Alþingi hefur lengi notið lítils trausts landsmanna. Við göngum reglulega á kjörstað og kjósum okkur vinnufólk, það sem við treystum til þess að bæta svo vinnubrögðin á þessari lagasamningaskrifstofu að það eigi skilið kaupið sitt. En ansi ætlar það að ganga illa. Það virðist nokkuð sama hve fólk er bjarteygt og staðráðið í að standa sig og gera sitt besta til að leggja af trénuð handarbakavinnubrögð fyrri tíma. Á undraskömmum er fólk farið að samsama sig þeim undarlega vinnukúltúr sem þarna virðist ríkjandi, fólk er farið að segja „við stjórnmálamenn“ um sjálft sig, hætt að læka sjálfkrafa á Facebook það sem það er í rauninni sammála, heldur hugsar sig greinilega um: „Hentar það mér pólitískt að gefa upp þessa skoðun?“
Mál Bergþórs Ólasonar er sorglegt dæmi um hvernig Alþingi virðist ófært um að bæta öllu fleira í sínu starfi heldur en að hækka launin sín.
Gorgeir og hrossaskapur
Bergþór á að taka við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd. Enginn, nema Miðflokkurinn, vill að Bergþór verði formaður nefndarinnar. Ég nenni ekki að fjölyrða um af hverju, en mér finnst það mjög skiljanlegt. Maðurinn sem „afrekaði“ það á Klausturbar sem Bergþór gerði og hefur ekki tekist betur á við það en svo að hann tók þátt í að fara með gorgeir miklum og hrossaskap í mál við konuna sem blöskraði viðurstyggðin á Klaustri, sá maður á ekki að gegna sérstöku ábyrgðarstarfi á Alþingi Íslendinga. Og ég ætla mér að hafa þá skoðun, þótt ég kjósi ekki Miðflokkinn. Ég tek þátt í að borga hin ágætu laun Bergþórs Ólasonar og má alveg hafa skoðun á því að hve miklu leyti hann á að vera minn fulltrúi.
„Atkvæðagreiðslan 2-0 verður lengi í minnum höfð.“
En semsé, þótt enginn vilji Bergþór sem formann þessarar blessuðu nefndar, þá skal hann verða það samt. Og atkvæðagreiðslan 2-0 verður lengi í minnum höfð. Fulltrúar allra flokka sátu hjá. Fulltrúi Pírata, Björn Leví, lýsti sig að vísu andvígan þessum frama Bergþórs en hann er bara áheyrnarfulltrúi í nefndinni og hefur ekki atkvæðisrétt. En af hverju gerðu þeir allir hjá sem greiddu atkvæði?
Af hverju, Svandís?
Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar segjast hafa orðið að sitja hjá vegna þess að eftir að þeir hefðu fellt Bergþór hefðu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna ætlað að kollvarpa samkomulagi við stjórnarandstöðuna um nefndaskipan. Og þeir hefðu þá tekið yfir allar nefndirnar.
Mér finnst þetta með slíkum ólíkindum að mig setur hljóðan. Af hverju tekur Svandís Svavarsdóttir þátt í að neyða Bergþór Ólason upp á umhverfisnefnd, sem vill hann ekki, með hótunum um valdbeitingu? Af hverju tekur Kolbeinn Óttarsson Proppé, ljómandi geðugur fýr sem hann er, af hverju tekur hann þátt í að kúga fólk sem vill ekki sitja undir formennsku Bergþórs Ólasonar við sín mikilvægu störf sín?
Ha, Katrín?
Næst þegar Katrín Jakobsdóttir kemur svo skælbrosandi fyrir sjónvarpsvélarnar og segir eitthvað djúphugsað um konur, vill þá einhver spyrja hana fyrir mig af hverju flokkurinn hennar hafi með fyrrnefndum hætti skotið skildi fyrir mann sem talar um konur eins og Bergþór Ólason gerði.
Hvaða nauðsyn bar VG til þess að krefjast þess af Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum að ekki mætti stoppa Bergþór, þá yrði allt samkomulag fyrir bí?
Ég tala nú ekki um aðra flokka.
Af hverju?
Athugasemdir