Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri og aðaleigandi Samherja, eins stærsta útgerðarfyrirtækis í Evrópu og á meðal auðugustu Íslendinga. Heildartekjur hans voru 274 milljónir árið 2016 og 476 milljónir árið 2017. Tekjur hans árið 2018 eru því nokkru lægri en árin á undan. Þorsteinn var með tæpar 4 milljónir króna í almennar tekjur á mánuði á síðasta ári.
Stundin fjallaði nýlega um gríðarlega auðsöfnun hans í Eignarhaldsfélaginu Steini sem hann á með Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu sinni, en félagið á 40 milljarða hreina eign. Að stærstum hluta eru eignirnar hlutabréf í Samherja. Samherji er annar stærsti kvótahafi Íslands en einungis þriðjungshluti starfseminnar fer fram hér á landi. Útgerðarfyrirtækið hefur staðið í fjölþættum rekstri á aflands- og lágskattasvæðum í gegnum árin og rekur t.d. enn útgerð í Afríku í gegnum Kýpur. Samherji skilaði 14,4 milljarða hagnaði árið 2017 og greiddi hluthöfum 1220 milljónir í arð.
Athugasemdir