Þjóðkirkjan og önnur trúfélög eru undanskilin fasteignaskatti vegna kirkna og bænahúsa. Skatturinn hefði hljóðað upp á 340 milljónir króna í ár ef undanþágunnar nyti ekki við.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna. Andrés spurði hvert væri fasteignamat þeirra fasteigna sem undanskildar eru í ár og hver upphæð skattsins hefði verið ef undanþágan væri ekki til staðar.
Samkvæmt lögum eru kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga undanþegin. Þá eru safnahús undanskilin, svo framarlega sem þau eru ekki rekin í ágóðaskyni, og hús erlendra ríkja og alþjóðastofnaða sem eru notuð í alþjóðasamskiptum, eins og til dæmis sendiráð.
Í svarinu kemur fram að heildarfasteignamat allra þessara eigna er tæpir 43 milljarðar króna. Fasteignaskattur á þær hefði verið tæpar 640 milljónir króna í ár, en skatthlutföllin eru mismunandi eftir sveitarfélögum. Er fasteignaskattur einn af þremur lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga, ásamt útsvari og framlögum úr Jöfnunarsjóði.
Í sundurliðun má sjá að fasteignir erlendra ríkja og alþjóðastofnana sem falla undir ákvæðið eru allar í Reykjavík og eru metnar á 6,7 milljarða króna. Hefði skattur af þeim numið 68 milljónum króna í ár.
Kirkjur og safnaðarheimili landsins eru metin á 21,5 milljarð króna og fasteignaskattur af þeim hefði numið rúmum 340 milljónum króna í ár, ef undanþágan væri ekki til staðar. Loks eru safnahús metin á 14,8 milljarða króna og undanþeginn skattur á þau áætlaður um 232 milljónir króna.
Athugasemdir