Yfirleitt heyrum við um loftslagsmál í samhengi við vísindi, stjórnmál eða hagkerfi. Samhengið litar umræðuna, hvernig við mótum okkur afstöðu og til hvaða aðgerða við erum tilbúin að grípa. Í umræðu um stjórnmál eigum við það til að bregðast við sem kjósendur, í umræðu um hagkerfi eru viðbrögð okkar að vera betri neytendur. En loftslagsmál eru líka siðferðislegt málefni og réttlætismál. Séð sem slíkt gefur það okkur annars konar afstöðu og annars konar forsendur til aðgerða. Það gefur okkur annars konar tungumál og tilfinningalega dýpt til að tjá okkur um málefnið. Við bregðumst öðruvísi við siðferðilegu broti heldur en við bregðumst við hráum vísindalegum upplýsingum. Ef okkur þykir eitthvað óréttlátt eða siðferðilega rangt snertir það okkur, við verðum sárreið, hneyksluð, og það veitir okkur drifkraft og vilja til aðgerða og breytinga.
„Allt siðferði sem hingað til hefur þróast byggist á stakri forsendu: að einstaklingurinn sé meðlimur í samfélagi gagnvirkt samháðra fyrirbæra. Eðlishvöt hans hvetur hann til að keppast eftir betri stöðu innan þessa samfélags, en siðferði hans hvetur hann til samvinnu (hugsanlega í þágu þess að það sé einhver staða til að keppast eftir).
Siðferði landsins víkkar einfaldlega út mörk samfélagsins til að telja með jarðveginn, vatnið, plönturnar, og dýrin, eða sameiginlega: landið.“
Svo ritaði Aldo Leopold árið 1949 um siðferði landsins, löngu áður en menn óraði fyrir raunverulegum afleiðingum þess að gefa einstaklingshyggjunni virkilega lausan tauminn. Þegar samkeppni milli kapítalískra fyrirtækja á mörkuðum valda slíkri eyðileggingu og mengun að við sjáum fram á sjöttu stóru útrýmingu dýrategunda í jarðsögunni og hamfarahlýnun vegna loftslagsbreytinga sem gjörbreytir forsendum lífs og mannlegs samfélags á komandi áratugum, þá er það siðferðilegt brot af grófustu gerð. Það sýnir vanmátt okkar samfélags til þess að skynja gagnvirk og samháð tengsl okkar við breiðari veruleika; náttúruna, landið, lifandi vistkerfi. Það er siðferðilegt brot sem við eigum að sýna djúpa vanþóknun okkar á með orðum og gerðum.
„Við eigum að bregðast við með viðeigandi réttlátri reiði“
Þegar börnunum okkar er neitað um mannsæmandi framtíð er það óréttlæti í dýpsta skilningi þess hugtaks. Það er stundum talað um rétt komandi kynslóða sem einhvers konar afstætt, fjarlægt og tæknilegt hugtak í umræðunni um loftslagsmál. En börnin mín munu að öllum líkindum lifa til ársins 2100. Eða jafn langt og loftslagsspár dagsins í dag spá fyrir um. Réttur þeirra til virðingu, reisnar og mannsæmandi lífs er hvorki afstæður né fjarlægur. Allar aðgerðir til að auka við olíuvinnslu, eða þenja út framleiðslu og neyslu á kostnað lifandi vistkerfa, fela því í sér djúpstætt grundvallar óréttlæti gagnvart mínum börnum og öllum börnum sem alast upp í þessum heimi.
Ef einhver ógnar börnunum okkar eða hótar að vinna þeim mein í framtíðinni þá skynjum við það sem siðferðilega rangt. Ef einhver bregst ekki við til að aðstoða börn í hættu er það almennt líka talið siðferðilega rangt. Ef við bregðumst ekki við loftslagsvandanum er það siðferðilega rangt á sama hátt. Ef einhver neitar að grípa til viðeigandi aðgerða eða vinnur markvisst að eyðingu vistkerfa og uppgreftri og brennslu jarðefnaeldsneyta þá er sá sami einstaklingur að vinna börnunum okkar skaða og við eigum að bregðast við með viðeigandi réttlátri reiði.
„Það er aldrei þægilegt að horfast í augu við óréttlæti sem maður hefur sjálfur tekið þátt í að skapa og viðhalda“
Ástæðan fyrir því að ég tel það æskilegt að tala um loftslagsmál sem siðferðilegt mál eða réttlætismál er sú að það gefur okkur tæki til þess að byrja að breytast á annan hátt. Ekki sem neytendur eða kjósendur heldur sem manneskjur og sem samfélag. Á tuttugustu öld stigu fram í sviðsljós sögunnar menn og konur sem náðu miklum árangri í því að breyta sínum samfélögum með siðferðilegri orðræðu og friðsamlegum beinum aðgerðum. Réttindabarátta svartra Bandaríkjamanna er þar gott dæmi. Þær aðgerðir sem þeir gripu til voru friðsamar, en þær voru ekki alltaf þægilegar eða auðveldar fyrir þeirra samfélög. Það er aldrei þægilegt að horfast í augu við óréttlæti sem maður hefur sjálfur tekið þátt í að skapa og viðhalda. En með orðum Martin Luther King úr bréfi hans frá Birminghamfangelsi:
„Friðsamlegar beinar aðgerðir leitast við að skapa slíka krísu og mynda slíka skapandi spennu að samfélag sem hefur statt og stöðugt neitað að semja er þvingað til að horfast í augu við málefnið. Þær leitast við að draga málefnið fram í sviðsljósið svo það sé ekki lengur hægt að hunsa það. Ég minntist á að skapa spennu sem hluta af því sem friðsamir aðgerðasinnar gera. Þetta kann að þykja hneykslanlegt. En ég viðurkenni að ég er ekki hræddur við orðið spenna. Ég hef í einlægni unnið að og predikað gegn ofbeldisfullri spennu, en það er líka til uppbyggileg friðsamleg spenna sem er nauðsynleg til þess að vaxa.“
Það er okkar allra að taka höndum saman og mynda þá uppbyggilegu spennu sem King talaði um svo að okkar samfélag geti horfst í augu við óréttlætið og siðleysið í afstöðu okkar til náttúrunnar og framtíðarinnar. Við þurfum, með friðsömum beinum aðgerðum, að draga siðferði landsins og rétt komandi kynslóða fram í sviðsljósið og byggja upp stigvaxandi skapandi spennu svo við getum vaxið og þroskast sem samfélag. Gott fyrsta skref væri að sýna yfirgnæfandi samstöðu og samhug um þetta málefni með því að styðja loftslagsverkföll ungmenna í orði og í verki og með því að taka þátt í allsherjarverkfalli fyrir loftslagið 20. til 27. september.
Athugasemdir