Parinu unga sem slasaðist í eldsvoða í Hlíðunum 23. október síðastliðinn er enn haldið sofandi í lífshættu. Ástand þeirra Sólrúnar Öldu Waldorff og Rahmons Anvarovs er alvarlegt, þau berjast bæði fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi, hann hér heima á Íslandi en hún úti í Svíþjóð. Bæði eru þau mikið slösuð og tengd við öndunarvélar. Móðir Sólrúnar segir að þrátt fyrir alvarleika áverkana séu þau bæði sterk og berjist af hörku og það geri aðstandendur þeirra einnig. „Þau fengu erfitt verkefni í fangið og þurfa á öllu að halda til að takast á við það.“
„Líðan þeirra beggja er mjög svipuð því þau eru með mjög svipaða áverka. Þau eru bæði með hita, með sýkingar og bæði með lungnabólgu. Þau eru líka bæði með mikla áverka á lungum, eftir reykeitrun og hitann, og með mikil brunasár á stórum hluta húðarinnar. Sólrún hlaut um 35 prósent skaða á húð en fyrsta mat á Rahmon var að hans skaði væri rúmlega 50 prósent,“ segir Þórunn Alda Gylfadóttir, móðir Sólrúnar, í samtali við Stundina. Rahmon liggur á gjörgæsludeild Landspítala Íslands en Sólrúnu var flogið út til Linköping í Svíþjóð sökum þess að lungu hennar eru verr farin.
Athugasemdir