Stundin gefur í dag út prentútgáfu með lista yfir rúmlega tvö þúsund tekjuhæstu Íslendinga út frá skattgreiðslum ársins 2018 í sérstöku hátekjublaði. Er þetta í fyrsta skipti sem svo ítarlegar upplýsingar um tekjuhæsta 1 prósentið á Íslandi eru gefnar út á prenti.
Upplýsingarnar eru annars eðlis en þær sem koma fram í tekjublöðum Frjálsrar verslunar og DV. Í fyrsta lagi er aðeins litið efst í tekjustigann og einstaklingar flokkaðir eftir sveitarfélögum en ekki starfsstéttum. Í öðru lagi tekur umfjöllunin ekki aðeins til atvinnutekna og lífeyristekna heldur einnig fjármagnstekna.
Í blaðinu er rýnt sérstaklega í stöðu tekjuhæsta 0,1 prósentsins á Íslandi, en sá hópur samanstendur að miklu leyti af eigendum og stjórnendum fyrirtækja, útgerðarmönnum, bankamönnum, fjárfestum, fólki sem seldi hlutabréf í fyrirtækjum fyrir umtalsverða fjármuni í fyrra eða erfði miklar eignir. Alls runnu um 46 milljarðar til þessa hóps, þar af 76 prósent í formi fjármagnstekna sem bera mun lægri skatt en launatekjur. Þannig greiddi tekjuhæsta 0,1 prósentið greiddi um 26 prósent tekna sinna í skatt árið 2018.
Ítarleg umfjöllun birtist í prentútgáfu Stundarinnar sem nálgast má rafrænt hér.
Athugasemdir