„Það er einhver ástæða fyrir því að gefið var út vottorð hjá okkur og það er óskynsamlegt að fara ekki eftir þeim ráðleggingum,“ segir Eva Jónasdóttir, starfandi yfirlæknir fæðingaþjónustu Landspítalans. „Það eru tvö líf í húfi þegar þungaðar konur eru að fljúga og ef þeim er ráðlagt að gera það ekki fylgir því ákveðin áhætta.”
Íslenskir lögreglumenn fylgdu 26 ára konu, sem er gengin 36 vikur á leið, úr landi í morgun með flugvél Icelandair. Ekki var tekið tillit til vottorðs frá lækni á kvennadeild Landspítalans um að hún sé slæm af stoðkerfisverkjum og gæti átt erfitt með langt flug. Sjónarvottar hafa lýst því að konunni hafi verið mikið niðri fyrir nótt, hún verið stressuð og þá hafi byrjað að blæða mikið úr nefi.
Spurð að því hvernig læknar á Kvennadeild Landspítalans líti á þá staðreynd að frekar hafi verið tekið mark á lækni Útlendingastofnunar en lækni á Kvennadeild Landspítalans segir Eva: „Maður myndi ætla að það ætti að líta á og taka mark á nýjasta vottorðinu,“ segir hún. „Vottorð frá læknum sem hitta konuna og skoða hana ætti að sjálfsögðu að vega þyngra en eldra læknisvottorð, eða vottorð frá manneskju sem ekki hefur hitt hana, því erfitt er að meta stöðuna á öðru en að hitta viðkomandi. Auðvitað er það alvarlegt ef ekki er tekið mark á því sem sérfræðingar hérna segja.“
Hún tekur það fram að hún hafi ekki verið á vakt í nótt, þegar fjölskyldan dvaldi á spítalanum, auk þess að hún geti ekki tjáð sig um einstök mál. „En almennt ráðleggjum við konum ekki að fljúga eftir að þær eru gengnar á bilinu 35-36 vikur. Rétt rúmlega 5% kvenna fæða börn sín fyrir 37 vikurnar, þannig að þó að líkurnar séu ekki miklar eru þær vissulega fyrir hendi. Líkamlegt og andlegt álag getur haft áhrif þar á, þó erfitt sé að fullyrða um hvað kemur fæðingu af stað. Mikið álag hjálpar ekki til, ef þú ert viðkvæm fyrir.“
„Það er erfitt að lifa í óvissu með ófætt barn“
Eva segir að vaxandi hópur kvenna í hópi hælisleitenda og flóttafólks leiti á Kvennadeild Landspítalans og til heilsugæslunnar eftir aðstoð. Oft sé fólkið undir miklu álagi. „Já, oft eru þau undir álagi, enda vita þessar konur oft ekki hver verða þeirra næstu skref. Það er erfitt að lifa í óvissu með ófætt barn,“ segir Eva. Konur séu eins misjafnar og þær eru margar og því geti hún fátt sagt um líkamlegt ástand konunna sem send var úr landi. „Það þarf ekki lækni til þess að segja að það mikilvægasta fyrir konu sem gengin er 36 vikur, þegar styttist í fæðingu, er að búa við ró og öryggi og að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, til dæmis hvar hún fæðir barnið sitt. Því miður er því ekki fyrir að fara hjá þessum hópi.“
Útlendingastofnun hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafi fengið vottorð frá lækni á heilsugæslunni á Höfuðborgarsvæðinu um að konan væri ferðafær. „Viðkomandi leitaði síðan sjálf til læknis á kvennadeild Landspítalans þar sem gefið var út annað vottorð og stoðdeild fékk afrit af. Í því vottorði kom ekkert fram um að flutningur viðkomandi úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrirhuguðum flutningi ekki frestað.“
Stundin hefur vottorðið undir höndum. Í því kemur fram: „Það vottast hér með að _____________ er ófrísk og gengin skv. síðustu tíðum 35 vikur og 5 daga. Hún er slæm af stoðkerfisverkjum í baki og ætti erfitt með langt flug.“
Undir vottorðið skrifar læknir á kvennadeild Landspítalans.
Athugasemdir