Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 19,1 prósent í nýrri könnun MMR og helst óbreytt frá síðustu mælingu í júlí. Samfylkingin mælist með 16,8 prósenta fylgi og hefur hækkað um fjögur prósentustig á milli mælinga.
Samkvæmt könnuninni heldur fylgi ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áfram að dvína. Mælist stuðningur við ríkisstjórnina 38,8 prósent, samanborið við 40,3 prósent í síðustu könnun.
Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkur landsins með 13 prósenta fylgi. Vinstri græn mælast með 11,5 prósenta fylgi, en flokkurinn mældist með 12,5 prósent í síðustu könnun. Það er hins vegar fylgi Pírata sem dregst mest saman á milli mælinga, er nú 11,3 prósent en var 14,1 prósent áður. Mælist flokkurinn nú fimmti vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins, en hann var í öðru sæti í júlí.
Framsóknarflokkurinn mælist með 10,4 prósenta fylgi, en var með 8,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar mælist 9,3 prósent, en fylgi Flokks fólksins dregst saman á milli mælinga. Mældist flokkurinn með 6,8 prósent í júlí, en 4,1 prósent nú. Loks mælist Sósíalistaflokkur Íslands með 2,9 prósenta fylgi. 990 manns í spurningavagni MMR voru spurðir og var könnunin framkvæmd 12. til 19. ágúst.
Athugasemdir