Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er orðinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis eftir að fulltrúar annarra flokka en Miðflokksins kusu að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um formennskuna. Fréttablaðið greindi fyrst miðla frá þessu nú fyrir stundu.
Tæpt ár er liðið síðan Stundin og DV birtu upptökur af svívirðingum sem Bergþór lét frá sér í drykkjusamsæti með fleiri þingmönnum á veitingastaðnum Klaustri. Á meðal þess sem Bergþór sagði var að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, væri „húrrandi klikkuð kunta“, að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum væri „miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum“, að Albertína Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar hefði reynt að nauðga honum, að hann vildi hafa kynmök við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og að hún væri „skrokkur sem typpið á mér dugði í“. Sagði hann að það hefði „engin gugga teymt [sig] meira á asnaeyrunum en hún sem [hann hefði] ekki fengið að ríða“. Hann baðst afsökunar á hegðun sinni og tók sér leyfi frá þingstörfum um skeið.
Athygli vakti svo þann 9. apríl síðastliðinn þegar Bergþór kvaddi sér hljóðs á vettvangi Evrópuráðsþingsins og kvartaði þar undan ósanngjarnri umræðu á Íslandi um ummæli sín. Þá varaði hann við því að tekið væri of harkalega á kynferðislegri áreitni þingmanna í Evrópu.
Að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins hlaut Bergþór aðeins tvö atkvæði sem formaður þingnefndarinnar, frá sjálfum sér og Karli Gauta Hjaltasyni sem einnig lét að sér kveða á Klaustri bar í fyrra. Aðrir nefndarmenn sátu hjá, en með því heldur samkomulag sem gert var í upphafi kjörtímabilsins um skiptingu formannssæta þingnefnda milli flokka.
Athugasemdir