Verkalýðsfélög leggjast gegn lækkun erfðafjárskatts þar sem hún muni leiða til niðurskurðar í opinberri þjónustu. ASÍ og BSRB segja engin rök fyrir lækkun skattsins með þeim hætti sem stjórnvöld áætla að gera.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, birti frumvarp um lækkun erfðafjárskatts á samráðsgátt stjórnvalda á miðvikudag. Skatturinn lækkar um helming á upphæðir undir 75 milljónum króna og verður ríkissjóður af tveimur milljörðum vegna þessa á næsta ári verði frumvarpið að lögum.
„ASÍ telur erfðafjárskatt skilvirka og réttláta leið til tekjuöflunar sem vinnur gegn ójöfnuði og óæskilegri samþjöppun auðs milli kynslóða,“ segir í umsögn sambandsins, sem Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, skrifar undir. „ASÍ telur engin rök mæla með lækkun erfðafjárskatts líkt og áformað frumvarp gerir ráð fyrir. Þá áréttar ASÍ afstöðu sína um að þegar hafi verið of hart gengið fram í að rýra tekjustofna ríkisins og rekstur ríkissjóðs er samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga í járnum á komandi ári. Frekari lækkun á tekjum, líkt og hér er lögð til, mun því að óbreyttu kalla á enn frekara aðhald og niðurskurð í opinberri þjónustu.“
Í umsögn BSRB er svipuð afstaða tekin og bent á að sú upphæð sem ríkissjóður verður af vegna skattalækkunarinnar samsvari árlegum beinum framlögum ríkisins til Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. „Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni kemur fram að miðgildi heildarverðmætis dánarbúa árið 2017 var 14,5 mkr. og miðgildi arfsfjárhæðar erfingja var 3,5 mkr. sama ár,“ segir í umsögninni sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, skrifar undir. „Þrepamörk við 75 mkr. eru því verulega há en ekki liggur fyrir rökstuðningur á því viðmiði. BSRB varar við frekari veikingu skattstofna ríkissjóðs og þar með lækkun á hlutfalli erfðafjárskatts. Standi vilji til að lækka skatthlutfall erfðafjárskatts væri nær að skoða einhverja hækkun á skattfrjálsa hluta skattstofnsins.“
Í frumvarpinu er lagt til að erfðafjárskattur verði þrepaskiptur þannig að hann nemi 5 prósentum af fjárhæð allt að 75 milljónum króna, en 10 prósentum af því sem er umfram þá upphæð. Skatturinn er nú 10 prósent óháð fjárhæð. Þá er einnig lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepanna taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Fyrirframgreiddur arfur verður skattlagður á hærra skattþrepinu, það er 10 prósent.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti verði 5,2 milljarðar króna. Verði þrepaskiptingunni komið á með lögum munu tekjurnar lækka um 2 milljarða og verða 3,2 milljarðar. Tekið er fram að ráðstöfunartekjur þeirra sem fá arfi úthlutað muni hækka á móti.
Athugasemdir