Sáttanefnd Guðmundar- og Geirfinnsmála fundaði með Einari Karli Hallvarðssyni ríkislögmanni þann 12. október 2018 og fékk kynningu frá honum á almennu verklagi hjá embættinu við ákvörðun bóta, hefðum í samskiptum við lögmenn og uppgjörs- og útgreiðsluaðferðum.
Þetta kemur fram í fundargerð af fyrsta fundi nefndarinnar sem Stundin hefur undir höndum. Nefndin var skipuð síðasta haust til að leiða viðræður við hina sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fyrir hönd stjórnvalda og ber samkvæmt skipunarbréfi að hafa samráð við ríkislögmann.
Einar Karl er sonur Hallvarðar Einvarðssonar sem var vararíkissaksóknari þegar rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum hófst árið 1975. Hallvarður kom umtalsvert að rannsókn málanna og yfirheyrslum yfir sakborningum. Hann var einn þeirra sem fengu svo réttarstöðu sakbornings þegar harðræði lögreglu var rannsakað árið 1979.
Eftir að hafa farið yfir almennt verklag hjá embætti ríkislögmanns í bótamálum á fundinum 12. október greindi Einar Karl nefndinni frá því að hann væri vanhæfur til aðkomu að málinu. „EKH gerði nefndinni viðvart um vanhæfi sitt og tilkynnti að settur yrði ríkislögmaður í þessu tiltekna máli,“ segir í fundargerð þar sem fram kemur að Einar hafi vikið af fundinum.
Í kjölfarið setti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Andra Árnason hæstaréttarlögmann sem ad hoc ríkislögmann vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála. Samhliða því hefur hann gegnt óformlegra hlutverki fyrir hönd forsætisráðuneytisins og sáttanefndarinnar við að kanna möguleikann á sáttum við hina sýknuðu og niðja þeirra.
Athugasemdir