Dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóri, forstjóri Útlendingastofnunar, þið verðið að segja af ykkur. Þetta má ekki. Þið brugðust. Þið sjáið um þessi mál í nafni þjóðarinnar og þið brugðust.
Hér er ekki hægt að vísa frá sér ábyrgð. Þetta var ykkar gjörð. Flestallir Íslendingar gráta athæfi ykkar og vilja ekki að svona sé farið með fólk á Íslandi. Og allir foreldrar vita hvernig það er að vera komin upp á fæðingardeild eftir níu mánaða meðgöngu, þó ekki séu ríkislögregluljósin blikkandi á þá inn um gluggann.
Meðferð okkar á hælisleitendum og flóttamönnum hefur lengi verið til skammar. Við lifum hér í allsnægtum en erum samt svo ógnar treg að hleypa þurfandi fólki að borðinu. Við rekum hér, eins og danska skáldið sagði um sitt eigið land, fasíska útlendingapólitík, ómannúðlega og smásálarlega. Trekk í trekk hafa svona mál komið upp. En hér gangið þið alveg fram af okkur. Það hefur lengi verið ljóst hversu köld þessi pólitík er en á fyrsta degi í embætti sagði samt nýr dómsmálaráðherra stefnuna vera mannúðlega. Og nú er þá að standa með þeirri mannúð!
Það er gert með því að segja af sér.
26 ára gömul albönsk kona sem komin er níu mánuði á leið er borin út eins og hér sé um að ræða einhverja nútíma tegund af útburði, þeim svarta bletti á sögu landsins. Þar sem þessi atburður mun standa í Íslandssögunni verður dómurinn yfir ábyrgðarfólki hans æði svartur.
Og þetta gerist á vakt tveggja ungra upplýstra kvenna í forsætis- og dómsmálaráðuneyti...
Ábyrgðin er þó einkum hjá þessum þremur, en VG fólk hlýtur að hafa áttað sig á því loks nú að það situr með fallega klæddum fasistum við ríkisstjórnarborðið. (Að hvert ráðuneyti geti síðan haft sína eigin stjórnarstefnu er svo auðvitað bara absúrd dæmi og annar debatt. Stefna allra ráðuneyta á auðvitað að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í heild.)
Lágmarkskrafa er því afsögn þessara þriggja strax og síðan á að senda fólk eins og skot út á eftir albönsku fjölskyldunni og sjá til þess að konan fái alla þá fæðingaraðstoð sem í boði er, hvar sem hún er niðurkomin, og fjölskyldunni verði svo boðið hingað um leið og færi gefst og gefinn ríkisborgararéttur. Til að lágmarka tjónið, til að sýna sæmd og sanna MANNÚÐ.
Við sættum okkur ekki við svona framkomu, við sættum okkur ekki við svona Ísland.
Athugasemdir