Reinhard Heydrich er gjarnan talinn eitthvert mesta illmenni 20. aldar. Hann var þýskur SS-foringi, yfirmaður öryggisþjónustu nasista og leynilögreglunnar Gestapo. Hann skipaði fyrir og tók þátt í ægilegum voðaverkum. Í janúar 1942 stýrði hann ráðstefnu nasistaleiðtoga þar sem helförin gegn Gyðingum var skipulögð í þaula og hefur því stundum verið nefndur „höfundur helfararinnar“ þótt vitanlega hafi hann verið að framfylgja skipunum Adolfs Hitlers og Heinrich Himmlers. Milljónir manna voru keyrðar í dauðann.

Það sem ekki hefur verið á almannavitorði hingað til er að í ágúst 1923 var Heydrich mættur til Reykjavíkur á þýsku herskipi, fór á ball á Hótel Íslandi og var viðstaddur fótboltaleik herskipsmanna gegn KR á Íþróttavellinum á Melunum.
Það er næstum öruggt að hann hafi sjálfur verið í liði herskipsmanna.

Þetta kemur fram í bók sem ég skrifaði í ár og kemur af tilviljun út í dag! Hún heitir „Úr undirdjúpunum til Íslands“ og fjallar að meginhluta til um ævi Juliusar Schopka, en hann var Þjóðverji, fæddur 1896, sem var í kafbátaflota Þýskalands í fyrri heimsstyrjöldinni.
Af vist hans á kafbátnum U-52 eru miklar sögur sem raktar eru samkvæmt minningum hans sjálfs og fjölda annarra heimilda, en eftir stríðið fluttist hann - meira eða minna af tilviljun - til Íslands og settist hér að.
Árið 1923 var Julius Schopka orðinn frammámaður í Germaniu, félagi Þjóðverja á Íslandi, og sá þá ásamt öðrum um að taka á móti áhöfn þýska herskipsins Berlin sem kom í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur.

Fyrsti stýrimaður á Berlin var annar gamall kafbátamaður, Wilhelm Canaris að nafni, en sá átti enn ævintýralegri feril að baki en Julius Schopka. Canaris kom alls þrisvar til Íslands, eins og rakið er í bókinni minni, og Schopka leit á hann sem vin sinn.
Eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi 1933 varð Canaris yfirmaður leyniþjónustu þýska hersins en sannfærðist brátt um að Hitler væri hættulegur og hóf að vinna gegn honum. Hann var tekinn af lífi í stríðslok, rétt áður en ríki Hitlers hrundi endanlega til grunna.

En um borð í Berlin var 19 ára kadett eða sjóliðsforingjaefni, sem var reyndar sérstakur skjólstæðingur Canaris.
Heydrich hafði heilmikla tónlistargáfu og kom gjarnan í heimsókn til Canaris á kvöldin, þegar Berlin var í höfn, og spilaði á fiðlu með eiginkonu hans.
Það er því líklegt að Canaris hafi kynnt hann fyrir Schopka, þótt þess sé ekki getið. Þetta var Reinhard Heydrich.
Kadettarnir sem voru í þjálfun um borð í Berlin settu mikinn svip á miðbæjarlíf Reykjavík í nokkra daga í byrjun ágúst 1923. Þeir fylltu kvikmyndahús og kaffihús og Germania hélt sérstakt ball á Hótel Íslandi þeim og offísérum Berlin til heiðurs.
Julius Schopka og aðrir forráðamenn Germaniu voru á þönum að annast þá.
Þetta voru reyndar erfiðir tímar fyrir Þjóðverja því einmitt þessa sumardaga geisaði brjálæðisleg óðaverðbólga í Þýskalandi og kanslarar riðuðu hver af öðrum til falls. Frakkar hersátu Ruhr-hérað í Þýskalandi og það andrúmsloft var að myndast sem Hitler og nasisminn risu síðan upp úr.
En hvað sem erfiðleikum leið báru Þjóðverjar sig vel í Reykjavík og slegið var í fótboltaleik á Íþróttavellinum, fyrirrennara Melavallarins.

Eftir leikinn gáfu KR-ingar heilmikla peninga til hjálpar bágstöddum í Ruhr-héraði en hætt er við að upphæðin hafi verið orðin að nánast engu þegar Berlin komst heim til Þýskalands um tveim vikum síðar.
Til er býsna nákvæm lýsing á þessum fótboltaleik, sem ég birti í bókinni, en ég hef ekki fundið lista yfir hverjir spiluðu fyrir hönd áhafnarinnar á Berlin. Það er hins vegar næstum öruggt að Heydrich hafi verið í liðinu, því þótt hann þætti að ýmsu leyti ólánlegur og skrýtinn hafði hann mikinn metnað í íþróttum og æfði meðal annars fótbolta.
Og sem skjólstæðingi fyrsta stýrimanns hefur honum áreiðanlega verið teflt fram.

Hvort hann skoraði gegn KR er önnur saga.
Heydrich hafði verið viðloðandi öfgasveitir hægrimanna misserin á undan en ekkert benti þó enn til þess hvílíkt voðamenni þarna væri í uppsiglingu.
Hann virtist meira að segja hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að segja skilið við öfgapólitíkina þegar hann gekk í flotann.
Og KR-ingana sem spiluðu við hann hefur vitaskuld ekki grunað að í hópi andstæðinganna í þessum leik væri komið upprennandi illmenni af áður óþekktri stærðargráðu.
Enda hefði hann kannski ekki orðið það ef hann hefði fengið að halda áfram í flotanum. En nokkrum árum eftir komuna til Reykjavíkur var hann rekinn úr flotanum fyrir kvennafar, eins og ég segi samviskusamlega frá í bókinni.
Þá gekk hann í SS-sveitirnar.
Athugasemdir