Ég var sex ára þegar ég fór í fyrsta sinn í dýragarð, það var í Kaupmannahöfn. Þetta var á þeim árum þegar ég las fjölfræðibækur og ætlaði að verða dýrafræðingur þegar ég yrði stór svo auðvitað heillaðist ég. Ég man enn eftir einu ljóninu frá þessari heimsókn, það var ljónynja sem lá grafkyrr, teygði svo allt í einu úr sér og leit í kringum sig á mannfólkið sem skoðaði hana. Ég var svo lítill að hún kom ekki auga á mig í mannþrönginni og ég man að ég var feginn því, jafnvel svo heillaður sem ég var áttaði ég mig á það væri eitthvað skrýtið við þetta. Hún hafði verið fönguð og flutt yfir hálfan hnöttinn svo ég gæti gónt á hana. Þetta gat ekki verið alveg eðlilegt.
Ég hugsaði þetta þó ekki til enda þá og hef reyndar varla lokið því ennþá af. Í flestöllum stórborgum sem ég hef komið í og hafa dýragarð, þar hef ég verið mættur að virða dýrin fyrir mér, alltaf jafn heillaður af því hvað þau eru framandleg annars vegar og kunnugleg hins vegar. Þegar þetta er skrifað er ég í Berlín og brá mér náttúrlega í dýragarðinn og hreifst af sem fyrr, en samviskubitið er farið að glefsa óþægilega nærri mér. Hvaða leyfi höfum við til að loka inni dýrin svo við getum fullnægt þörf okkar fyrir að forvitnast, heillast, óttast og hrífast? Þurfum við slíkt leyfi? Og hver veitir það þá? Þau? Eða samviska mín sjálfs?
„Hvaða leyfi höfum við til að loka inni dýrin svo við getum fullnægt þörf okkar fyrir að forvitnast, heillast, óttast og hrífast?“
Er það eingöngu anþrópómorfismi að fá samviskubit yfir því að loka inni sumar dýrategundir en ekki aðrar? – en afþrópómorfismi er sú tilhneiging að gera dýrum upp mannlega eiginleika, þrár og langanir, ótta og áhyggjur. Er það af yfirlæti „góða fólksins“ sem menn eru farnir að efast æ meira um sjálfan tilverugrundvöll dýragarða, eða erum við loksins að koma sjálf fyrir okkur vitinu – og átta okkur á að við höfum ekkert leyfi til að loka inni aðrar dýrategundir til að horfa á þær – ekki frekar en við hefðum leyfi til að loka inni mannfólk til að stara á það bak við rimla?

Hér fyrrum hefði ég sagt fullum fetum að dýragarðar væru algjörlega réttlætanleg fyrirbæri af því þeir kenna okkur að meta og jafnvel virða dýrin, og náttúruna þar með. Og að þeir hafi átt sinn þátt í að vekja vitund okkar um að við erum ekki ein í heiminum, heldur deilum við jörðinni með óteljandi öðrum dýrategundum. Ég veit ekki hvort það er eitthvað til í því. Það hefur tíðkast allt frá því á ævafornum dögum Rómverja og Kínverja að halda dýragarða; samt er það rétt nú hin allra síðustu ár sem við erum farin að hugleiða réttlætingu þess að loka dýrin inni að fullnægja forvitni okkar.
Og eru dýrin, sem ég horfði nú á í Berlín, þau dýr sem einstaklingar, eru þau einhverju bættari þótt skólakrakkarnir, sem koma í löngum röðum til að horfa á þau, muni vaxa úr grasi full af virðingu fyrir dýrum?
Athugasemdir