunarmanna. Hæstiréttur brenndi einnig af þegar hann ógilti á fráleitum forsendum kosninguna til stjórnlagaþings 2010 eins og Reynir Axelsson stærðfræðingur hefur lýst með óyggjandi rökum. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins höfðu skipað fimm af dómurunum sex sem stóðu að ógildingunni.
Hæstiréttur viðurkenndi mistök sín í reynd árið eftir þegar hann hafnaði hliðstæðri kæru Öryrkjabandalagsins vegna forsetakosninganna 2012 með þeim réttu rökum að meintir formgallar hefðu ekki getað haft áhrif á úrslit kosninganna.
Eftir þessa sneypuför Hæstaréttar hallaði enn undan fæti, dómararnir fóru í hár saman, jafnvel fyrir dómstólum, og hættu sumir störfum áður en skipunartími þeirra rann út. Grunur um hlutdrægni vegna hlutabréfaeignar tveggja dómara í föllnu bönkunum bíður nú meðferðar Mannréttindadómstóls Evrópu. Sú hætta vofir yfir MDE telji hlutleysi dómaranna ekki vera hafið yfir allan vafa.
Ekkert þessu líkt gæti gerzt í nálægum löndum.
Innan við helmingur viðmælenda Gallups treystir dómskerfinu. Traust til dómskerfisins hefur aldrei náð upp fyrir helming síðan mælingar hófust 2001. Nýja stjórnarskráin, sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslunnni 2012 en Alþingi heldur samt enn í gíslingu, tekur á vandanum með því að skerpa þær kröfur sem gerðar eru til dómara á þann veg að skipun í dómaraembætti sé háð staðfestingu annaðhvort forseta Íslands eða 2/3 hluta Alþingis. Nýrri skipan er ætlað að bæta mannvalið í Hæstarétti og héraðsdómum og efla traust.
Seðlabankinn
Ferill Seðlabanka Íslands fyrir og eftir hrun er kapítuli út af fyrir sig. Hátt settir starfsmenn bankans báru eiðsvarnir fyrir Landsrétti 2010 að strax 2006 hefðu þeir gert sér grein fyrir því að bankarnir væru svikamyllur og þeim væri ekki viðbjargandi. Samt hélt Seðlabankinn áfram að lána bönkunum fé. Enginn starfsmaður Seðlabankans blés í flautu, allir þögðu. Á lokametrunum 6. október 2008 lánaði Seðlabankinn Kaupþingi það sem eftir var af gjaldeyrisforðanum, 500 milljónir evra. „Ekki var … gerð skrifleg bankastjórnarsamþykkt um lánveitinguna“ segir bankinn sjálfur). Þriðjungur fjárins rann beint til Tortólu.
„Ísland er á gráum lista landa sem hafa vanrækt varnir gegn fjárböðun og tengdri glæpastarfsemi á sama tíma og Seðlabankinn stendur afhjúpaður í miðjum vefnum“
Ekki verður séð að Seðlabankinn telji neitt athugavert við þessar lánveitingar eða annan mokstur út úr bönkunum í miðju hruni. Seðlabankinn vanrækti að heimta upprunavottorð af þeim hrunverjum og öðrum sem fluttu fé til Íslands á vildarkjörum eftir hrun. Bankinn skýrði sinnuleysi sitt með því að það sé ekki hlutverk Seðlabankans að „útdeila réttlæti í samfélaginu“. Ýmsir hrunverjar eru nú sem óðast að hreiðra um sig aftur í efnahagslífinu í boði Seðlabankans. Ísland er á gráum lista landa sem hafa vanrækt varnir gegn fjárböðun og tengdri glæpastarfsemi á sama tíma og Seðlabankinn stendur afhjúpaður í miðjum vefnum. Bankinn hefur í þokkabót leyst til sín Fjármálaeftirlitið eins og til að koma allri meðvirkni með brokkgengum bankamönnum aftur fyrir á einum öruggum stað með gamla laginu.
Fjármálaeftirlitið „skilur ekki áhættu“ hefur Svein Harald Øygard, fv. seðlabankastjóri, eftir bankamönnum frá Barclays-banka í nýrri bók sinni Í víglínu íslenskra fjármála. Það var áður en Gunnar Þ. Andersen var skipaður forstjóri FME þar sem hann lagði ásamt samstarfsmönnum sínum grunninn að samtals 88 ára fangelsisdómum yfir 36 brotlegum bankamönnum og öðrum á þeim þrem árum, 2009–2012, sem honum var veittur starfsfriður í eftirlitinu ef frið skyldi kalla. Eftir brottför hans færðist gamli vöggustofubragurinn aftur yfir eftirlitið sem var á fyrri tíð deild í Seðlabankanum og hrærði ekki hár á höfði nokkurs manns.
Bankaráð Seðlabankans, sem ber lagaskylda til að fylgjast með því að bankinn starfi skv. lögum, hefur þagað þunnu hljóði um allt þetta. Og enn eftir allt sem á undan er gengið heldur bankaráðið fundargerðum sínum leyndum eins og til að hylja slóðina. Í heilbrigðu réttarríki væri látið á það reyna meðal annars hvort bankaráðsmenn hafa brugðizt lagaskyldu sinni með því að taka ekki á sinnuleysi Seðlabankans frammi fyrir lögbrotum í bankakerfinu og í eigin ranni. Hátt settur starfsmaður bankans var staðinn að lögbroti án þess að þurfa að sæta ábyrgð og starfar þar enn eins og ekkert hafi í skorizt. Innan við þriðjungur viðmælenda Gallups ber traust til Seðlabankans.
Hagstofan
Staðan í hálfleik er sem sagt þessi: 2:1 fyrir Ítalíu. Seðlabanki Ítalíu brást, en Hæstiréttur landsins hefur staðið í stykkinu. Hér heima hafa bæði Hæstiréttur Íslands og Seðlabankinn brugðizt trausti almennings.
Víkur þá sögunni að hagtölum og slíku. Ítalska hagstofan hefur mér vitanlega aldrei sætt umtalsverðri gagnrýni. Hún er eins og hagstofur eiga að vera.
Hagstofur geta þó lent í hremmingum. Það fékk gríski hagfræðingurinn Andreas Georgiou að reyna á eigin skinni. Þegar gríska ríkisstjórnin hafði orðið uppvís að því að birta of lágar tölur – ljúga! – um hallann á ríkisbúskapnum til að villa um fyrir öðrum aðildarríkjum ESB og lánardrottnum, var Georgiou kallaður heim til Grikklands 2010 til að rífa hagstofuna (Elstat) upp úr feninu og reiða fram réttar tölur. Hann hafði þá unnið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington í 21 ár við góðan orðstír. Honum var þökkuð sannsöglin heima fyrir með því að yfir hann var hvolft holskeflu af kærum, bæði opinberum ákærum og einkakærum, fyrir að birta of háar tölur um ríkishallann í samráði við hagstofu ESB (Eurostat) og hafa þannig skaðað þjóðarhagsmuni Grikklands til að þóknast ESB – landráð! – auk annarra meintra ávirðinga. Hann hefur ýmist verið fundinn sýkn eða sekur í ranghölum grísks réttarfars og er ekki enn sloppinn til fulls eftir átta ára varnarbaráttu fyrir dómstólum. Alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök tölfræðinga hafa vottað að tölurnar sem gríska hagstofan reiddi fram undir hans stjórn voru réttar. Georgiou átti um skeið allt að tíu ára fangelsi yfir höfði sér fyrir að segja satt. Hann sagði af sér embætti 2015 og býr nú aftur og starfar í Washington.
Þessi saga á erindi við Ísland meðal annars af því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður með manni og mús 2002. Hvers vegna? Hún rækti skyldur sínar vel, var sjálfstæð og truflaði þannig ráðríka stjórnmálamenn sem töldu í villu sinni að greiningardeildir bankanna – já, þær! – gætu leyst Þjóðhagsstofnun af hólmi. Allir vita hvernig það fór. Verkefnin tvístruðust og fluttust sum til Hagstofunnar sem vanrækti þar til eftir hrun, kannski af ótta við að bíða sömu örlög og Þjóðhagsstofnun, að greina frá gríðarlegri aukningu ójafnaðar í tekjuskiptingu frá 1995. Eftir hrun byrjaði Hagstofan loksins að birta tekjuskiptingartölur eins og við Stefán Ólafsson prófessor o.fl. höfðum brýnt þau til að gera löngu fyrir hrun. Slíkum tölum, bæði hér heima og erlendis, virðist þó varlegt að treysta svo lengi sem yfirvöld gera ekki fulla grein fyrir skattameðferð tekna og eigna sem fundust t.d. í Panama-skjölunum og enn er leynt í öðrum skattaskjólum, t.d. á Kýpur. Talið er að fé að andvirði um 10% af samanlögðum tekjum heimsbyggðarinnar sé falið í skattaskjólum.
Við þessar kringumstæður ætti Hagstofa Íslands að stíga varlegar til jarðar en hún hefur gert að undanförnu. Ég nefni tvö nýleg dæmi.
Rétt fyrir kjarasamninga í vor leið tefldi Hagstofan í skyndingu fram nýjum tölum sem gerbreyttu myndinni af vinnutíma íslenzkra launþega. Fyrri tölur sýndu að Íslendingar unnu að jafnaði mun lengri vinnuviku en flestar nágrannaþjóðir okkar, en nú var línan skyndilega orðin sú að Íslendingar ynnu engu meira en aðrir. Þessi niðurstaða þykir mér tortryggileg í ljósi þess sem ég hef eins og aðrir fyrir augunum alla daga, en það er samt ekki aðalatriði málsins. Reynslan gæti átt eftir að sýna að þetta sé rétt hjá þeim á Hagstofunni hversu ólíklegt sem það kann nú að virðast. Aðalatriðið er að hagstofa á ekki að reiða fram slíkar tölur rétt fyrir viðkvæma kjarasamninga því það skekkir stöðu samningsaðila og skapar skiljanlega tortryggni. Ég geri m.ö.o. ekki athugasemd við nýju tölurnar að svo stöddu þar eð málið þarfnast rækilegrar skoðunar, en tímasetning birtingar þeirra var óheppileg og til þess fallin að draga úr trausti.
„Hagstofan hefur verið hvött til að leiðrétta töfluna, en án árangurs“
Hagstofan birtir á vefsetri sínu flipa um þjóðaratkvæðagreiðslur. Myndin sýnir flipann. Þarna eru allar þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar hafa verið í landinu frá 1908 taldar upp – nema ein. Hverja skyldi vanta? Þjóðaratkvæðagreiðsluna um nýju stjórnarskrána 2012. Hagstofan hefur verið hvött til að leiðrétta töfluna, en án árangurs. Upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðsluna er að finna á undirflipa sem miklu færri sjá. Og þar eru úrslitin rangtúlkuð með því að slengja saman ógildum atkvæðum og auðum seðlum þrátt fyrir ítrekaðar óskir sérfræðinga um lagfæringu. Þannig hefur Hagstofan haldið því fram frá 2012 að 74% kjósenda hafi lýst stuðningi við ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu og 15% lýst sig andvíga, samtals 89%, meðan réttar tölur eru 83% og 17%, samtals 100%. Rangtúlkun Hagstofunnar felst í að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða og hlutfallstölur eru reiknaðar í samræmi við það.
Um þetta segir Þorkell Helgason, einn fremsti kosningarsérfræðingur landsins, í álitsgerð sem hann sendi m.a. Hagstofu Íslands 2014: „Birting úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með ofangreindum hætti er nýlunda í íslenskri kosningasögu, enda eru fylgishlutföll lista í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna ætíð reiknuð þannig að þau safnast saman í 100%.“
Hagstofan þarf að taka sig á. Staðan er 3:1 fyrir Ítalíu.
Athugasemdir