Birtingur ehf., sem gefur út tímaritin Mannlíf, Vikuna, Gestgjafann og Hús og híbýli, tapaði 168 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Eigið fé félagsins dróst saman um 50 milljónir króna á árinu.
Á ársreikningnum má sjá að þrátt fyrir að tekjur hafi aukist verulega á milli ára og launakostnaður dregist saman hefur taprekstur félagsins versnað á milli ára. Munar þar mest um liðinn „annar útgáfukostnaður“ sem jókst um 156 milljónir króna milli ára.
Birtingur tapaði 92 milljónum króna á rekstri sínum árið 2017. Eigandi Birtings er fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., sem er alfarið í eigu Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra hjá Alvogen, sem hefur séð um samskipti við fjölmiðla fyrir Róbert Wessmann, forstjóra Alvogen. Hlutafé félagsins hefur verið hækkað um alls 308 milljónir króna undanfarin tvö rekstrarár.
Róbert sjálfur fór út úr hluthafahópi Dalsins í fyrra. Í apríl í fyrra seldu Róbert, Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, og Jóhann G. Jóhannsson, sem einnig starfar hjá lyfjafyrirtækinu, hluti sína til Halldórs. Samstarfsmennirnir keyptu Birting sumarið 2017 eftir að fyrirhuguð kaup Björns Inga Hrafnssonar og fjölmiðlasamsteypunnar Pressunnar á útgáfufélaginu urðu að engu.
Birtingur hafði áður sett tugmilljóna króna hlutafé inn í Pressuna vorið 2017 en miklar deilur komu upp í kjölfarið þegar í ljós kom að helstu eignir félagsins höfðu áður verið seldar félaginu Dalsdal ehf. í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, nú eiganda DV. Standa málaferli vegna þessa enn yfir í tengslum við slitameðferð á Pressunni.
Athugasemdir