Fulltrúalýðræðið í stjórnsýslu er stundum skrýtið fyrirbæri.
Í raun og veru snýst málið bara um eitt.
Þjóðin er að ráða fólk í vinnu.
Vinnufólkið á að annast daglegan rekstur þess heimilis sem samfélag okkar er.
Sjá um að sópa út í horn, skipta um rúður sem brotna, undirbúa framkvæmdir í stigaganginum, taka út úr þvottavélinni, tappa lofti af ofnunum og ganga úr skugga um að það sé matur í ísskápnum.
Fyrir þessi viðvik hefur vinnufólkið góð laun, einhver þau bestu í samfélaginu og býr við margvísleg hlunnindi sem ekki nærri allir landsmenn njóta.
En það er samt og verður vinnufólk í þjónustu þjóðarinnar.
Það er samt ekki allt eins og best verður á kosið, því miður.
Þegar skipt var frá ofurvaldi og alræði konungsstjórna og keisara- yfir í fulltrúalýðræðið, þá urðu óþarflega margir afkimar hins gamla valdastrúktúrs eftir í skipulaginu.
Afkimar? Segðu heldur heilir salir.
Og þar fékk valdagírugt fólk tækifæri til að hreiðra um sig.
Afleiðingin er meðal annars sú að vinnufólkið, sem þjóðin ræður til starfa, getur orðið of valdamikið. Það fer að ráðskast með vinnuveitendur sína í stað þess að líta á sig sem starfsfólk.
Grunnlög samfélagsins
Það verður eins og leigjandinn í sögu Svövu Jakobsdóttur eða Lúkas í leikriti Guðmundar Steinssonar.
Tekur völdin á heimilinu. Og svo fer allt að snúast um að það haldi þeim völdum og hlunnindum sínum. Það rekur lævíslegan áróður meðal heimilisfólks um að glati það völdum sínum fari allt í hund og kött.
Skúmaskot fyllist af ló, mjólkin súrni í ísskápnum, málning flagni í stigaganginum! Vei, ó vei!
Fyrir réttum sjö árum síðan fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla.
Hún snerist ekki um neinn hégóma, heldur um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins.
Þær grundvallarreglur sem þjóðin vill byggja samfélag sitt og samveru á.
Núverandi stjórnarskrá er, þrátt fyrir ýmsar lagfæringar gegnum tíðina, enn byggð á gömlu útlensku plaggi sem ber margvísleg merki gamla ofurvaldakerfisins sem fulltrúalýðræðið leysti af hólmi.
Nú átti að bæta úr því, að gefnu tilefni.
Þjónar sægreifanna
Eftir vandaðan undirbúning, þjóðfund, rannsóknir á fyrri tilraunum til að skrifa nýja stjórnarskrá, ýmislega aðkomu almennings og sérfræðinga, þá var skrifuð ný stjórnarskrá af svonefndu stjórnlagaráði.
Mér er auðvitað málið skylt, skal tekið fram. Ég sat í þessu stjórnlagaráði.
Stjórnlagaráð skilaði plaggi sínu 2011. Eftir að vandlega hafði verið farið yfir það og fáeinum atriðum hnikað til greiddi þjóðin sem sagt atkvæði um það í október 2012.
Þetta plagg var hins vegar ekki alveg óumdeilt. Íhaldsmenn ýmsir fýldu grön. Og þó aðallega sægreifarnir.
Sægreifarnir hafa hreiðrað um sig í penthúsi samfélagsins. Þar er allt í plussi og marmara og þar lyktar allt upp úr og niðrúr af bönunum. Og sægreifarnir ætla sannarlega ekki að taka sénsinn á að þurfa að flytja niður í kjallara. Þess vegna reyna þeir, með sorglega góðum árangri, að taka fulltrúalýðræðið herskildi.
Stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins skuli sem flestir vera þjónar þeirra, ekki starfsfólk þjóðarinnar.
Örvar ógæfunnar
Vegna ákvæða nýju stjórnarskrárinnar um auðlindir í þjóðareign, gagnsæi, upplýsingu og fleira, þá litu sægreifarnir á hana sem sannkallaða ógæfu.
Og í stað þess að þreyja þolinmóðir hið grimma él af örvum ógæfunnar, sem þeim fannst vera, þá ákváðu sægreifarnir að grípa vopn mót bölsins brimi og knýja það til kyrrðar.
Og sægreifarnir og þjónar þeirra hófu því opinskáa baráttu gegn nýju stjórnarskránni sem þjóðin ætlaði að setja sér.
Það dugði ekki. Þrátt fyrir linnulausan áróður og nærri vitfirringslegt málþóf þjóna sægreifanna á Alþingi samþykktu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratvæðagreiðslunni 2012 að plagg stjórnlagaráðs yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Sérstakri ánægju var lýst með auðlindaákvæðið sem sægreifunum var svo uppsigað við.
Sægreifarnir og þjónar þeirra urðu að skipta um gír. Nú skyldi stinga plagginu niður í skúffu og láta það rykfalla þar.
Og það hefur síðan verið höfuðverkefni allra nýrra þjóna sægreifanna.
Vilji þjóðarinnar skal að engu hafður, vilji sægreifanna skal fá að ráða.
Til svo mikilla bóta
Samt hefur svo berlega komið í ljós síðustu sjö árin að nýja stjórnarskráin hefði verið til ótrúlega mikilla bóta á svo mörgum sviðum.
Ekki bara í auðlindamálum, ekki bara í upplýsinga- og gegnsæismálum.
Líka til dæmis í umhverfismálum, en að því leyti er nýja stjórnarskráin mjög framsækin.
Sægreifunum og þjónum þeirra er þó sama um það.
Nýjasta trix þeirra er að láta eins og nýja stjórnarskráin sé alls ekki til. Þeir þykjast nú ætla að semja stjórnarskrá og eru svo guðdómlega ósvífnir að segjast munu gera það með sérstakri „aðkomu þjóðarinnar“.
Ekki eitt orð
Í grein sem sjálfur forsætisráðherra þjóðarinnar skrifaði á dögunum um „stjórnarskrárumbætur“ var ekki minnst á nýju stjórnarskrána.
Ekki einu orði.
Þó lýsti þessi sami stjórnmálamaður hvað eftir annað stuðningi við nýju stjórnarskrána á sínum tíma.
Ég er náttúrlega að tala um Katrínu Jakobsdóttur.
Hún er formaður í starfsmannafélagi samfélagsins og ætti að vera manna fremst í að framfylgja vilja íbúanna.
Í staðinn er hún orðin þjónn þeirra í penthúsinu.
Reyndar snýst málið samt auðvitað ekki um hvort tilteknir stjórnmálamenn styðja persónulega ákvæði nýju stjórnarskrárinnar eða ekki.
Það skiptir í raun og veru engu máli.
Heilög skylda
Það sem skiptir máli er að hér á að heita lýðræði og samkvæmt leikreglum lýðræðisins samþykktu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu nýja stjórnarskrá.
Ný grunnlög samfélagsins.
Það á að vera – mér liggur við að segja heilagt hlutverk þeirra sem fara með stjórn í húsfélaginu á hverjum tíma að hrinda niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í framkvæmd.
Það liggur svo í augum uppi að það ætti ekki að þurfa að nefna það.
Hvað hefur þá komið fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og VG?
Af hverju taka þeir hagsmuni sægreifanna fram yfir skýran vilja í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Hví gerir forsætisráðherra það?
Dapurleg örlög
Það eru dapurleg örlög fyrir ungan og framsækinn stjórnmálamann að taka þátt í þöggun sægreifanna.
Að hafa á sínum tíma stutt framsækin grunnlög sem þjóðin vildi setja sér – framsækin á sviði auðlindamála, upplýsingamála, umhverfismála, stjórnsýslu – en vera nú partur af sjö ára svívirðu.
En svona er þetta.
Við hreinsuðum ekki nógu vel út úr valdasölunum.
Sægreifarnir eru enn við skotraufarnar, og þjónar þeirra.
En hafa þjónarnir engar áhyggjur af orðspori sínu?
Í sögubókum framtíðarinnar munu menn nefnilega furða sig á því af hverju þjóðaratkvæðagreiðslunni var ekki samstundis framfylgt. Hvurslags lýðræði var þetta? verður spurt.
Og þá verður of seint að bjarga orðsporinu.
Athugasemdir