Rekstrarfélag Útvarps Sögu hagnaðist um 1,6 milljónir króna í fyrra samkvæmt nýbirtum ársreikningi þess. Er fjölmiðillinn einn fárra einkarekinna miðla á Íslandi sem skilað hefur hagnaði undanfarin ár.
Félagið SagaNet - Útvarp Saga ehf. er að fullu í eigu Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra. Fjölmiðillinn hagnaðist um 2,4 milljónir króna árið 2017 og 1,3 milljónir króna árið 2016, en fyrra rekstrarfélag hans var úrskurðað gjaldþrota í lok árs 2014.
Samkvæmt ársreikningnum standa tekjur félagsins að mestu saman af kostun og styrkjum. Á vef útvarpsstöðvarinnar er velvildarmönnum boðið að styrkja hana um fasta upphæð mánaðarlega. Stöðin fékk 37 milljónir króna vegna kostunar í fyrra og 14,7 milljónir króna í styrki. Kostnaður við dagskrárgerð dróst verulega saman á milli ára, en á móti nær tvöfaldaðist launakostnaður, mestmegnis vegna kostnaðar við textagerð og auglýsingasölu.
Athugasemdir